Saga VIRK
Í kjarasamningum í febrúar 2008 sömdu Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins um nýtt fyrirkomulag starfsendurhæfingar á Íslandi. Í framhaldinu var sjálfseignarstofnunin VIRK Starfsendurhæfingarsjóður stofnuð þann 19. maí og hóf starfsemi sína í ágúst 2008.
Í byrjun árs 2009 komu síðan opinberir atvinnurekendur og stéttarfélög opinberra starfsmanna að VIRK sem stofnaðilar. VIRK varð þar með fyrsta stofnunin sem allir helstu aðilar vinnumarkaðarins stóðu saman að.
Aðstæður kölluðu á hraða uppbyggingu því ljóst var að þær þrengingar sem samfélagið gekk í gegnum á þessum tíma myndu kalla á aukna þjónustu á sviði starfsendurhæfingar. Samið var við stéttarfélög eða samtök stéttarfélaga um allt land um þjónustu sérhæfðra ráðgjafa í starfsendurhæfingu.
21. september 2009 hóf fyrsti einstaklingurinn starfsendurhæfingu á vegum VIRK. Í árslok voru þeir orðnir 363 talsins og nutu ráðgjafar 14 starfsendurhæfingarráðgjafa.
Ráðgjafarnir voru orðnir 19 í lok árs 2010 og hafði svo fjölgað um helming frá upphafi starfseminnar lok árs 2011. 2020 eru starfsendurhæfingarráðgjafarnir og atvinnulífstenglarnir 59 talsins og staðsettir um allt land á skrifstofum stéttarfélaga.
Lög nr 60 um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða voru samþykkt á Alþingi 2012. Samkvæmt þeim er það hlutverk VIRK að efla starfsgetu einstaklinga með heilsubrest sem stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði. Gildi VIRK eru fagmennska, virðing, metnaður.
Lífeyrissjóðir hefja í framhaldinu greiðslu iðgjalds til VIRK en fram að því hafði VIRK eingöngu verið fjármagnað af atvinnurekendum.
Mikil þörf reyndist fyrir þjónustu VIRK. Heildarfjöldi einstaklinga í starfsendurhæfingu jókst um 70% milli áranna 2010 og 2013 og á árinu 2013 hófu 33% fleiri nýir einstaklingar starfsendurhæfingarþjónustu á vegum VIRK en árið á undan.
Um 1900 einstaklingar voru í þjónustu VIRK í lok árs 2013 - fjölbreyttur hópur einstaklinga á öllum aldri með mismunandi menntun og úr ólíkum starfsgreinum. Ráðgjafar VIRK orðnir 41 talsins og VIRK nýtti sér sérfræðikunnáttu 500 þjónustuaðila um allt land til að veita sem öflugasta starfsendurhæfingarþjónustu.
Vöxtur VIRK var stöðugur. Á fimm fyrstu starfsárum starfsendurhæfingarsjóðsins hafði VIRK þróast úr því að vera hugmynd á blaði í stofnun sem hafði veitt um 7.500 einstaklingum vandaða og flókna þjónustu og skilað langstærstum hluta þeirra virkum inn á vinnumarkaðinn.
Þessum fyrstu vaxtarárum VIRK fylgdi mikið uppbyggingar- og þróunarstarf sem skilaði sér í m.a. auknu samstarfi VIRK við lífeyrissjóði, heilbrigðisstofnanir og aðrar stofnarnir velferðarkerfisins.
Ákveðið jafnvægi náðist í starfseminni á árunum 2015 og 2106 eftir gríðarlega mikla og hraða uppbyggingu. Í fyrsta sinn þá fjölgaði ekki nýjum einstaklingum í þjónustu samanborið við árin á undan. Árið 2016 var gæðastjórnunarkerfi VIRK vottað samkvæmt alþjóðlega gæðastjórnunarstaðlinum ISO 9001 af faggildri skoðunarstofu BSI á Íslandi.
