Spurt og svarað
Sjá þjónustuaðilar á vegum VIRK um greiningar?
Nei, það er hlutverk heilbrigðiskerfisins. Viðmið um rétt til þjónustu hjá VIRK er að greiningu og grunnmeðferð sé lokið innan heilbrigðiskerfis.
Þjónustuaðilar sem starfa fyrir VIRK starfsendurhæfingarsjóð eiga ekki að framkvæma greiningar á röskunum eða sjúkdómum. Þeirra hlutverk er að kortleggja styrkleika og hindranir einstaklinga til vinnu og/eða náms. Einnig að sinna meðferð/ráðgjöf/fræðslu með það að markmiði að auka starfs-/námsgetu hjá einstaklingum sem glíma við heilsubrest í kjölfar veikinda eða slysa.
Hvað gerist ef einstaklingur mætir ekki í úrræði?
VIRK greiðir ekki fyrir einstaklingsþjónustu sem einstaklingurinn mætir ekki í. Ef einstaklingurinn getur ekki mætt í bókaða tíma ber hann sjálfur ábyrgð á að afbóka sig með tilskyldum fyrirvara. Að öðrum kosti er hann sjálfur ábyrgur fyrir greiðslu gagnvart þjónustuaðila.
VIRK gerir kröfu um 80% mætingarskyldu að lágmarki. Sé háttsemi einstaklings í þjónustu að öðru leyti með þeim hætti að hann sýni ekki vilja til virkrar þátttöku í starfsendurhæfingarferli sínum getur það leitt til brottvísunar úr þjónustu.
Skýrt er kveðið á um ofangreint í þátttökusamingi sem einstaklingar undirrita við upphaf starfsendurhæfingar.
Hvernig er þjónustuaðilum greitt fyrir veitta þjónustu?
VIRK áskilur sér allt að 20 daga greiðslufrest við greiðslu reikninga.
Sjá notendaleiðbeiningar hér.
VIRK greiðir einungis fyrir þjónustu þar sem pöntun liggur fyrir í skráningarkerfi VIRK og gerð hefur verið í samræmi við starfsendurhæfingaráætlun viðkomandi einstaklings.
Upplýsingar sem þurfa að koma fram á reikningi til VIRK:
- Stíla reikninginn á VIRK Starfsendurhæfingarsjóð, kt. 440608-0510, Borgartún 18, 105 Reykjavík.
- Tímabil þjónustu og tilvísun í fylgiskjal
- Nafn, starfsheiti, kennitala og heimilisfang þess sem gefur út reikninginn
- Bankaupplýsingar reikningseiganda
- Reikningar eiga að vera númeraðir
Þjónustuaðili er hvattur til að senda yfirlit frá kerfi VIRK með reikningsnúmeri og löglegum reikningi frá sínu bókhaldskerfi.
Sé um handskrifaðan reikning að ræða, þarf frumrit reiknings að berast til skrifstofu VIRK í Borgartúni 18, 105 Reykjavík.
ATH. að mikilvægt er að breyta dagsetningunni í það tímabil sem innheimta á fyrir, t.d. fyrir janúar 31.01.2021 eða febrúar 28.02.2021 þ.e.a.s. að hafa mánuðina aðskilda. Mætingar skulu skráðar í þeim mánuði sem vinnan á sér stað og tekin út á yfirliti þess mánaðar. Þegar áramót eru er mikilvægt að innheimta hvert ár fyrir sig t.d. 01.12.2021 – 31.12.2021 og yrði þá næsta yfirlit tekið frá 01.01.2022 – 31.01.2022.
Sjá notendaleiðbeiningar hér.
Hvernig veiti ég/breyti ég umboði?
Aðili á vegum þjónustufyrirtækis þarf að fara inn á þessa slóð með rafrænum skilríkjum til þess að breyta umboðum - sjá leiðbeiningar um hvernig umboði er veitt/breytt hér.
Hvers vegna er mikilvægt að skrá mætingu einstaklinga?
Mikilvægt er að þjónustuaðilar skrái mætingu svo að hægt sé að sjá hvort einstaklingur sé að nýta sér þjónustuna. Gerð er krafa um 80% mætingarskyldu í úrræði. Ef mætingu er ábótavant er mikilvægt að ráðgjafi einstaklings geti brugðist við.
Af hverju kemst ég ekki inn í upplýsingakerfið?
Það eru tvær leiðir til þess að komast inn í upplýsingakerfi VIRK.
a) Sem fagaðili (þjónustuaðili)
b) Sem tengiliður þjónustufyrirtækis
Algengasta orsök þess að þjónustuaðili kemst ekki inn í upplýsingakerfið er þegar umboð viðkomandi sem tengiliður hjá þjónustufyrirtækinu hefur runnið út. Ef þetta er skýringin þarf fyrirtækið að endurnýja umboðið, sjá svarið hér að ofan um um umboðsbreytingar.
