Rannsóknarstefna VIRK
Rannsóknarstefna VIRK byggir á Framtíðarsýn VIRK 2025 um aukið umfang rannsókna og þróunar á sviði starfsendurhæfingar, þróun árangursmælikvarða og gildandi löggjöf hverju sinni.
Framtíðarsýn VIRK 2025
Rannsóknir eru hornsteinn markvissrar starfsendurhæfingar og leggja grunninn að árangri starfseminnar til framtíðar.
Meginstoðir Rannsóknarstefnu VIRK
- Mannhelgi og reisn einstaklinga og hópa
Eitt af skilyrðum rannsókna hjá VIRK er að leitast sé við að vernda einstaklinga og hópa í þjónustu sjóðsins. Mannleg reisn er lykilatriði í velsæld einstaklinga og hefur áhrif á bataferli og framtíðarhorfur á vinnumarkaði. Því leggur VIRK sérstaka áherslu á að niðurstöður rannsókna vegi aldrei að ímynd og heiðri einstaklinga út á við með vísun í hópa sem þeir tilheyra. - Áreiðanlegar upplýsingaskrár sem fylgja ströngustu gæðakröfum
Grundvöllur góðra rannsókna eru réttmætar og áreiðanlegar upplýsingaskrár með reglubundnum mælingum. - Aukið samstarf við vísindafólk
Rannsóknaráð mun - í samráði við forstjóra VIRK og aðra stjórnendur - hvetja til aukins samstarfs um vísindarannsóknir á vettvangi starfsendurhæfingar. - Aukin miðlun og sýnileiki rannsóknarniðurstaðna
Rannsóknaráð gætir þess að rannsóknarniðurstöðum sé ætíð miðlað í samræmi við Rannsóknarstefnu VIRK og verklagsreglur í rannsóknum með hliðsjón af forsendunni um mannhelgi og reisn einstaklinga.
Ábyrgðaraðili rannsóknarstefnunnar er forstjóri VIRK en umsjón með framkvæmdinni er í höndum rannsóknaráðs og persónuverndarfulltrúa.
Samþykkt á fundi framkvæmdastjórnar VIRK 26. nóvember 2020.