Fara í efni

Fréttir

Þróun starfshæfnismats í samvinnu við Noreg

Sérfræðingur VIRK fór nýlega á fund í Osló með yfirmönnum Rauland sem er þróunarmiðstöð rannsókna í starfsendurhæfingu í Noregi (kompetansesenter). Rauland gegnir einnig því hlutverki að vera starfsendurhæfingarstöð.  Mikill áhugi er á að prófa verkferla og verkfæri VIRK í grunnmati og sérhæfðu mati í starfsendurhæfingunni sjálfri með það að leiðarljósi að nýta það í klínískri notkun og samvinnu um framþróun þessara verkfæra. Rannsóknarhluti Rauland hefur einnig mikinn áhuga á að koma að frekari rannsóknum verkfæranna og notkun þeirra  m.a. með það að markmiði að geta birt slíkt í alþjóðlegum tímaritum. Áhugi þeirra er ekki síst sá að setja sig með þessum hætti í fremstu röð í notkun ICF (International Classification of Function) í starfsendurhæfingu  í Noregi.

Fræðsludagar ráðgjafa VIRK

Fyrstu fræðsludagar  haustsins hjá  ráðgjöfum VIRK í starfsendurhæfingu voru haldnir 11-12. september síðastliðinn í Reykjavík.  Á dagskrá var m.a. fræðsla um andleg veikindi sem mikilvægt er fyrir ráðgjafa í starfsendurhæfingu að hafa góða innsýn í í sínu starfi. Til leiks voru fengnir mjög færir sérfræðingar á þessu sviði og má þar nefna Valgerði Baldursdóttir yfirlækni geðsviðs Reykjalundar og Héðinn Unnsteinsson sérfræðing í stefnumótun hjá Forsætisráðuneytinu.  

Þrír nýir ráðgjafar

Þrír nýir ráðgjafar hafa tekið til starfa hjá stéttarfélögum í samstarfi við VIRK. Elín Reynisdóttir hóf störf hjá stéttarfélögunum á Akranesi, Guðleif Birna Leifsdóttir hjá BHM, KÍ og SSF og Hanna Dóra Björnsdóttir hjá stéttarfélögum á Norðurlandi vestra.

Lögfesting á greiðsluskyldu launagreiðenda til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs frá og með september 2011

Samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi í júní síðastliðnum (breyting á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða) þá ber öllum launagreiðendum að greiða 0,13% af heildarlaunum allra starfsmanna sinna til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs frá og með 1. september 2011 – þ.e. miða skal við iðgjaldastofn septembermánaðar 2011.  Fram að þessum tíma hefur einungis verið kveðið á um greiðsluskyldu í kjarasamningum en nú nær hún til allra launamanna samkvæmt lögum þar með talið til sjálfstæðra atvinnurekenda og þeirra sem ekki eru félagsmenn stéttarfélaga. Launagreiðendum ber að standa skil á iðgjaldinu til viðkomandi lífeyrissjóðs með sama hætti og gildir um lífeyrisiðgjald og munu lífeyrissjóðir síðan ráðstafa gjaldinu til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs.

Hvað hvetur til endurkomu til vinnu (ETV) eftir veikindi eða slys?

Í rannsókn sem var gerð í Svíþjóð fyrir nokkrum árum (G. Gard og A.C.  Sandberg 1998) var  skoðað hvað hvetur fólk til að fara aftur í vinnu eftir veikindi eða slys. Þátttakendur voru einstaklingar sem tóku þátt í 12 vikna starfsendurhæfingu  vegna stoðkerfisverkja. Endurhæfingin  samanstóð af þremur vinnudögum og tveimur endurhæfingardögum í hverri viku.  Allir þátttakendur unnu á velferðarsviði eða við þjónustu. Tilgangurinn með rannsókninni var að kanna hvaða þættir hvetja eða  letja fólk við endurkomu til vinnu. Skilyrði fyrir þátttöku voru stoðkerfisverkir, (í mjóbaki, öxlum  eða hálsi) að þeir hafi varað í að minnsta kosti eitt ár og að veikindafjarvist frá vinnu væri að minnsta kosti fjórar vikur.

