Hagnýtar upplýsingar
Velvirk í starfi
VIRK bíður starfsfólki og stjórnendum aukinn stuðning í forvarnarskyni til að efla starfsfólk og stjórnendur, auka vellíðan í vinnu og koma í veg fyrir brotthvarf af vinnumarkaði.
Í boði er stuðningsefni á velvirk.is, hægt er að hringja í sérfræðinga Velvirk í starfi og mögulegt er að senda inn fyrirspurn.
Sjá nánar á Velvirk í starfi.
Iðgjöld
Öllum atvinnurekendum og þeim sem stunda sjálfstæða starfsemi er skylt að greiða iðgjald vegna sjálfra sín og launamanna er starfa hjá þeim til starfsendurhæfingarsjóðs, sbr. 2 mgr. 4 gr. laga 60/2012 um Atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.
Iðgjald atvinnurekanda og þeirra sem stunda sjálfstæða starfsemi til VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs verður hið sama á árinu 2023 og það hefur verið frá 2017. Framlagið nemur 0,1% af heildarlaunum.
Nánar tilgreint er þetta 0,1% af stofni iðgjalds skv. 3. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða skv. fyrrgreindum lögum nr. 60/2012. Gengið var frá þessu rétt fyrir árslok 2017 með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2018, sjá nánar hér.
Greiðsla iðgjalds
Iðgjald skal greitt í hverjum mánuði til þess lífeyrissjóðs sem lífeyrisiðgjald vegna launamanns eða þess er stundar atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi er greitt til. Lífeyrissjóður skal skila innheimtu iðgjaldi til starfsendurhæfingarsjóðs eigi síðar en á tíunda degi næsta mánaðar eftir að því er skilað til lífeyrissjóðs að frádreginni þóknun.
Iðgjald í VIRK Starfsendurhæfingarsjóð var fyrst lögbundið með lögum nr. 73/2011.
Vinsamlega beinið fyrirspurnum varðandi innheimtu hjá VIRK á tölvupóstfangið idgjold@virk.is, sími 535 5700.
velvirk.is
Vefsíða sem er hluti forvarnarverkefnisins VelVIRK sem hefur það markmið að að sporna við brotthvarfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests sem hægt er að rekja til langvarandi álags bæði í starfi og einkalífi. Á vefnum má finna gagnleg ráð og góðbendingar sem ætlað er að styðja við starfsmenn og stjórnendur.
Heilsueflandi vinnustaður
Heilsueflandi vinnustaður er samstarfsverkefni embætti landlæknis, Vinnueftirlits ríkisins og VIRK um heilsueflingu og forvarnir á vinnustöðum. Markmið verkefnisins er að stuðla að betri heilsu og vellíðan á vinnustöðum.
Mótuð hafa verið viðmið fyrir heilsueflandi vinnustaði og vefsvæði opnað á heilsueflandi.is sem fyrirtæki og stofnanir geta nýtt sér til að skapa heilsueflandi umhverfi fyrir starfsfólk sitt. Þá hafa verið haldnir reglulegir morgunfundir um heilsueflingu á vinnustöðum.
Heilsuvernd og heilsuefling starfsmanna
Miklu máli skiptir að vinnuumhverfi sé heilsusamlegt og stuðli að eflingu á heilsu og hreysti starfsmanna. Samkvæmt Vinnuverndarlögunum ber atvinnurekandi ábyrgð á því að gerð sé áætlun um heilsuvernd starfsmanna. Það felur m.a. í sér að greina og meta áhættuþætti í vinnuumhverfinu og skipuleggja forvarnir. Um er að ræða forvarnarstarf sem tengist vinnunni, vinnuumhverfinu og vinnuskipulaginu.
Rætt hefur verið um muninn á heilsuvernd og heilsueflingu á vinnustað. Hann er sá að skylt er að hafa heilsuvernd á vinnustað samkvæmt vinnuverndarlögunum og tengist það áhættuþáttum starfa en heilsuefling miðar að því að efla heilbrigði og vellíðan starfsfólks.
Alþjóða vinnumálastofnunin skilgreinir heilsuvernd á vinnustað fyrst og fremst sem forvarnarstarf og ráðgefandi fyrir vinnuveitendur, starfsmenn og fulltrúa þeirra um öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. Óumdeilt er að aðstæður á vinnustað hafa áhrif á heilsuna og heilsa starfsmanna hefur áhrif á það hvernig þeir skila störfum sínum. Leiðbeiningar um heilsuvernd á vinnustað er að finna á vef Vinnueftirlitsins.
