Fara í efni

Hvað er kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi?

Samkvæmt lögum er það upplifun þolanda sem stýrir því hvort um áreitni sé að ræða og ekki er gerð krafa um ásetning af hálfu geranda. Áreitni og ofbeldi getur átt sér stað á vinnustað á vinnutíma, á skemmtunum og viðburðum tengdum vinnu eða utan vinnu, svo sem í gegnum samfélagsmiðla eða aðra stafræna miðla.

Kynferðisleg áreitni

Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.

Helstu birtingarmyndir kynferðislegrar áreitni:

Orðbundin áreitni

  • Athugasemdir s.s. móðganir, stríðni, klámfengið tal, blístur, stunur o.fl.
  • Kynferðislegar spurningar og óviðeigandi hrós eða gagnrýni.

Táknræn áreitni

  • Myndræn áreitni s.s. sendingar á samfélagsmiðlum eða í tölvupósti.
  • Kynferðislegar augngotur eða óþarfa gláp.

Líkamleg áreitni

  • Óvelkomin og óviðeigandi faðmlög og snertingar.
  • Vaðið inn fyrir persónulegt rými fólks.
  • Káf, þukl, kossar o.fl.Kynbundin áreitni

Kynbundin áreitni

Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.

Helstu birtingarmyndir kynbundinnar áreitni:

  • Niðurlægjandi athugasemdir sem tengjast kyni viðkomandi.
  • Brandarar eða grín á kostnað fólks vegna kyns.
  • Myndefni sem niðurlægir eitt kyn.

Ofbeldi

Hvers kyns hegðun sem leiðir til, eða gæti leitt til, líkamlegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir henni verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis. Ofbeldi getur einnig verið á grundvelli kyns.

Helstu birtingarmyndir ofbeldis:

  • Frelsissvipting
  • Tilraun til kynferðisofbeldis
  • Barsmíðar, kinnhestur
  • Nauðgun

Afleiðingar

Afleiðingar áreitni og ofbeldis geta verið margvíslegar og alvarlegar. Fyrstu viðbrögð þolanda eru oft afneitun, skömm og sjálfsásökun og viðkomandi reynir að leiða atvikið hjá sér. Þolandi ber ekki ábyrgð á hegðun geranda heldur liggur sökin alltaf hans megin. Ofbeldi og áreitni getur einnig haft áhrif á daglegt líf þolanda og breytt hegðun hans til dæmis á þann hátt að hann er meira á varðbergi og forðast ákveðnar aðstæður.

Afleiðingar birtast með ólíkum hætti hjá ólíkum einstaklingum. Hafi þolandi áður orðið fyrir áreitni eða ofbeldi getur verið að afleiðingar verði meiri. Sumir þolendur jafna sig sjálfir en aðrir þurfa faglega, og jafnvel langvarandi aðstoð.

Skyldur atvinnurekenda

Atvinnurekanda er skylt að tryggja öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi. Atvinnurekandi skal bregðast skjótt við þegar honum berst tilkynning eða frásögn af áreitni eða ofbeldi og þegar grunur kviknar með öðrum hætti. Viðbragðsáætlanir og verkferlar eiga að vera til staðar á öllum vinnustöðum. Grípa skal til aðgerða tafarlaust til þess að tryggja öryggi þolanda. Mál skulu rannsökuð og alltaf skal ræða við aðila í sitthvoru lagi.

Hægt er að færa gerendur til í starfi eða senda í leyfi á meðan mál er rannsakað. Þolandi á aldrei að gjalda þess að hafa orðið fyrir áreitni og ofbeldi. Þegar staðfest er að um áreitni eða ofbeldi sé að ræða þarf að grípa til frekari aðgerða. Afleiðingar fyrir geranda geta m.a. verið áminning eða uppsögn.

Upplýsingar um ýmis úrræði sem eru til staðar ef þig vantar ráðgjöf

Hafa samband