Fara í efni

Fréttir

Nýr sérfræðingur hjá VIRK

Jónína Waagfjörð hefur verið ráðin sem verkefnastjóri hjá VIRK fyrir þróunarverkefnið Virkur vinnustaður. Hún er sjúkraþjálfari frá Háskóla Íslands og hefur starfað sem slíkur í yfir 20 ár. Árið 1989 útskrifaðist hún með MSc gráðu innan taugasjúkdóma og hreyfistjórnunar frá Boston University í Bandaríkjunum. Eftir útskrift starfaði hún í Bandaríkjunum við sjúkraþjálfun þar sem hún kenndi sjúkraþjálfun við University of South Alabama og vann einnig við meðhöndlun sjúklinga. Síðustu 3 árin starfaði hún sem yfirmaður endurhæfingarstöðvar í úthverfi Detroit í Michigan fylki. Eftir heimkomu tók Jónína við lektorsstöðu við læknadeild Háskóla Íslands innan sjúkraþjálfunar og rannsóknastöðu við Landspítala Háskólasjúkrahús og starfaði við það í 4 ár þar til hún flutti til Bretlands. 

Nýir ráðgjafar á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum

Tveir nýir ráðgjafar í starfsendurhæfingu hafa verið ráðnir til starfa hjá stéttarfélögum í samstarfi við VIRK. Erla Jónsdóttir er nýr ráðgjafi sem ráðinn hefur verið til starfa hjá stéttarfélögunum á Austfjörðum. Erla útskrifaðist frá Þroskaþjálfaskóla Íslands árið 1986 og vann um árabil sem þroskaþjálfi á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi, auk þess að reka eigið fyrirtæki um 5 ára skeið. Á árunum 2007 - 2012 starfaði hún sem framkvæmdastjóri og ráðgjafi starfsendurhæfingar Austurlands. Erla er með starfsstöð hjá stéttarfélögunum á Austurlandi, á Reyðarfirði og á Egilsstöðum. Georg Ögmundsson hefur verið ráðinn sem ráðgjafi hjá stéttarfélögunum í Vestmannaeyjum. Georg útskrifaðist sem sjúkraþjálfari frá Háskóla Íslands árið 2002 og lauk diplómanámi í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011. Hann starfaði sjálfstætt sem sjúkraþjálfari um fimm ára skeið en hefur frá árinu 2007 unnið hjá Fjarðaráli við umhverfis-, heilsu- og öryggismál. Georg er með aðsetur hjá VR í Vestmannaeyjum.

Forseti tryggingalækna í Evrópu í heimsókn

Sören Brage forseti samtaka tryggingalækna í Evrópu (EUMASS) og læknir hjá NAV í Noregi hélt erindi á Læknadögum 2013. Þar greindi hann frá mati á starfsgetu og alþjóðlegum áherslum í því samhengi. Seinna þann sama dag hélt hann fyrirlestur á vegum VIRK sem trúnaðarlæknum lífeyrissjóða, læknum innan TR, endurhæfingarlæknum og sérfræðingum í sérhæfðum matsteymum VIRK var boðið að sækja. Í erindi sínu greindi Sören frá umsóknarferli örorku í stóru samhengi (Evrópu) og hlutverki lækna hjá NAV í Noregi og hvernig ákvörðunarferli um örorku er háttað þar í landi. Sören hefur mikla þekkingu á starfsendurhæfingarfræðum og góða yfirsýn yfir þær ólíku leiðir sem vestrænar þjóðir hafa farið í þessum efnum.

Nýr sérfræðingur hjá VIRK

Héðinn Jónsson hefur verið ráðinn í starf sérfræðings á starfsendurhæfingarsviði. Hann útskrifaðist með B.sc gráðu í sjúkraþjálfun frá HÍ 2002 og M.sc gráðu í heilsuhagfræði frá HÍ 2011. Héðinn hefur starfað sem sjúkraþjálfari og samhliða því unnið sem viðurkenndur þjónustuaðili á sviði vinnuverndar. Undanfarin ár hefur hann starfað sem sérfræðingur í sérhæfðum mötum fyrir VIRK. Héðinn hefur starfað við innleiðingu Hreyfiseðla - ávísun á hreyfingu undanfarin ár en það er tilraunaverkefni á vegum Velferðarráðuneytisins. Um seinustu áramót lauk fjögurra ára formennsku hans í Félagi íslenskra sjúkraþjálfara. Héðinn hóf störf 28. janúar síðastliðinn.