Þá náðist árið 2015 samkomulag við ríkisvaldið um aðkomu þess að VIRK. Samkomulagið tryggði öllum einstaklingum með skerta starfsgetu atvinnutengda starfsendurhæfingu, hvort sem þeir standa utan eða innan vinnumarkaðar.
Aðstæður einstaklinganna sem leita til VIRK eru misjafnar. 80% þeirra sem leita til VIRK hafa ekki starfsgetu vegna andlegra sjúkdóma eða stoðkerfisvandamál og þeim einstaklingum sem glíma við bæði stoðkerfisvanda og geðrænan fer fjölgandi.
Samkvæmt þjónustukönnunum VIRK telja einstaklingarnir að starfsendurhæfingarþjónusta VIRK hafi haft mikil og jákvæð áhrif á stöðu þeirra hvað varðar bætta sjálfsmynd og aukna vinnugetu og meta heilsu sína og lífsgæði mun betri við lok þjónustu en við upphaf hennar.
19,4 milljarða heildarávinningur var af starfsemi VIRK árið 2023 og ávinningur á hvern útskrifaðan einstakling er 12 milljón króna samkvæmt ráðgjafafyrirtækinu Talnakönnun sem metið hefur ávinninginn af starfsemi VIRK árlega frá 2013. Heildarávinningurinn nemur tæplega fimmföldum rekstrarkostnaði starfsendurhæfingarsjóðsins.
Ábatinn af starfsemi VIRK skilar sér til Tryggingastofnunar, lífeyrissjóða og ríkisins í formi aukinna skatttekna. Ofan á þetta kemur svo bættur hagur einstaklinga, bæði fjárhagslegur auk þeirra lífsgæða sem felast í því að geta tekið fullan þátt í samfélaginu.
Að starfsemi VIRK kemur mikill fjöldi hæfra sérfræðinga með fjölbreytta menntun og reynslu. VIRK fékk jafnlaunavottun fyrst fyrirtækja og stofnana í sínum stærðarflokki á Íslandi vorið 2018 og hlaut upplýsingaöryggisvottun árið 2022.
Í þjónustukönnunum VIRK kemur fram mikil ánægja með þjónustu VIRK - allt 9 af hverjum 10 eru ánægð með þjónustuna og ráðgjafa VIRK.
Ekkert lát er á eftirspurn eftir þjónustu VIRK og til VIRK leitar nú stærri hópur en áður með fjölþættan og flókinn vanda. Í byrjun júlí 2024 höfðu 24.200 einstaklingar einstaklingar komið til VIRK og sumir oftar en einu sinni. Þannig voru skráðir 27.700 starfsendurhæfingarferlar í upplýsingakerfi VIRK frá upphafi um mitt ár 2024.
79% þeirra rúmlega 17.500 einstaklinga sem útskrifast hafa frá VIRK um mitt ár 2024 töldust virkir á vinnumarkaði við útskrift; þ.e. í vinnu, í atvinnuleit eða lánshæfu námi. Um mitt ár 2024 voru tæplega 2.700 þjónustuþegar í starfsendurhæfingu á vegum VIRK um allt land.
16 árum eftir stofnun VIRK er árangur og ávinningur af starfseminni mjög mikil - bæði fjárhagslegur og samfélagslegur - og VIRK hefur skilað þúsundum einstaklinga í virka þátttöku á vinnumarkaði.
Samkvæmt viðhorfskönnunum telja 81% landsmanna að starfsemi VIRK hafi mikla þýðingu fyrir íslenskt samfélag og nær átta af hverjum tíu eru jákvæðir gagnvart VIRK samkvæmt viðhorfskönnun sem Maskína gerði fyrir VIRK. Þá segjast 57% svarenda þekkja einhvern sem hefur leitað til VIRK og 8% þeirra hafa sjálfir leitað til VIRK.
Sjá nánar: Myndband um starfsendurhæfingarferilinn