Ef þú ert að vinna hjá þjónustufyrirtæki getur verið að þú sért ekki skráð(ur) sem starfsmaður. Þetta er stillingaratriði í upplýsingakerfinu. Tengiliður þjónustufyrirtækisins getur skráð þig sem starfsmann í upplýsingakerfinu.
Ekki er hægt að tengjast upplýsingakerfinu ef þú ert í útlöndum og ekki í gegnum erlenda netþjóna.
Ef ofangreint dugir ekki, er hægt að hringja í þjónustuver VIRK eða senda póst á urraedi@virk.is og við könnum málið betur.
Hverjir geta gerst þjónustuaðilar VIRK?
Frá og með 1. október 2024 mun úrræðateymi VIRK afgreiða umsóknir þeirra sem hafa áhuga á að verða þjónustuaðilar hjá VIRK eingöngu fjórum sinnum á ári; í febrúar, maí, ágúst og nóvember.
Áhugasamir eru beðnir að skoða vel viðmið fyrir þjónustuaðila VIRK áður en umsókn er send inn og hafa í huga að öll umbeðin gögn þurfa að fylgja svo hægt sé að afgreiða hana. Allar umsóknir þurfa að berast í rafrænu kerfi VIRK - sjá nánar hér.
Þeir aðilar sem uppfylla kröfur til þjónustuaðila VIRK geta sótt um að gerast þjónustuaðilar.
Öll úrræði sem samþykkt eru fyrir einstaklinga í þjónustu VIRK eru skráð inn í nafni þjónustuaðila. Umsókn um að gerast þjónustuaðili fer fram gegnum vefsíðu VIRK.
Hvernig gerist ég þjónustuaðili?
Þeir aðilar sem uppfylla kröfur til þjónustuaðila VIRK geta sótt um að gerast þjónustuaðilar.
Öll úrræði sem samþykkt eru fyrir einstaklinga í þjónustu VIRK eru skráð inn í nafni þjónustuaðila. Umsókn um að gerast þjónustuaðili fer fram gegnum vefsíðu VIRK.
Fyrsta skrefið í umsóknarferlinu er að ákveða hvort það úrræði sem bjóða á upp á, sé skráð inn í nafni fyrirtækis eða í nafni þess einstaklings sem er ábyrgur fyrir úrræðinu.
Hvaða kröfur gerir VIRK til fagaðila sem vilja sinna fjarheilbrigðisþjónustu?
Embætti landlæknis hefur gefið út fyrirmæli varðandi þá umgjörð sem gildir um þjónustu sem veitt er af heilbrigðisstarfsmönnum sem starfa samkvæmt starfsleyfi frá Landlækni. Þau fyrirmæli má sjá hér.
Fagaðilar sem ætla að sinna fjarheilbrigðisþjónustu þurfa að tilkynna starfsemina til Embætti landlæknis og hlaða staðfestingu frá embættinu um að þeir uppfylli þær kröfur sem gerðar eru inn á svæði sitt á Mínum síðum.
Greiðir VIRK fyrir sjúkraþjálfun?
VIRK greiðir ekki hlut einstaklings í sjúkraþjálfun. Einstaklingar þurfa að leggja sjálfir út fyrir sínum hlut í sjúkraþjálfun.
Hins vegar geta einstaklingar í þjónustu þeirra sjúkraþjálfara sem vinna samkvæmt samningi við VIRK sótt um styrk vegna útlagðs kostnaðar við sjúkraþjálfun og gilda þá ákveðin viðmið sem sjá má hér.
Hvers vegna þarf ég að skila inn greinargerð?
Fagaðilar í heilbrigðsstéttum sem starfa sem þjónustuaðilar á vegum VIRK skila inn greinargerðum reglulega um framgang starfsendurhæfingar einstaklinga í þjónustu.
Greinargerðir frá fagaðilum eru mikilvægar þegar kemur að því að meta framgang í starfsendurhæfingunni. Starfsendurhæfing er í eðli sínu teymisvinna og margir fagaðilar sem koma að henni. Hlutverk ráðgjafa og sérfræðinga VIRK er aðstoða einstaklinginn við að setja raunhæf markmið í starfsendurhæfingu sinni. Greinargerð frá fagaðilum getur gegnt þar lykilhlutverki.
Af hverju þarf ég rafræn skilríki eða auðkenningarapp?
Til að komast inn í upplýsingakerfi VIRK þurfa allir notendur að nota rafræn skilríki eða auðkenningarapp. Slík notkun er öruggasta innskráningarleiðin og við viljum aðeins það besta hvað varðar öryggi einstaklinga í þjónustu VIRK.
Upplýsingakerfi VIRK færir öll samskipti í rafrænt notendaviðmót sem bætir enn frekar örugg samskipti og upplýsingastreymi milli allra aðila.
Rafræn skilríki eru gjaldfrjáls - svona færðu rafræn skilríki.
Uppfært 23. júlí 2024