Trúnaðarmannafræðsla

Frá stofnun VIRK hefur Félagsmálaskóli alþýðu kallað til sérfræðinga þaðan til að sjá um fræðslu á trúnaðarmannanámskeiðum skólans. Markmið fræðslunnar er að trúnaðarmenn á vinnustöðum öðlist þekkingu á starfsemi VIRK, hlutverki sjóðsins og aðferðum. Þannig eru þeir betur í stakk búnir til að upplýsa samstarfsfólk sitt og benda þeim á þá aðstoð sem VIRK býður.

Þverfagleg og samhæfð þjónusta í starfsendurhæfingu skilar árangri – niðurstöður úr viðamiklu þróunarverkefni í Danmörku

Í desember síðastliðnum var birt skýrsla með niðurstöðum úr viðamiklu endurkomu til vinnu (ETV) verkefni sem framkvæmt var í Danmörku 2009 – 2012. Verkefnið gengur undir nafninu „Det store TTA (Tilbage Til Arbejdsmarkedet)-projekt“ eða „Stóra ETV-verkefnið“ þar sem um er að ræða stærsta verkefni af þessu tagi á heimsvísu. Verkefnið var skipulagt og fór í gang í kjölfar samnings milli dönsku ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins árið 2008 um að setja af stað verkefni með þann tilgang að draga úr veikindafjarvistum. Alls 39 verkefni tengjast ofangreindum samningi og er TTA verkefnið eitt af þeim og það langstærsta.

Samstarfsverkefni VIRK og endurhæfingardeildar á Laugarásvegi

VIRK og endurhæfingardeild Landspítalans að Laugarásvegi eru um þessar mundir að fara af stað með samstarfsverkefni með það að markmiði að byggja upp árangursríka starfsendurhæfingu fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma á Íslandi.  Í upphafi verður sett upp tilraunaverkefni þar sem unnið verður eftir hugmyndafræði IPS (individual placement and support) með fimm ungum einstaklingum sem eru í þjónustu á Laugarásveginum.   Ástæða þess að ákveðið var að fylgja hugmyndafræði IPS er sú að rannsóknir benda til þess að þetta sé áhrifaríkasta leiðin við að aðstoða fólk með þungar geðgreiningar út á vinnumarkað.  Rannsóknir sýna að fólk með þungar geðgreiningar sé þrisvar sinnum líklegra til þess að verða virkt á almennum vinnumarkaði í hlutastarfi eða fullu starfi ef farið er eftir hugmyndafræði IPS frekar en annarri hugmyndafræði.

Nýr ráðgjafi

Steinhildur Sigurðardóttir er nýr ráðgjafi sem ráðinn hefur verið til starfa hjá stéttarfélögum í  Hvalfirði, Borgarfirði, á Mýrum, á Snæfellsnesi og í Dalasýslu í samstarfi við VIRK.  Steinhildur útskrifaðist sem sjúkraliði árið 1986 og hóf þá störf á Borgarspítalanum þar sem hún starfaði á handlæknisdeildum í 16 ár.  Hún lauk B.A. prófi í félagsfræði frá H.Í. árið 2001 og starfsréttindanámi í félagsráðgjöf frá H.Í. árið 2002.  Undanfarin tíu ár hefur hún starfað hjá Félagsþjónustu Hafnarfjarðar með starfsendurhæfingu sem sérsvið. Starfsstöð Steinhildar er hjá Stéttarfélagi Vesturlands í Borgarnesi. 

Veikindafjarvera Dana í einkageiranum 7,3 dagar

Þriðja árið í röð fækkar veikindadögum á dönskum vinnustöðum og voru þeir að meðaltali 7,3 dagar árið 2011 í einkageiranum hjá fólki í fullu starfi eða 3,3%.  Árið 2008 voru fjarverudagarnir að meðaltali 8,7. Einnig hefur dregið úr fjarveru hjá hinu opinbera en töluvert minna. Fyrirtækjaráðgjafi hjá CABI (Center for Aktiv BeskæftigelsesIndsats) segir að þennan árangur megi þakka því mikla átaki sem hafi átt sér stað á dönskum vinnumarkaði þar sem unnið er markvisst með fyrirtækjum til að ná þessu markmiði. „Það er kominn skilningur á því að veikindafjarvera stafar ekki einungis af bakteríum eða vírusum og að allir bera ábyrgð á vinnustaðnum og geta lagt sitt af mörkum,“ segir Camilla Høholt Smith í viðtali í septemberhefti Agenda. Hún bendir á að séu vandamál á vinnustaðnum sé mikilvægt að ræða þau í hreinskilni því þau geti verið ástæða fjarverunnar. Þetta krefjist ákveðinna hæfileika hjá stjórnendum. Prófessor við Árósaháskóla segir að á þeim vinnustöðum þar sem tilkynna á veikindi beint til yfirmanns séu fjarvistir marktækt færri en þar sem einungis þarf að tilkynna veikindi til móttökunnar.

Hafa samband