Fara í efni

Fréttir

Tilvísunarblað til VIRK nú aðgengilegt í Sögu á landsvísu

Á síðasta ári var útbúið hjá VIRK tilvísunarblaðið „Beiðni læknis um þjónustu hjá VIRK“. Það hefur verið aðgengilegt á heimasíðu VIRK og verður það áfram. Hægt er að nálgast eyðublaðið hér.  Nú er eyðublaðið einnig aðgengilegt í Sögu, rafrænni sjúkraskrá, sem notuð er fyrir rafræna skráningu og úrvinnslu heilbrigðisgagna á öllum helstu heilbrigðisstofnunum landsins.  Eyðublaðið heitir „Beiðni um þjónustu hjá VIRK“ í Sögu og kom inn í útgáfu 35. Kerfisstjórar stofnana þurfa að virkja eyðublaðið til að það verði aðgengilegt.

Ársrit um starfsendurhæfingu

VIRK hefur gefið út Ársrit um starfsendurhæfingu 2013.  Í ritinu eru ýmsar áhugaverðar upplýsingar um starfsemi VIRK, viðtöl við ýmsa samstarfsaðila VIRK auk þess sem margir sérfræðingar og fræðimenn á sviði starfsendurhæfingar skrifa mjög áhugaverðar greinar í ársritið.  Hægt er að nálgast rafræna útgáfu af tímaritinu hér (sjá einnig undir "KYNNINGAREFNI" hér til vinstri á heimasíðunni) og einnig er hægt að nálgast eintak af tímaritinu á skrifstofu VIRK eða hjá ráðgjöfum VIRK um allt land.

Tveir nýir ráðgjafar hófu störf í byrjun apríl

Hildur Gestsdóttir hóf störf hjá stéttarfélögunum á Suðurlandi og er með aðsetur á Selfossi. Hún lauk námi í félagsráðgjöf frá Den Sociale Höjskole í Kaupmannahöfn árið 2007. Eftir útskrift vann hún í eitt ár sem félagsráðgjafi í vinnumiðstöð (jobcenter) í Danmörku. Árið 2008 flutti hún til Íslands og vann í eitt ár sem félagsráðgjafi í Vesturgarði, Þjónustumiðstöð Vesturbæjar. Frá 2009 - 2012 starfaði hún sem félagsráðgjafi hjá sveitarfélaginu Árborg. Brynhildur Barðadóttir er nýr ráðgjafi hjá stéttarfélaginu Hlíf í Hafnarfirði, en hún er fyrsti ráðgjafinn sem er ráðinn beint til starfa hjá Hlíf og er hún með aðsetur þar. Hingað til hafa ráðgjafar Eflingar í Reykjavík sinnt félagsmönnum Hlífar. Brynhildur útskrifaðist með BA gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 1993 og MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu árið 2007. Hún er einnig menntaður lyfjatæknir. Brynhildur hefur víðtæka starfsreynslu á sviði velferðarþjónustu hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem hún gegndi starfi félagsmálastjóra á Ísafirði um tveggja ára skeið. Hún starfaði í fimm ár hjá Rauða krossi Íslands við þróun úrræða og stofnun á t.d. Konukoti, fyrir heimilislausar konur, Hjálparsíma 1717 og sem forstöðumaður Rauðakrosshússins. Hjá Hafnarfjarðarðarbæ starfaði hún um tíma sem sérfræðingur á sviði uppbyggingar úrræða fyrir atvinnuleitendur.

Um 300 manns á ársfundi og ráðstefnu VIRK

Um 300 manns mættu á ársfund og ráðstefnu VIRK þann 11. apríl sl.  Ársfundurinn var fyrir hádegið og fjölmenn og vel heppnuð ráðstefna undir yfirskriftinni "Mat á getu til starfa - hvað skiptir máli?" var haldin eftir hádegið.  Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Sir Mansel Aylward frá Bretlandi og var fyrirlestur hans sérstaklega áhugaverður og vakti mikla athygli fundargesta.  Aðrir fyrirlesrar á ráðstefnunni voru Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, Guðmundur Björnsson endurhæfingar- og trúnaðarlæknir, Haraldur Jóhannsson yfirlæknir hjá TR og Ása Dóra Konráðsdóttir sviðsstjóri Starfsendurhæfingarsviðs VIRK.  Allar glærur fyrirlesara er að finna hér á heimsíðunni undir Kynningarefni - sjá einnig hér.  Á sama stað er hægt að nálgast Ársrit VIRK á rafrænu formi. Myndir frá ársfundi og ráðstefnunni er að finna hér

Ráðstefna á vegum VIRK: Að meta getu til starfa - Hvað skiptir máli?

