Fara í efni

Fréttir

Fjarvera frá vinnu - viðmið

Fjarvera starfsmanna frá vinnu er talin hafa töluverð tengsl við starfsánægju og hollustu starfsmanna. Óánægja í starfi hefur sterk tengsl við óstundvísi, fjarvistir, sálfræðilegan og líkamlegan heilsuvanda starfsmanna. Þættir eins og kulnun í starfi, vaktaálag, árekstrar milli einkalífs og vinnu og áhugamál starfsmanna utan vinnu hafa einnig verið tengdir við fjarvistir. Óhjákvæmilega hafa ýmsir þættir í umhverfinu áhrif, eins og t.d flensur, en vinnumenning vinnustaðarins hefur einnig áhrif. Bent hefur verið á að fólk hefur tilhneigingu til þess að vanmeta sínar eigin fjarvistir en ofmeta fjarvistir annarra. Stjórnendur og starfsmenn hafa þar af leiðandi oft mismunandi tilfinningu fyrir tíðni fjarvista. Auk þess leggja þessir hópar oft mismunandi skilning í það hvað teljist vera eðlilegar fjarvistir. Til að skoða þetta nánar fól VIRK ráðgjafafyrirtækinu Attentus – mannauður og ráðgjöf að afla gagna um skilgreiningar og viðmið fjarveru frá vinnu á Íslandi og skoða þau í alþjóðlegum samanburð.  Sjá nánar skýrslu  Attentus um Fjarvistastjórnun.

Árangur í starfsemi VIRK

Þjónusta VIRK er ætluð einstaklingum með skerta starfsgetu vegna heilsubrests sem stefna markvisst aftur að þátttöku á vinnumarkaði. Auk þess þurfa þeir að hafa bæði vilja og getu til að taka virkan þátt í eigin starfsendurhæfingu. Tveir af mörgum árangursmælikvöðrum okkar í starfseminni er hversu fljótt við náum til einstaklinga sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda og hve vel okkur tekst að styðja fólk aftur í launað starf á vinnumarkaði. Til þess að ná góðum árangri er mikilvægt að ná til einstaklinga áður en þeir fjarlægjast vinnumarkaðinn til lengri tíma. 

Samstarf við lækna

VIRK Starfsendurhæfingarsjóður leggur áherslu á gott samstarf við lækna og annað fagfólk sem sinnir heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu.  Markvisst hefur verið unnið að því að þróa skilvirk samskipti og samvinnu við heimilislækna vegna sameiginlegra skjólstæðinga. Nú þegar er VIRK í skipulögðu samstarfi við þrjár heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og á nokkrum stöðum á  landsbyggðinni er einnig kominn vísir að svipuðu samstarfi. Samstarfið felst í mánaðarlegum fundum þar sem m.a. er farið yfir flókin einstaklingsmál og tilvísunum komið á framfæri. Með markvissu samstarfi aukast líkur á að leið einstaklings í gegnum kerfið sé heildstætt ferli og starfsendurhæfing skili árangri.

Fjöldi greina og viðtala í Ársriti um starfsendurhæfingu

Atvinnuþátttaka eykur lífsgæði, er fyrirsögn í einu þeirra viðtala sem birt eru í Ársriti um starfsendurhæfingu 2012 og gefið var út í tengslum við ársfund VIRK nú á vordögum. Í viðtalinu segir Sigrún Sigurðardóttir ráðgjafi VIRK í starfsendurhæfingu, sem starfar fyrir Rafiðnaðarsambandið og fleiri stéttarfélög, meðal annars: „Mér finnst afar mikilvægt að fólk komist aftur til vinnu þótt það sé einungis í hlutastarfi til að byrja með. Þó að fólk geti ekki sinnt sínu gamla starfi er það ekki endilega óvinnufært.“ Síðan ræðir hún um starfsprófanir og segir:„Einn af mínum félagsmönnum var að kljást við afleiðingar af alvarlegu slysi og var ekki fær um að fara í sitt fyrra starf. Hann fór þessa leið og fékk í kjölfarið ráðningu.“  

Nýr sérfræðingur hjá VIRK

Nýr sérfræðingur, Erla Konný Óskarsdóttir hefur tekið til starfa á sviði þróunar, gæða- og eftirlits hjá VIRK. Erla Konný er með B.A. í sálfræði frá Háskóla Íslands og M.A. í stjórnun með sérhæfingu í upplýsingamiðlun frá University Maryland. Hún er með margra ára reynslu í kennslu, ráðgjöf og stjórnun. Síðastliðin sjö ár hefur hún starfað við kennslu og ráðgjöf í gæða-, mannauðs-, skjala-, upplýsinga- og öryggismálum hjá FOCAL Software & Consulting samfara stundakennslu við Háskóla Íslands. Erla vann í tólf ár í Bandaríkjunum þar sem hún starfaði m.a. sem ráðgjafi fyrir tölvu- og ráðgjafafyrirtæki og  verkefnastjóri við þróun á tölvuvæddu kennsluefni fyrir stjórn Bandaríkjanna. Þar hafði hún einnig umsjón með þróun og stjórnun upplýsingavefa fyrir tóbaksvarnarráð, hélt námskeið, fyrirlestra, stýrði alþjóðlegum fundum og tók þátt í stefnumótun.

