Ung VIRK
Hjá VIRK stendur ungu fólki til boða sérhæfð aðstoð og stuðningur við að komast í vinnu eða nám samhliða annarri endurhæfingu með Ung VIRK.
Ung VIRK er sérsniðin þjónustuleið sem getur hentað einstaklingum á aldrinum 16-29 ára sem eru með litla náms- eða vinnusögu, þurfa þétt utanumhald, sem eiga erfitt með að haldast í starfi eða námi eða þurfa einstaklingsmiðaðan stuðning við atvinnuleit.
Ung VIRK þjónustuleiðin
Öll starfsendurhæfing hjá VIRK er einstaklingsmiðuð, áætlun og áherslur eru gerðar í samráði við einstaklinga og úrræði valin í takt við það.
Það sama á við um Ung VIRK þjónustuleiðina auk þess sem lögð er sérstök áhersla vinnu- og námsmiðaða sjálfseflingu þar sem unnið er að því að valdefla einstaklingana, auka virkni þeirra og aðstoða við stefnumótun.
VIRK hefur átt gott samstarf við marga þjónustuaðila varðandi úrræði fyrir þennan hóp eins og t.d. Framvegis (námskeiðið Toppurinn og Stökkpallurinn) og Hringsjá (mat á stöðu og nám í framhaldinu).
Þá hefur reynst vel að bjóða sálfræðiviðtöl þegar við á og iðjuþjálfun til að aðstoða við bætta dagrútínu og daglega iðju. Hreyfiúrræði hafa einnig verið nýtt til þess að stuðla að bættu líkamlegu þoli til vinnu eða náms í samráði við einstakling, annað hvort í hóp eða á eigin vegum svo eitthvað sé nefnt.
Í Ung VIRK málum er lögð áhersla á atvinnutengingu eða námsþátttöku snemma í ferlinu og þéttan stuðning þegar einstaklingur er komin í virkni.
IPS atvinnutenging - Einstaklingsmiðaður stuðningur í vinnu eða nám
Hjá VIRK stendur ungu fólki til boða sérhæfð aðstoð og stuðningur við að komast í vinnu eða nám samhliða annarri endurhæfingu. Þessi þjónustuleið kallast IPS og stendur fyrir Individual placement and support. Um er að ræða gagnreynda aðferðarfræði sem miðar að því að aðstoða einstaklinga inn á vinnumarkaðinn og hefur hún skilað góðum árangri.
Í IPS er virkni á vinnumarkaði eða í námi talin vera hluti af endurhæfingu einstaklings. Þannig þarf viðkomandi ekki að vera búinn að ljúka starfsendurhæfingu áður en hann getur byrjað að prófa sig áfram á vinnumarkaði. Boðið er upp á einstaklingsmiðaðan stuðning frá atvinnulífstengli bæði við atvinnuleitina en einnig áframhaldandi stuðning þegar viðkomandi er kominn í starf.
Öll starfsendurhæfing hjá VIRK er einstaklingsmiðuð, áætlun og áherslur eru gerðar í samráði við einstaklinga og úrræði valin í takt við það.
IPS atvinnutenging getur hentað einstaklingum:
- Sem eru með litla náms- eða vinnusögu
- Þurfa einstaklingsmiðaðan stuðning við atvinnuleit
- Þurfa þétt utanumhald
- Sem eiga erfitt með að haldast í starfi eða námi
Þau sem óska eftir þjónustu VIRK þurfa að fá beiðni frá lækni eða viðurkenndum fagaðila innan heilbrigðiskerfisins um starfsendurhæfingu.
Skilyrði fyrir Ung VIRK
Ung VIRK verkefnið er fyrir 16-29 ára ungmenni sem uppfylla þessi skilyrði:
- Hafa grunnskólapróf eða minna (ekki lokið stúdentsprófi eða sambærilegu)
- Eru með litla eða brotna vinnusögu og/eða hafa verið langan tíma frá vinnumarkaði (u.þ.b. 6 mánuði)
-
Glíma við heilsubrest, t.d. andlegan eða líkamlegan vanda
Til þess að komast í starfsendurhæfingu undir formerkjum Ung VIRK þurfa þessir þrír þættir hér að ofan að vera til staðar.
Einnig hefur félagsleg staða og vanvirkni áhrif á hvort einstaklingur fellur undir Ung VIRK verkefnið. Þá er m.a. horft til félagslegrar einangrunar, fjárhagsvanda, neyslusögu, áfallasögu og þess hvort einstaklingur er á framfærslu sveitarfélaga eða tekjulaus.
Þau sem óska eftir þjónustu VIRK þurfa að fá beiðni frá lækni eða viðurkenndum fagaðila innan heilbrigðiskerfisins um starfsendurhæfingu.
Hægt er að senda inn fyrirspurn til sérfræðinga Ung VIRK og/eða óska eftir að þeir hafi samband. Einnig er hægt að hringja beint í þjónustuver VIRK í síma 535 5700.