Fara í efni

Stöndum með þolendum á vinnumarkaði

Stuðningur við þolendur kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni og ofbeldis

Allt fólk á vinnumarkaði á rétt á öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi og eru atvinnurekendur ábyrgir fyrir því. Kynferðisleg og kynbundin áreitni og ofbeldi er alvarleg ógn við öryggi og heilsu starfsfólks og mikilvægt að vinnustaðir leggi áherslu á forvarnir og aðgerðir gegn slíkri hegðun. Í lögum og reglugerðum kemur skýrt fram að þess háttar hegðun er bönnuð og starfsfólk nýtur verndar rétt eins og gagnvart hættulegum efnum og slysum á vinnustað.

Heildarsamtök launafólks á Íslandi og VIRK Starfsendurhæfingarsjóður taka á móti þolendum kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni og ofbeldis í vinnu. Þolendum býðst aðstoð og ráðgjöf hjá sínu stéttarfélagi um réttindi sín. Í kjölfarið geta þolendur sótt sálrænan stuðning hjá VIRK. Þolanda er trúað, hann ræður för og ekkert er gert nema með hans samþykki.

Hvað er kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi?  Staðreyndir um kynferðislegt og kynbundið áreiti og ofbeldi 

Þjónusta stéttarfélaga

Stéttarfélag veitir þolendum ráðgjöf og stuðning um allt er varðar réttindi, lög og reglur og ríkir fullur trúnaður í samtalinu. Stuðningur getur verið af ýmsum toga eftir eðli máls og út frá óskum þolanda.

Fulltrúi stéttarfélags getur til dæmis aðstoðað við að tilkynna atvik til stjórnanda, gert það fyrir hans hönd, setið fundi með þolanda og fylgt málinu eftir. 

Fulltrúinn getur beint þolanda áfram til VIRK í vegvísisamtal eða í önnur viðeigandi úrræði eftir þörfum.

Þjónusta VIRK - vegvísissamtal

Starfsfólk stéttarfélaga leiðbeinir þolendum um hvernig bóka skuli vegvísissamtal hjá ráðgjafa VIRK. Samtal við ráðgjafa VIRK er hugsað sem leiðbeinandi ráðgjöf um næstu skref sem þolandi getur tekið.

Ráðgjafar VIRK eru sérhæfðir í að ræða við fólk í erfiðum aðstæðum, fullur trúnaður ríkir í samtalinu og engar persónugreinanlegar upplýsingar eru skráðar. Að jafnaði er um eitt samtal að ræða sem fer fram í gegnum síma.

Ekki er um að ræða þjónustu í formi atvinnutengdrar starfsendurhæfingar og því er ekki gerð krafa um að þolendur sem sækja þjónustu séu frá vinnumarkaði vegna veikinda eða uppfylli önnur skilyrði laga fyrir þjónustu VIRK.

 

Hafa samband