Fara í efni

Fréttir

Áfallið umturnaði öllu

„Vinnuveitandi minn benti mér á VIRK,“ segir Ástrós Guðlaugsdóttir, en hún starfar hjá Jónar Transsport hf, einu af dótturfyrirtækjum Samskipa. Þar vinnur hún við tollskjalagerð. Hún hefur afar góða reynslu af samstarfinu við VIRK, sem hún leitaði til í kjölfar heilaáfalls.    „Starfsmannastjóri og þjónustufulltrúi í launadeild benti mér á VIRK. Fyrirtækið hafði góða reynslu  af samstarfi við VIRK vegna annarra starfsmanna áður. Ég sneri mér í framhaldi af því til VR. Ég fékk mjög fljótlega viðtal við ráðgjafa VIRK hjá VR og boltinn byrjaði að rúlla,“ segir Ástrós Guðlaugsdóttir.

Tilkynning um styrkveitingar

Styrkveitingar til rannsókna og þróunar á uppbyggingu úrræða í starfsendurhæfingu. VIRK Starfsendurhæfingarsjóður (VIRK) veitir tvisvar á ári styrki til rannsókna og þróunar á uppbyggingu úrræða í starfsendurhæfingu. Úthlutun styrkja frá VIRK á sér grundvöll bæði í stofnskrá VIRK og lögum nr. 60/2012 um starfsendurhæfingarsjóði. Heildarfjárveiting til úthlutunar styrkjanna er skilgreind í árlegri fjárhagsáætlun sjóðsins og samþykkt af stjórn hans. Við mat á umsóknum er áhersla lögð á að viðkomandi rannsókn eða verkefni stuðli að vel skilgreindri uppbyggingu og ávinningi í starfsendurhæfingu og/eða séu til þess fallin að auka almennt þekkingu á starfsendurhæfingu á Íslandi. Frekari upplýsingar um umsóknarferli vegna styrkveitinga er að finna hér.

Bílstjóri eða farþegi? Góð ráð til að takast á við streitu í vinnu

Streita vegna vinnu er algeng orsök heilsubrests hjá starfsmönnum og getur hún haft víðtæk áhrif á starfsmenn og vinnustaðinn allan. Í efnahagsþrenginum fjölgar streituvöldum í umhverfi okkar, margir glíma við fjárhagsáhyggjur og aðra erfiðleika sem geta gert þeim erfiðara fyrir að takast á við álag í vinnu. Atvinnurekendur geta á margan hátt haft áhrif á streitu innan sinna fyrirtækja, svo sem með góðu skipulagi, hvetjandi umhverfi, opnum samskiptum, hæfilegu vinnuálagi og auknum áhrifum starfsmanna á störf sín. Starfsmenn sem upplifa mikla streitu í starfi ættu þó ekki að sitja og bíða eftir að stjórnendur breyti vinnufyrirkomulaginu. Hver og einn getur tekið ábyrgð á eigin heilsu og til þess eru ýmsar leiðir.   Hér  á heimasíðu VIRK er að finna góða samantekt yfir þá helstu þætti sem við getum haft áhrif á og leiða til betri líðan og minni streitu í vinnu.  Sjá einnig hér:    Bílstjóri eða farþegi? Að takast á við streitu í vinnu

Nýr ráðgjafi hjá Eflingu

Guðrún Sigurbjörnsdóttir er nýr ráðgjafi sem hefur hafið störf hjá Eflingu og sjómannafélagi Íslands. Guðrún útskrifaðist sem grunnskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands árið 1996 og kenndi í 12 ár bæði á Bolungarvík og í Reykjavík. Árið 2008 lauk hún diplómanámi í náms- og starfsráðgjöf en hún hefur einnig lokið diplóma námi í hugrænni atferlismeðferð. Síðastliðin 5 ár hefur hún verið náms- og starfsráðgjafi hjá Vinnumálastofnun Höfuðborgarsvæðisins. Hún skrifar núna MA ritgerðina sína í náms- og starfsráðgjöf samhliða ráðgjafastarfinu hjá VIRK. Við bjóðum hana velkomna til starfa.

Áhugahvetjandi samtal hjá VIRK

Verið er að innleiða notkun Áhugahvetjandi samtals við starfsendurhæfingarráðgjöf hjá VIRK. Nú hafa 22 ráðgjafar lokið grunnnámskeið í Áhugahvetjandi samtali og í vetur er stefnt að því að allir ráðgjafar VIRK ljúki því námskeiði.  Stefnt er að framhaldsnámskeiði eftir áramót fyrir alla ráðgjafa og er það í fyrsta skipti á Íslandi sem slíkt námskeið verður haldið. Áhugahvetjandi samtal er einstaklingsmiðuð leið sem byggir á samvinnu og leiðbeiningu til að kalla fram og styrkja innri áhugahvöt einstaklinga til breytinga. Aðferðin hefur gefist vel til að vinna með einstaklingum sem eru á báðum áttum varðandi breytingu eða eru tregir til, þar sem það nýtir tvíbendni til að færa einstakling áfram í breytingarferlinu. Tvíbendni er það kallað þegar tvær leiðir eru í boði sem báðar hafa ákveðna kosti og galla fyrir einstaklinginn. Áhugahvetjandi samtal skapar tækifæri fyrir einstaklinga að vega og meta báðar leiðir án þess að dæma eða gagnrýna. Þannig má kalla fram og efla innri áhugahvöt til hegðunarbreytinga („ég ætla að breyta af því að ég vil það“) og skapa jákvæða breytingu á styttri tíma en almennt er talið mögulegt Miller, 2009).

