Samstarf
VIRK á í góðu samstarfi við fjölda þjónustuaðila um land allt um kaup á þjónustu fyrir einstaklinga í starfsendurhæfingu á vegum VIRK.
Úrræði sem VIRK kaupir af þjónustuaðilum fyrir einstaklinga í þjónustu eru mikilvægur þáttur í starfsendurhæfingunni. Þau skulu byggja á fagmennsku og gagnreyndum aðferðum sem líkur eru á að skili árangri og þess er gætt við val á úrræðum að tryggja sem mesta fjölbreytni.
Hverjir geta gerst þjónustuaðilar hjá VIRK?
Samkvæmt þjónustusamningi VIRK og félagsmálaráðuneytisins og 9. gr. laga nr. 60/2012 ber VIRK að fylgja innkaupastefnu við kaup á þjónustu. Tilgangur innkaupastefnunnar er að stuðla að vönduðum og hagkvæmum kaupum á þjónustu og vörum af hálfu VIRK og tryggja góða og viðurkennda viðskiptahætti.
Stærsti kostnaðarliður VIRK er aðkeypt þjónusta fyrir einstaklinga í þjónustu VIRK. Innkaupastefna VIRK nær til kaupa á þjónustu í starfsendurhæfingu og skulu allir seljendur þjónustu til VIRK hafa lögboðin leyfi og réttindi í samræmi við þá starfsemi sem þeir stunda. Sjá innkaupastefnu VIRK og viðmið þjónustuaðila VIRK.
VIRK greiðir einungis fyrir þjónustu þar sem pöntun liggur fyrir í skráningarkerfi VIRK og gerð hefur verið í samræmi við starfsendurhæfingaráætlun viðkomandi einstaklings.
Þegar samið er við fagaðila á heilbrigðissviði um kaup á úrræðum er VIRK eingöngu heimilt að semja við heilbrigðisstarfsmenn sem landlæknir hefur staðfest að uppfylli lágmarkskröfur og ákvæði laga á sviði heilbrigðisþjónustu.
Hlutverk VIRK er að kaupa úrræði af þjónustuaðilum sem hafa það að markmiði að auka starfsgetu þátttakenda og koma úrræðin til viðbótar þjónustu ráðgjafa og sérfræðinga VIRK sem og annarrar þjónustu sem þátttakendur geta nýtt sér í velferðarkerfinu. Um getur verið að ræða úrræði á sviði ráðgjafar, þjálfunar og menntunar sem og önnur úrræði sem þjónustuaðilar á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar bjóða.
Allir þjónustuaðilar VIRK rita rafrænt undir trúnaðaryfirlýsingu í upphafi samstarfs.
Gerðir eru skriflegir samningar við þjónustuaðila um réttindi og skyldur þegar um reglubundin kaup er að ræða eða kaup í talsverðu magni.
Frá og með 1. október 2024 mun úrræðateymi VIRK afgreiða umsóknir þeirra sem hafa áhuga á að verða þjónustuaðilar hjá VIRK eingöngu fjórum sinnum á ári; í febrúar, maí, ágúst og nóvember.
Áhugasamir eru beðnir að skoða vel viðmið fyrir þjónustuaðila VIRK áður en umsókn er send inn og hafa í huga að öll umbeðin gögn þurfa að fylgja svo hægt sé að afgreiða hana. Allar umsóknir þurfa að berast í rafrænu kerfi VIRK - sjá nánar hér.
Sjá nánar í Hvernig gerist ég þjónustuaðili?