Fara í efni

Fréttir

Fræðsludagur með ráðgjöfum VIRK

Fræðsludagur fyrir ráðgjafa VIRK var haldinn í húsnæði BSRB 14. nóvember sl. Farið var yfir þróun á starfi ráðgjafa og mikilvæga þætti í starfinu s.s. nýtt verklag og nýjungar í upplýsingakerfi.  Árelía Eydís Guðmundsdóttir kom svo eftir hádegi og hélt erindi um starfsánægju og vellíðan í starfi. 

Námskeið um geðheilsu og endurkomu til vinnu

Þann 1. desember næstkomandi  verður haldið NIVA námskeið á Hótel Sögu um geðheilsu og endurkomu til vinnu. Helstu sérfræðingar á Norðurlöndunum koma hingað til að fjalla um þetta efni en auk þeirra munu íslenskir sérfræðingar sem vinna í málaflokknum tala. Námskeiðið er öllum opið. Geðsjúkdómar eru meðal algengustu ástæðna langtímaforfalla af vinnumarkaði  og því er samspil vinnuumhverfis og geðheilsu starfsmanna mikilvægt skoðunarefni til að draga megi úr slíkum forföllum og örva líkur á að þeir sem hafa veikst af geðsjúkdómi snúi aftur til vinnu. Kostnaður vegna námskeiðsins er 150 evrur/mann. Nánari upplýsingar um námskeiðið má fá á þessum hlekk.  http://www.niva.org/home/#article-22841-3730-nordic-tour-2011-mental-health-and-work-6111

Vinnudagur sérfræðinga í sérhæfðu mati

Sérfræðingar sem koma að sérhæfðu mati  hjá VIRK eru nú nálægt þrjátíu talsins og eru matsteymi í Reykjavík, á Akureyri og á austurlandi.  Vinnudagur sérfræðinga í sérhæfðu mati var haldinn laugardaginn 29. október sl. í Háskólanum í Reykjavík. 

Þróunarverkefnið Virkur vinnustaður formlega hafið

Þróunarverkefnið Virkur vinnustaður hófst formlega með morgunverðarfundi þann 28. október sl. Verkefnið er til þriggja ára og taka 12 fyrirtæki/stofnanir þátt, en undir þau tilheyra samtals 35 vinnustaðir með tæplega 1600 starfsmönnum. Stjórn VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs ákvað að setja þróunarverkefnið á laggirnar í kjölfar vinnustofu í ársbyrjun 2011 þar sem samankomnir voru fulltrúar atvinnurekenda, stéttarfélaga og starfsmanna VIRK. Tilgangur verkefnisins er að veita stjórnendum og starfsmönnum fræðslu og ráðgjöf við að móta og innleiða stefnu um velferð, fjarvistir og endurkomu til vinnu. Áhersla er lögð á jákvæða og heilsusamlega nálgun.

Tveir nýir sérfræðingar hjá VIRK

Tveir nýir sérfræðingar hafa tekið til starfa hjá VIRK. Það eru nöfnurnar Margrét Gunnarsdóttir og Margrét Helga Theodórsdóttir. Margrét lauk námi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands 1991 og  MSc gráðu í sálmeðferð (psychotherapy) frá Háskólanum í Derby, Englandi 2008.  Hún starfaði við þverfaglega endurhæfingu í 18 ár, bæði  einstaklings- og hópmeðferð.  Frá september 2009 til ágúst 2011 vann hún sem ráðgjafi á vegum VIRK fyrir BHM, SSF, KÍ og önnur háskólafélög. Margrét Helga lauk námi í iðjuþjálfun frá Ergoterapeutskolen í Kaupmannahöfn 2002. Hún starfaði við þverfaglega endurhæfingu á Reykjalundi í níu ár, fimm ár á sviði starfsendurhæfingar og fjögur ár á tauga- og hæfingasviði. Hún hefur einnig starfað sjálfstætt sem sérfræðingur í sérhæfðu matsteymi VIRK.

Trúnaðarmannafræðsla

Að undanförnu hefur sérfræðingur á vegum VIRK ásamt ráðgjöfum í starfsendurhæfingu verið með fræðslu fyrir trúnaðarmenn og talsmenn stéttarfélaga um hugmyndafræði VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, framkvæmd og árangur. Fræðslan er á vegum Félagsmálaskóla Alþýðu og er markmið hennar að trúnaðarmenn öðlist þekkingu á sjóðnum, hlutverki hans og aðferðum.

Vilt þú skrifa fræðigrein í Ársrit VIRK 2012?

Ársfundur VIRK verður haldinn í apríl 2012. Af því tilefni  gefur sjóðurinn út ársrit sem inniheldur ársskýrslu og annan fróðleik um starfsemi VIRK. Einnig  er stefnt að því að hafa fræðilega umfjöllun um starfsendurhæfingu í  ritinu.  Áhersluþættir í þessu riti verða á samstarfsaðila VIRK  og tengingu starfsendurhæfingar við atvinnulífið. VIRK býður þeim  sem hafa áhuga og þekkingu á málaflokknum og vilja fjalla um aðferðir, áhrif og árangur í starfsendurhæfingu með  fræðilegri nálgun, að senda greinar til birtingar.

Endurkoma á vinnumarkað

Þjónusta VIRK miðar að því að styðja einstaklinga með heilsubrest aftur út á vinnumarkað. Nú hefur þjónusta hjá ráðgjöfum VIRK sem staðsettir eru hjá stéttarfélögum um allt land verið í boði í tvö ár. Á þessum tíma hefur fjöldi fólks farið í gegnum kerfið og sífellt er verið að leita leiða til að aðstoða einstaklinga aftur í vinnu. Hluti þessa hóps er í vinnusambandi og kemst aftur í sína fyrri vinnu með aðstoð og samvinnu ráðgjafa og vinnuveitanda.

Starfshópur um andlega þætti í sérhæfðu mati

Um miðjan september tók til starfa hópur sem mun skoða sérhæft mat VIRK, með tilliti til andlegra þátta í matinu.  Hópurinn mun skoða þá þætti sem í dag eru hluti af matinu, fara yfir erlendar rannsóknir á þessu sviði og skoða þekkta þætti sem geta skipt máli fyrir endurhæfingu.  Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á sérhæfða matinu benda til þess að þörf sé á að bæta andlega þætti í því.

Hafa samband