Við viljum minna á fagráðstefnu á vegum VIRK sem haldin verður fimmtudaginn 11.apríl kl.13:00 - 16:30 á Grand Hótel Reykjavík (Gullteig). Aðal fyrirlesari er Mansel Aylward frá Centre for Psychosocial and Disability Research í Bretlandi og fjallar fyrirlestur hans um hugmyndir og breytingar í þróun á starfsgetumati. Aðrir fyrirlesarar eru Ása Dóra Konráðsdóttir, sviðsstjóri starfsendurhæfingar VIRK, Guðmundur Björnsson, endurhæfingar- og trúnaðarlæknir, Haraldur Jóhannsson, yfirlæknir læknisfræðilegrar ráðgjafar hjá TR og Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK. Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar er að finna hér Nauðsynlegt er að skrá þátttöku á ráðstefnuna hér

Ársfundur VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs 2013

Nú fer senn að líða að ársfundi VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs sem verður haldinn þann 11. apríl á Grand hótel. Dagskráin er tvískipt. Fyrir hádegi fara fram hefðbundin ársfundarstörf krydduð með fyrirlestrum um starfsendurhæfingu. Eftir hádegi sláum við síðan upp fagráðstefnu með þemanu „Að meta getu til starfa – Hvað skiptir máli?“ Ársfundurinn er öllum opinn en einnig er hægt að taka einungis þátt í fagráðstefnunni eftir hádegi, frá kl. 13:00 – 16:20. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku á fagráðstefnu hér

Nýr sérfræðingur hjá VIRK

Jónína Waagfjörð hefur verið ráðin sem verkefnastjóri hjá VIRK fyrir þróunarverkefnið Virkur vinnustaður. Hún er sjúkraþjálfari frá Háskóla Íslands og hefur starfað sem slíkur í yfir 20 ár. Árið 1989 útskrifaðist hún með MSc gráðu innan taugasjúkdóma og hreyfistjórnunar frá Boston University í Bandaríkjunum. Eftir útskrift starfaði hún í Bandaríkjunum við sjúkraþjálfun þar sem hún kenndi sjúkraþjálfun við University of South Alabama og vann einnig við meðhöndlun sjúklinga. Síðustu 3 árin starfaði hún sem yfirmaður endurhæfingarstöðvar í úthverfi Detroit í Michigan fylki. Eftir heimkomu tók Jónína við lektorsstöðu við læknadeild Háskóla Íslands innan sjúkraþjálfunar og rannsóknastöðu við Landspítala Háskólasjúkrahús og starfaði við það í 4 ár þar til hún flutti til Bretlands. 

Nýir ráðgjafar á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum

Tveir nýir ráðgjafar í starfsendurhæfingu hafa verið ráðnir til starfa hjá stéttarfélögum í samstarfi við VIRK. Erla Jónsdóttir er nýr ráðgjafi sem ráðinn hefur verið til starfa hjá stéttarfélögunum á Austfjörðum. Erla útskrifaðist frá Þroskaþjálfaskóla Íslands árið 1986 og vann um árabil sem þroskaþjálfi á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi, auk þess að reka eigið fyrirtæki um 5 ára skeið. Á árunum 2007 - 2012 starfaði hún sem framkvæmdastjóri og ráðgjafi starfsendurhæfingar Austurlands. Erla er með starfsstöð hjá stéttarfélögunum á Austurlandi, á Reyðarfirði og á Egilsstöðum. Georg Ögmundsson hefur verið ráðinn sem ráðgjafi hjá stéttarfélögunum í Vestmannaeyjum. Georg útskrifaðist sem sjúkraþjálfari frá Háskóla Íslands árið 2002 og lauk diplómanámi í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011. Hann starfaði sjálfstætt sem sjúkraþjálfari um fimm ára skeið en hefur frá árinu 2007 unnið hjá Fjarðaráli við umhverfis-, heilsu- og öryggismál. Georg er með aðsetur hjá VR í Vestmannaeyjum.

Forseti tryggingalækna í Evrópu í heimsókn

Sören Brage forseti samtaka tryggingalækna í Evrópu (EUMASS) og læknir hjá NAV í Noregi hélt erindi á Læknadögum 2013. Þar greindi hann frá mati á starfsgetu og alþjóðlegum áherslum í því samhengi. Seinna þann sama dag hélt hann fyrirlestur á vegum VIRK sem trúnaðarlæknum lífeyrissjóða, læknum innan TR, endurhæfingarlæknum og sérfræðingum í sérhæfðum matsteymum VIRK var boðið að sækja. Í erindi sínu greindi Sören frá umsóknarferli örorku í stóru samhengi (Evrópu) og hlutverki lækna hjá NAV í Noregi og hvernig ákvörðunarferli um örorku er háttað þar í landi. Sören hefur mikla þekkingu á starfsendurhæfingarfræðum og góða yfirsýn yfir þær ólíku leiðir sem vestrænar þjóðir hafa farið í þessum efnum.

Nýr sérfræðingur hjá VIRK

Héðinn Jónsson hefur verið ráðinn í starf sérfræðings á starfsendurhæfingarsviði. Hann útskrifaðist með B.sc gráðu í sjúkraþjálfun frá HÍ 2002 og M.sc gráðu í heilsuhagfræði frá HÍ 2011. Héðinn hefur starfað sem sjúkraþjálfari og samhliða því unnið sem viðurkenndur þjónustuaðili á sviði vinnuverndar. Undanfarin ár hefur hann starfað sem sérfræðingur í sérhæfðum mötum fyrir VIRK. Héðinn hefur starfað við innleiðingu Hreyfiseðla - ávísun á hreyfingu undanfarin ár en það er tilraunaverkefni á vegum Velferðarráðuneytisins. Um seinustu áramót lauk fjögurra ára formennsku hans í Félagi íslenskra sjúkraþjálfara. Héðinn hóf störf 28. janúar síðastliðinn.

Hafa samband