Fara í efni

Fréttir

Auglýsing eftir greinum í ársrit VIRK 2014

Ársfundur VIRK verður haldinn 29. apríl 2014. Af því tilefni  gefur sjóðurinn út ársrit sem inniheldur skýrslu framkvæmdastjóra og annan fróðleik um starfsemi VIRK. Einnig  er stefnt að því að hafa fræðilega umfjöllun um starfsendurhæfingu í  ritinu og býður VIRK þeim  sem hafa áhuga og þekkingu á málaflokknum og vilja fjalla um aðferðir, áhrif og árangur í starfsendurhæfingu með  fræðilegri nálgun, að senda greinar til birtingar. Sérstaklega er óskað eftir greinum um starfsendurhæfingu með áherslu á aðferðir og árangur á vinnumarkaði og áhrif á endurkomu til vinnu eftir veikindi eða slys.  Allar hugmyndir að umfjöllunarefni verða þó teknar til athugunar. Skiladagur greina er 15. janúar 2014. Útgáfa ársrits verður á ársfundi VIRK þann 29. apríl  2014. Ársritið 2013 var prentað í 2500 eintökum og var því dreift til einstaklinga, fagfólks, stéttarfélaga, atvinnurekenda, heilbrigðistofnana og bókasafna um allt land, auk þess sem ritið er aðgengilegt á heimasíðu sjóðsins: http://virk.is/static/files/kynningarefni/virk-arsrit-2013-net.pdf. Vinsamlega sendið fyrirspurnir eða  hugmyndir að efni og efnistökum til ritstjóra á netföngin ingalo@virk.is og joninaw@virk.is fyrir lok desember 2013.

Nýr ráðgjafi hjá VR

Hildur Guðjónsdóttir er nýr ráðgjafi sem hóf störf hjá VR í október. Hildur lauk Bs. prófi í sálfræði árið 2008 og er að vinna að MA gráðu í Náms- og starfsráðgjöf, en hún skrifar ritgerðina sína samhliða vinnu. Sumarið 2010 starfaði hún sem ráðgjafi hjá Vinnumálastofnun og var nemi þar haustið 2010. Í janúar 2012 hóf Hildur störf sem ráðgjafi á Atvinnutorgi í Reykjavík og frá áramótum 2013 vann hún sem atvinnuráðgjafi hjá Starfi hjá VR. Við bjóðum Hildi velkomna í hópinn og óskum henni velfarnaðar í starfi.

VIRK leitar að læknum og öðrum sérfræðingum í verktakavinnu við framkvæmd á þverfaglegu mati

VIRK - Starfsendurhæfingarsjóður leitar að öflugum og metnaðarfullum sérfræðingum við framkvæmd starfsgetumats VIRK (læknum, sjúkraþjálfurum, iðjuþjálfum, sálfræðingum og félagsráðgjöfum). Unnið er eftir faglegum kröfum og verkferlum VIRK um framkvæmd starfsgetumats. Um er að ræða verktakavinnu í breytilegu starfshlutfalli (samkomulagsatriði). Starfsgetumat er heildrænt þverfaglegt mat á möguleikum einstaklings til launaðra starfa á vinnumarkaði þar sem unnið er eftir hugmyndafræði sál-líf-félagslegrar nálgunar.  Um er að ræða eftirtalda þætti: Mat á raunhæfni starfsendurhæfingar Þverfaglegt mat á starfsendurhæfingarmöguleikum einstaklings Endurmat þar sem afstaða er tekin til hvort starfsendurhæfing sé fullreynd og hver starfsgetan sé Nánari upplýsingar um hæfniskröfur og fleira er að finna hér eða á heimasíðu Talent ráðninga.  Lind hjá Talent ráðningum hefur umsjón með störfunum og hægt er að senda umsókn í gegnum heimasíðu Talent ráðninga (www.talent.is) eða með því að senda ferilsskrá eða fyrirspurn á lind@talent.is

Áfallið umturnaði öllu

„Vinnuveitandi minn benti mér á VIRK,“ segir Ástrós Guðlaugsdóttir, en hún starfar hjá Jónar Transsport hf, einu af dótturfyrirtækjum Samskipa. Þar vinnur hún við tollskjalagerð. Hún hefur afar góða reynslu af samstarfinu við VIRK, sem hún leitaði til í kjölfar heilaáfalls.    „Starfsmannastjóri og þjónustufulltrúi í launadeild benti mér á VIRK. Fyrirtækið hafði góða reynslu  af samstarfi við VIRK vegna annarra starfsmanna áður. Ég sneri mér í framhaldi af því til VR. Ég fékk mjög fljótlega viðtal við ráðgjafa VIRK hjá VR og boltinn byrjaði að rúlla,“ segir Ástrós Guðlaugsdóttir.

