Fara í efni

Fréttir

Fékk nýja vinnu með hjálp ráðgjafans

„Ég get algjörlega þakkað Starfsendurhæfingarsjóði að ég er kominn með fasta vinnu. Mér fannst óhugsandi að hanga heima þótt ég sé með skerta starfsgetu fyrir gamla starfið mitt. Það eru til önnur úrræði,“ segir Ársæll Freyr Hjálmsson rafvirki sem lenti í alvarlegu vinnuslysi fyrir um ári síðan.  Hann leitaði til Sigrúnar Sigurðardóttur ráðgjafa VIRK og er nú kominn í fullt starf.

Góður vinnustaður og lágmarks fjarvistir haldast í hendur

Í verkefninu Virkur vinnustaður sem lesa má um annars staðar hér á síðunni er stefnt að því að þátttökufyrirtækin/stofnanirnar útbúi stefnu um vellíðan, fjarvistir og endurkomu til vinnu.  Margar leiðir er hægt að fara að því að búa til slíka stefnu, en hún snýst meðal annars um að skapa vinnuumhverfi sem hefur áhrif á vellíðan fólks þannig að heilbrigða einstaklinga langi til að mæta í vinnuna. Gott vinnuumhverfi er þar sem starfsfólk er umburðarlynt gagnvart þeim sem vegna heilsu sinnar þurfa að hliðra til varðandi vinnuaðstæður, vinnutíma eða verkefni. Einnig þar sem skilningur er á því að veiku starfsfólki leyfist að vera veikt í ró og næði í stað þess að þrýsta á að það mæti sem fyrst til vinnu. Lykilatriði til að viðhalda lágmarks fjarvistum er góður vinnustaður og gott vinnuumhverfi. Lesa meira

Fékk markvissa hvatningu og aðstoð

Hildur Sigurðardóttir, leikskólakennari á Akureyri, hefur átt við bakveiki að stríða frá unglingsárum. Hún var greind með brjóskeyðingu og hefur tvisvar sinnum fengið brjósklos þótt hún sé aðeins 41 árs. Verkir í baki hafa lengi háð henni í starfi. „Ég gat yfirleitt stundað vinnu en þó komu dagar sem ég varð mjög slæm, það komu tímabil þar sem ég þurfti að minnka við mig starfshlutfall vegna bakverkja“ segir Hildur sem er nýútskrifuð frá Starfsendurhæfingarsjóði.  Þegar Hildur leitaði til ráðgjafa VIRK var hún alveg óvinnufær vegna bakverkja en núna er hún komin í 70% starf. 

Fræðsludagur með ráðgjöfum VIRK

Fræðsludagur fyrir ráðgjafa VIRK var haldinn í húsnæði BSRB 14. nóvember sl. Farið var yfir þróun á starfi ráðgjafa og mikilvæga þætti í starfinu s.s. nýtt verklag og nýjungar í upplýsingakerfi.  Árelía Eydís Guðmundsdóttir kom svo eftir hádegi og hélt erindi um starfsánægju og vellíðan í starfi. 

Námskeið um geðheilsu og endurkomu til vinnu

Þann 1. desember næstkomandi  verður haldið NIVA námskeið á Hótel Sögu um geðheilsu og endurkomu til vinnu. Helstu sérfræðingar á Norðurlöndunum koma hingað til að fjalla um þetta efni en auk þeirra munu íslenskir sérfræðingar sem vinna í málaflokknum tala. Námskeiðið er öllum opið. Geðsjúkdómar eru meðal algengustu ástæðna langtímaforfalla af vinnumarkaði  og því er samspil vinnuumhverfis og geðheilsu starfsmanna mikilvægt skoðunarefni til að draga megi úr slíkum forföllum og örva líkur á að þeir sem hafa veikst af geðsjúkdómi snúi aftur til vinnu. Kostnaður vegna námskeiðsins er 150 evrur/mann. Nánari upplýsingar um námskeiðið má fá á þessum hlekk.  http://www.niva.org/home/#article-22841-3730-nordic-tour-2011-mental-health-and-work-6111

Vinnudagur sérfræðinga í sérhæfðu mati

Sérfræðingar sem koma að sérhæfðu mati  hjá VIRK eru nú nálægt þrjátíu talsins og eru matsteymi í Reykjavík, á Akureyri og á austurlandi.  Vinnudagur sérfræðinga í sérhæfðu mati var haldinn laugardaginn 29. október sl. í Háskólanum í Reykjavík. 

Þróunarverkefnið Virkur vinnustaður formlega hafið

Þróunarverkefnið Virkur vinnustaður hófst formlega með morgunverðarfundi þann 28. október sl. Verkefnið er til þriggja ára og taka 12 fyrirtæki/stofnanir þátt, en undir þau tilheyra samtals 35 vinnustaðir með tæplega 1600 starfsmönnum. Stjórn VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs ákvað að setja þróunarverkefnið á laggirnar í kjölfar vinnustofu í ársbyrjun 2011 þar sem samankomnir voru fulltrúar atvinnurekenda, stéttarfélaga og starfsmanna VIRK. Tilgangur verkefnisins er að veita stjórnendum og starfsmönnum fræðslu og ráðgjöf við að móta og innleiða stefnu um velferð, fjarvistir og endurkomu til vinnu. Áhersla er lögð á jákvæða og heilsusamlega nálgun.

Tveir nýir sérfræðingar hjá VIRK

Tveir nýir sérfræðingar hafa tekið til starfa hjá VIRK. Það eru nöfnurnar Margrét Gunnarsdóttir og Margrét Helga Theodórsdóttir. Margrét lauk námi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands 1991 og  MSc gráðu í sálmeðferð (psychotherapy) frá Háskólanum í Derby, Englandi 2008.  Hún starfaði við þverfaglega endurhæfingu í 18 ár, bæði  einstaklings- og hópmeðferð.  Frá september 2009 til ágúst 2011 vann hún sem ráðgjafi á vegum VIRK fyrir BHM, SSF, KÍ og önnur háskólafélög. Margrét Helga lauk námi í iðjuþjálfun frá Ergoterapeutskolen í Kaupmannahöfn 2002. Hún starfaði við þverfaglega endurhæfingu á Reykjalundi í níu ár, fimm ár á sviði starfsendurhæfingar og fjögur ár á tauga- og hæfingasviði. Hún hefur einnig starfað sjálfstætt sem sérfræðingur í sérhæfðu matsteymi VIRK.

Trúnaðarmannafræðsla

Að undanförnu hefur sérfræðingur á vegum VIRK ásamt ráðgjöfum í starfsendurhæfingu verið með fræðslu fyrir trúnaðarmenn og talsmenn stéttarfélaga um hugmyndafræði VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, framkvæmd og árangur. Fræðslan er á vegum Félagsmálaskóla Alþýðu og er markmið hennar að trúnaðarmenn öðlist þekkingu á sjóðnum, hlutverki hans og aðferðum.

Hafa samband