Nýr ráðgjafi

Nýr ráðgjafi í starfsendurhæfingu hefur tekið til starfa hjá stéttarfélögum í samstarfi við VIRK. Það er Hlín Guðjónsdóttir sem starfar fyrir Rafiðnaðarsambandið, VM, Matvís, Félag hársnyrtisveina og Mjólkurfræðingafélag Íslands. Hlín er með B.Sc gráðu í iðjuþjálfun. Hún hefur víðtæka starfsreynslu, hefur m.a. starfað sem iðjuþjálfi á Geðsviði Landspítala Háskólasjúkrahúsi og hjá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Síðastliðin 16 ár starfaði hún sem iðjuþjálfi  á  Reykjalundi, endurhæfingamiðstöð SÍBS, m.a. á Taugasviði, Verkjasviði og s.l. 7 ár sem sviðstjóri  iðjuþjálfa á Hjartasviði. Hlín er með aðsetur hjá Rafiðnaðarsambandinu á Stórhöfða.

Mikil þátttaka og áhugaverð erindi á ársfundi VIRK

Um 200 manns mættu á ársfund VIRK 2012 sem haldinn var í salnum Norðurljós í Hörpu síðastliðinn fimmtudag (12. apríl 2012).  Fundurinn hófst með ávarpi Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra.  Vigdís Jónsdóttir fór síðan yfir starfsemi VIRK á síðasta ári og stefnu til framtíðar og að því loknu hélt Ingibjörg H. Jónsdóttir prófessor við Institute of Stress Medicine í Gautaborg áhugavert erindi um reynslu og niðurstöður nýjustu rannsókna varðandi forvarnir og starfsendurhæfingu vegna kulnunar og síþreytu.  Að loknu kaffihléi voru síðan hefðbundin ársfundarstörf á dagskrá þar sem ársreikningur var samþykktur, endurskoðandi kjörinn og tilkynnt um skipan í stjórn til næstu tveggja ára.  Stjórn og stofnaðilar lögðu til breytingar á skipulagsskrá sem voru samþykktar á fundinum og miða þær að því tryggja aðild Landssamtaka lífeyrissjóða að stjórn og fulltrúaráði VIRK.  Nýtt ársrit VIRK um starfsendurhæfingu er komið út og var því dreift á fundinum.  Þeir sem vilja fá eintak af ársritinu geta nálgast það á skrifstofu VIRK eða sent póst á virk@virk.is og fengið það sent.  Rafræna útgáfu af ársritinu er einnig að finna hér:  Ársrit VIRK 2012 Einnig er hægt að nálgast önnur gögn af ársfundinum hér á heimasíðu VIRK þar á meðal afrit af glærum Vigdísar Jónsdóttur framkvæmdastjóra VIRK og upplýsingar frá Ingibjörgu Jónsdóttur Prófessor við Institute of Stress Medicine í Gautaborg.

Átta myndbönd um fjarverustjórnun á heimasíðu VIRK

Með tveimur nýjum myndböndum:   Vellíðan á vinnumiðstöðinni og Siðferði og viðskiptasjónarmið í jafnvægi, eru samtals átta myndbönd um fjarverustjórnun komin á heimasíðu VIRK. Myndböndin eru tekin upp í dönskum fyrirtækjum en hafa verið textuð á íslensku. Fjarverustjórnun er ekki algengt hugtak á Íslandi en ætti í raun að vera eðlilegur hluti af  starfsmannastjórnun. Í myndböndunum er gerð grein fyrir því um hvað fjarverustjórnun snýst og eiga þau þar af leiðandi að höfða bæði til starfsfólks og stjórnenda. Meðal þess sem myndböndin greina frá er ávinningur þess að vinna markvisst með veikindafjarveru á vinnustöðum, aukin vellíðun á vinnustað í kjölfar þess að veikindafjarvistir verða hluti af eðlilegu umræðuefni, að stjórnendur beri aukna umhyggju fyrir starfsfólki sínu, að starfsfólk beri umhyggju hvert fyrir öðru, þegar stjórnendur hafa samband við starfsfólk í veikindum eru auknar líkur á að það snúi fyrr til baka úr veikindaleyfi og að samstarfsfólk sé umburðarlynt gagnvart þeim sem geta ekki innt af hendi fulla starfsgetu á meðan bataferli stendur, svo einhver dæmi séu nefnd. Til þess að vel takist til um fjarverustefnur er brýnt að millistjórnendur fái víðtæka fræðslu frá yfirstjórn fyrirtækisins eða stofnunarinnar og að trúnaðarmenn séu einnig með í ráðum.

Hafa samband