Heilsuefling á vinnustöðum er sameiginlegt verkefni vinnuveitenda, starfsmanna og samfélagsins alls og miðar að því að bæta heilsu og líðan vinnandi fólks. Með heilsueflingu á vinnustöðum er stefnt að því að bæta vinnuskipulag og vinnuumhverfi, hvetja til virkrar þátttöku og stuðla að áframhaldandi þroska einstaklingsins. Heilsueflingu á vinnustöðum er ætlað að efla mannauð vinnustaða með bættri heilsu og líðan. Vinnuveitendur sem hlúa að heilsu starfsfólks hafa ekki eingöngu jákvæð áhrif á starfsfólkið heldur geta þeir einnig haft áhrif á fjölskyldu starfsmannsins og samfélagið í heild. Í ljósi þessa hafa allir hag af heilsueflingu á vinnustöðum. Mikilvægt er að á sem flestum vinnustöðum sé heilsuefling sjálfsagður þáttur í stefnu vinnustaðarins og unnið sé markvisst að henni.
Heilsuefling á vinnustað getur t.d. falist í:
- Öruggu og aðlaðandi vinnuumhverfi.
- Skýrum boðleiðum og jákvæðum samskiptum.
- Vinnureglum og viðbragðsáætlun um varnir gegn áfengis- og vímuefnanotkun.
- Að bjóða upp á heilsusamlegan mat á vinnustaðnum.
- Hvatningu til almennar líkamsræktar og hreyfingar eins og að ganga eða hjóla í vinnuna.
- Göngutúrum í hádeginu.
- Ýmsum átaksverkefnum og hópefli.
Hægt er að vinna að heilsueflingu á nokkrum stigum og er árangursríkast ef heilsueflingarstarf tekur til allra þessara stiga:
- Byggja upp heilsusamlegt og styðjandi vinnuumhverfi þar sem stefna og hlutverk eru skýr, þjálfun og fræðsla fer fram og stjórnunarhættir fela í sér stuðning við starfsfólk
- Skoða áhættuþætti í vinnuumhverfi og bregðast við þeim. Með þessu má koma auga á þá einstaklinga og þær vinnuaðstæður sem þarf að sinna sérstaklega og þarfnast sérstakra aðgerða.
- Mikilvægt er að taka tillit til ólíkrar vinnufærni fólks og stuðla að því að einstaklingar með minna úthald eða færni haldist á vinnumarkaði og komi aftur til starfa eftir slys eða veikindi, hvort sem þau eru andleg eða líkamlegs eðlis.
Veikindafjarvistir
Það er mikilvægt að starfsmenn sem búa við heilsubrest af einhverjum toga fái strax viðeigandi aðstoð og að reynt sé eftir fremsta megni að standa vörð um ráðningarsamband þeirra og tengsl við vinnumarkaðinn.
Algengar ástæður veikindafjarvista eru andleg vanlíðan s.s. streita, kvíði og þunglyndi eða stoðkerfisvandamál s.s.bakverkir eða liðverkir. Einnig eru hjarta- og öndunarfærasjúkdómar, slys og óhöpp algengar ástæður fyrir fjarvistum frá vinnu.
Þó að oftast sé um að ræða eina grunnorsök er algengt að fleiri en ein ástæða sé fyrir fjarvistum. Þessi heilsuvandamál geta gert lífið erfitt og flókið en þau eru yfirleitt ekki það alvarleg að viðkomandi verði ófær til vinnu.
Flestar rannsóknir benda sterklega til þess að því lengur sem fólk er frá vinnu því ólíklegra er að það komi nokkurn tíma aftur til vinnu.
Fjarvistastjórnun og ávinningur hennar:
- Markmið með fjarvistastjórnun er fyrst og fremst að fækka fjarveru frá vinnustað og stytta fjarverutímann. Hún er einnig góð leið til að leiðbeina og móta viðhorf stjórnenda og starfsmanna til veikindafjarveru og leggja áherslu á að vinnustaðurinn er mikilvægur fyrir í líðan og velferð einstaklinga.
- Ávinningur af fjarverustjórnun felst fyrst og fremst í góðri stjórnun, betri nýtingu tíma og fjármuna, aukinni fyrirtækjahollustu og ánægðu starfsfólki.
- Fjarverustjórnun er stjórntæki mannauðsstjórnunar þar sem viðhorf, menning og viðmið í stjórnun starfsmannamála eru skilgreind og kynnt fyrir öllu starfsfólki.
- Starfsfólk er upplýst um viðhorf til veikindafjarveru og þau viðmið sem vinnustaðurinn setur vegna þeirra. Fjarvera starfsfólk er skráð og skoðuð reglulega.
- Heildarfjarverutölur eru ekki feimnismál þær eru rekstrartölur. Veikindi eru einkamál starfsmannsins en fjarveran skiptir vinnustaðinn máli og hana þarf að ræða. Í fjarverustjórnun á starfsfólk að fá eðlilega umhyggju og hvatningu í veikindum sínum og stuðning til endurkomu til starfa enda getur vinnan verið hluti af bataferlinu.