Tilkynning um styrkveitingar

Styrkveitingar til rannsókna og þróunar á uppbyggingu úrræða í starfsendurhæfingu. VIRK Starfsendurhæfingarsjóður (VIRK) veitir tvisvar á ári styrki til rannsókna og þróunar á uppbyggingu úrræða í starfsendurhæfingu. Úthlutun styrkja frá VIRK á sér grundvöll bæði í stofnskrá VIRK og lögum nr. 60/2012 um starfsendurhæfingarsjóði. Heildarfjárveiting til úthlutunar styrkjanna er skilgreind í árlegri fjárhagsáætlun sjóðsins og samþykkt af stjórn hans. Við mat á umsóknum er áhersla lögð á að viðkomandi rannsókn eða verkefni stuðli að vel skilgreindri uppbyggingu og ávinningi í starfsendurhæfingu og/eða séu til þess fallin að auka almennt þekkingu á starfsendurhæfingu á Íslandi. Frekari upplýsingar um umsóknarferli vegna styrkveitinga er að finna hér.

Bílstjóri eða farþegi? Góð ráð til að takast á við streitu í vinnu

Streita vegna vinnu er algeng orsök heilsubrests hjá starfsmönnum og getur hún haft víðtæk áhrif á starfsmenn og vinnustaðinn allan. Í efnahagsþrenginum fjölgar streituvöldum í umhverfi okkar, margir glíma við fjárhagsáhyggjur og aðra erfiðleika sem geta gert þeim erfiðara fyrir að takast á við álag í vinnu. Atvinnurekendur geta á margan hátt haft áhrif á streitu innan sinna fyrirtækja, svo sem með góðu skipulagi, hvetjandi umhverfi, opnum samskiptum, hæfilegu vinnuálagi og auknum áhrifum starfsmanna á störf sín. Starfsmenn sem upplifa mikla streitu í starfi ættu þó ekki að sitja og bíða eftir að stjórnendur breyti vinnufyrirkomulaginu. Hver og einn getur tekið ábyrgð á eigin heilsu og til þess eru ýmsar leiðir.   Hér  á heimasíðu VIRK er að finna góða samantekt yfir þá helstu þætti sem við getum haft áhrif á og leiða til betri líðan og minni streitu í vinnu.  Sjá einnig hér:    Bílstjóri eða farþegi? Að takast á við streitu í vinnu

Nýr ráðgjafi hjá Eflingu

Guðrún Sigurbjörnsdóttir er nýr ráðgjafi sem hefur hafið störf hjá Eflingu og sjómannafélagi Íslands. Guðrún útskrifaðist sem grunnskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands árið 1996 og kenndi í 12 ár bæði á Bolungarvík og í Reykjavík. Árið 2008 lauk hún diplómanámi í náms- og starfsráðgjöf en hún hefur einnig lokið diplóma námi í hugrænni atferlismeðferð. Síðastliðin 5 ár hefur hún verið náms- og starfsráðgjafi hjá Vinnumálastofnun Höfuðborgarsvæðisins. Hún skrifar núna MA ritgerðina sína í náms- og starfsráðgjöf samhliða ráðgjafastarfinu hjá VIRK. Við bjóðum hana velkomna til starfa.

Áhugahvetjandi samtal hjá VIRK

Verið er að innleiða notkun Áhugahvetjandi samtals við starfsendurhæfingarráðgjöf hjá VIRK. Nú hafa 22 ráðgjafar lokið grunnnámskeið í Áhugahvetjandi samtali og í vetur er stefnt að því að allir ráðgjafar VIRK ljúki því námskeiði.  Stefnt er að framhaldsnámskeiði eftir áramót fyrir alla ráðgjafa og er það í fyrsta skipti á Íslandi sem slíkt námskeið verður haldið. Áhugahvetjandi samtal er einstaklingsmiðuð leið sem byggir á samvinnu og leiðbeiningu til að kalla fram og styrkja innri áhugahvöt einstaklinga til breytinga. Aðferðin hefur gefist vel til að vinna með einstaklingum sem eru á báðum áttum varðandi breytingu eða eru tregir til, þar sem það nýtir tvíbendni til að færa einstakling áfram í breytingarferlinu. Tvíbendni er það kallað þegar tvær leiðir eru í boði sem báðar hafa ákveðna kosti og galla fyrir einstaklinginn. Áhugahvetjandi samtal skapar tækifæri fyrir einstaklinga að vega og meta báðar leiðir án þess að dæma eða gagnrýna. Þannig má kalla fram og efla innri áhugahvöt til hegðunarbreytinga („ég ætla að breyta af því að ég vil það“) og skapa jákvæða breytingu á styttri tíma en almennt er talið mögulegt Miller, 2009).

Hreyfitorg; formleg opnun og málþing 13. september

Gagnvirki vefurinn Hreyfitorg verður opnaður með formlegum hætti föstudaginn 13. september  kl. 14. Í tilefni opnunarinnar verður á sama tíma haldið málþingið Þjálfun almennings - ábyrg þjónusta, upplýst val.

Nýir ráðgjafar

Tveir nýir ráðgjafar hófu störf hjá okkur í sumar. Það eru þær Heiða Kristín Harðardóttir sem verður hjá VR og Guðrún Guðmundsdóttir hjá sameinaða lífeyrissjóðnum.

Hafa samband