Tíu ráð til að bæta fyrirtækisbrag

Góður fyrirtækisbragur eða fyrirtækismenning hefur áhrif á tryggð starfsmanna og löngun þeirra til að vera í vinnunni. Fyrirtækisbragur nær til allra þátta vinnuumhverfisins, skipulags, andrúmslofts, hvernig fólki líður í vinnunni, hvernig samskipti eru á vinnustaðnum, vinnunar sjálfrar, - alls, hvort sem um er að ræða skráðar eða óskráðar reglur.  Góður fyrirtækisbragur getur bætt afkomu fyrirtækisins, en slæmur fyrirtækisbragður dregur úr henni. Pirrað starfsfólk, viðvera í vinnu án framleiðni, slúður og óskipulagðar fjarvistir geta verið afleiðing þess að fólki líður ekki vel í vinnunni. Hér að neðan eru tíu ráð til að bæta fyrirtækisbrag á þínum vinnustað.

Rannsóknir varðandi endurkomu til vinnu (ETV)

Heilbrigðisstarfsfólk gegnir mikilvægu hlutverki í „endurkomu til vinnu“ (ETV) fyrir fólk sem á við heilsuvanda að stríða og viðhorf þess og leiðbeiningar hafa afgerandi áhrif á bæði einstaklinga og fyrirtæki. Mikil umræða hefur verið erlendis og hér heima vegna langtíma veikindavottorða lækna og þær takmarkanir sem þau leggja á fólk vegna endurkomu til vinnu.   Rannsakendur í Kanada vildu skilja ástandið betur og gerðu samanburðarrannsókn þar sem allir meðferðaraðilar mátu sömu þrjá einstaklingana með tilliti til endurkomu til vinnu.

Virkur vinnustaður - þróunarverkefni í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir

Í kjölfar vinnustofu aðila vinnumarkaðarins í febrúar 2011, þar sem fjallað var um forvarnir gegn brottfalli af vinnumarkaði og snemmbæru inngripi í starfsendurhæfingu, hefur stjórn VIRK ákveðið að fara af stað með sérstakt þróunarverkefni í samvinnu við atvinnurekendur. Verkefnið hefst formlega haustið 2011 og því lýkur innan þriggja ára Um þessar mundir er verið að kynna verkefnið fyrir stjórnendum fyrirtækja og stofnana víða um land með samstarf í huga. Ef atvinnurekendur eru áhugasamir um að taka þátt í þróunarverkefninu er þeim velkomið að hafa samband og leggja inn beiðni um þátttöku en ákvarðanir um þátttöku verða teknar fyrir lok júnímánaðar. Aðeins verður farið af stað með 20 vinnustaði til að byrja með og hafa nokkrir vinnustaðir nú þegar samþykkt þátttöku í verkefninu. Tilgangur með verkefninu er að veita stjórnendum og starfsmönnum fræðslu og aðstoð við að móta og innleiða stefnu um velferð og fjarvistir. Áhersla er lögð á jákvæða og heilsusamlega nálgun, með þátttöku stjórnenda og starfsmanna við þarfagreiningu vinnustaðarins, og útfærslu á stefnu og leiðum eftir því sem best hentar hverri starfsemi.

Að byggja brú milli starfsendurhæfingar og atvinnulífs

Föstudaginn 27. maí sl.var haldið málþingið „Að byggja brú milli starfsendurhæfingar og atvinnulífs“ á Hótel Ísafirði.  Aðal tilgangur málþingsins var að ræða og koma fram með hugmyndir að auknu samstarfi milli starfsendurhæfingaraðila og atvinnulífs á svæðinu. Á þessu málþingi  komu saman um 20 fulltrúar frá atvinnurekendum, stéttarfélögum á Vestfjörðum, Vinnumálastofnun, Starfsendurhæfingu Vestfjarða  auk starfsmanna VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs til að ræða um nauðsynleg tengsl starfsendurhæfingar og atvinnulífs. 

Nýr ráðgjafi

Stéttarfélögin á Reykjanesi hafa ráðið nýjan ráðgjafa til starfa í samstarfi við VIRK, en það er Elfa Hrund Guttormsdóttir. Elfa Hrund  lauk embættisprófi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands í júní 2003 og BA prófi í uppeldis- og menntunarfræði frá sama skóla árið 1999. Elfa Hrund hefur mikla reynslu af starfi við félagsþjónustu og vann hjá Fjölskyldu – og félagsþjónustu Reykjanesbæjar frá árinu 2000 – 2011.

Hafa samband