Hreyfitorg; formleg opnun og málþing 13. september

Gagnvirki vefurinn Hreyfitorg verður opnaður með formlegum hætti föstudaginn 13. september  kl. 14. Í tilefni opnunarinnar verður á sama tíma haldið málþingið Þjálfun almennings - ábyrg þjónusta, upplýst val.

Nýir ráðgjafar

Tveir nýir ráðgjafar hófu störf hjá okkur í sumar. Það eru þær Heiða Kristín Harðardóttir sem verður hjá VR og Guðrún Guðmundsdóttir hjá sameinaða lífeyrissjóðnum.

Með jákvæðni að vopni

„Mér finnst gott að geta sagt, ég er upptekin, ég er að vinna til klukkan fimm virka daga,“ segir Katrín Björg Andersen þegar hún er spurð hvenær dagsins hún hafi tíma til að segja frá reynslu sinni. Hún  var utan vinnumarkaðar í tvö ár, það kom ekki til af góðu. „Fyrir réttum tveimur árum, í lok ágúst 2011 hitti ég fyrst ráðgjafa hjá VIRK,“ segir Katrín Björg þegar við höfum komið okkur fyrir í vistlegri stofu á heimili fjölskyldunnar í Mosfellsbæ. „Þegar ég mætti hjá ráðgjafanum vissi ég ekki hvað væri framundan eða hvernig ég ætti að snúa mér í mínum veikindum, sem enginn vissi þá af hverju stöfuðu. Tveir ráðgjafar hjá VIRK komu að máli mínu þessi tvö ár og leiddu mig með úrræðum sínum í gegnum þetta langa ferli. Margt reyndist í boði og ég ákvað strax að vera dugleg að prófa og nýta mér þau úrræði sem buðust. Ég fékk alla aðstoð sem ég þurfti með því einu að mæta á fundi hjá VIRK. Báðir ráðgjafarnir, sem ég skipti við, voru afskalega duglegir að finna úrræði og opna fyrir mér leið mér sem áður virtist algerlega lokuð. Þegar ég hugsa til baka finnst mér ógnvekjandi hve vonlaus ég var fyrir réttum tveimur árum.

Starfsgeta, þátttaka og velferð

Vinna er einstaklingum yfirleitt mjög mikilvæg. Það skiptir máli fyrir okkur öll að hafa hlutverk í lífinu, geta séð sjálfum okkur farborða og verið fjárhagslega sjálfstæð. Vinnan mótar einnig félagslega stöðu, sjálfsmynd og þroska einstaklinga þar sem þeim gefast tækifæri til að mynda fjölbreytt félagsleg tengsl og takast á við nýjar áskoranir í samskiptum. Rannsóknir hafa sýnt að löng fjarvera frá vinnumarkaði ógnar heilsu og lífsgæðum einstaklinga meira en margir lífshættulegir sjúkdómar. Þátttaka á vinnumarkaði hefur almennt jákvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu einstaklinga — einnig þeirra einstaklinga sem glíma við varanlegan heilsubrest af ýmsum toga (Waddel & Burton, 2006). Einnig hefur t.d. verið sýnt fram á það í erlendum rannsóknum að ungir karlar sem hafa verið án vinnu í 6 mánuði eru sex sinnum líklegri en aðrir til að taka sitt eigið líf (Waddell & Aylward , 2005).

Það skiptir máli að huga að heilsu og velferð starfsmanna

Það er hagur samfélagsins að stemma stigum við stöðugt vaxandi heilbrigðiskostnað.  Litið er í ríkara mæli til vinnustaðarins og mögulegt hlutverk hans í því að leysa þetta vandamál.  Það er eðlilegt að líta á vinnustaðin sem álitlegan stað til að takast á við sjúkdómsvarnir og seta af stað velferðarprógrömm til að bæta heilsu þar sem flest vinnandi fólk eyðir meiripartinum af deginum í vinnunni.  Í nýlegri samantekt, sem birtist í blaðinu Mayo Clinic Proceedings, þar sem áhrif heilsu- og velferðarprógramma á vinnustaði eru skoðuð, kemur í ljós að þau eru víðtæk.  Rannsóknir hafa sýnt fram á að fjárfestingar fyrirtækja í heilsu- og velferðarprógrömmum eru arðbærar.  Rannsóknir hafa einnig sýnt að draga má úr veikindafjarveru (bæði almennri veikindafjarveru og einnig veru starfsmanna í vinnunni þegar þeir eru veikir (presenteeism))  hjá þeim fyrirtækjum sem leggja áherslu á slík prógrömm.  Sýnt hefur verið fram á að fyrirtæki sem fjárfesta í slíkum prógrömmum ná fram lækkun á heilbrigðiskostnaði og kostnaði vegna hinna ýmsu bóta (þar með talið örorkubóta) sem launafólk fær sem nemur yfir 25% í samanburði við fyrirtæki sem ekki gera sambærilegar fjárfestingar.  Niðurstöður rannsókna benda einnig til að heilsu- og velferðarprógrömm bæti starfsánægju og starfsanda á vinnustöðum en það getur skipt máli þegar verið er að reyna að ráða nýja starfsmenn, halda í góða starfsmenn og einnig fyrir almenna ímynd fyrirtækisins. 

Hafa samband