Fara í efni

Fréttir

Hvers vegna fjarverustefna og fjarverusamtal?

Einn hluti af fjarverustefnu er að hafa fjarverusamtal, sem oft er nefnt „erfiða samtalið“ í nágrannalöndum okkar. Það er vegna þess að fyrir örfáum árum var veikindafjarvera ekki algengt umræðuefni milli stjórnenda og starfsfólks. Stjórnendur áttu erfitt með að taka á svo viðkvæmum málum og starfsfólki fannst að veikindi sín kæmu vinnustaðnum ekki við.  Það er rétt að sjúkdómar eru einkamál starfsmannsins en fjarveran hefur áhrif á vinnustaðinn og hana þarf að ræða.

Norræn ráðstefna í starfsendurhæfingu

Dagana 12.-14. september 2012 verður haldin norræn ráðstefna í starfsendurhæfingu í Grenå í Danmörku. Tilgangur þessarar ráðstefnu er að kynna nýjar rannsóknir á þessu sviði og tengsl við klíníska vinnu. Tveir starfsmenn VIRK munu halda erindi á þessari ráðstefnu. Sjá nánari dagskrá hér

VIRK leitar að öflugum sérfræðingi á sviði starfsendurhæfingar

VIRK - Starfsendurhæfingarsjóður leitar að öflugum og metnaðarfullum sérfræðingi til að stafa að fjölbreyttum verkefnum á sviði starfsendurhæfingar.  Hér gefst einstakt tækifæri til að vinna að uppbyggingu, þróun og  þjónustu á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á vinnumarkaði. Um er að ræða mjög krefjandi starf.  Starfið var auglýst í Fréttablaðinu um síðustu helgi.

Samvinna ráðgjafa VIRK og atvinnurekenda í Þingeyjarsýslum

Nýlega var í N4 - Sjónvarpi Norðurlands tekið viðtal við Ágúst Sigurð Óskarsson ráðgjafa VIRK í Þingeyjarsýslum.  Í viðtalinu ræðir hann um þjónustuna sem er í boði, starf ráðgjafa og einstaklega góða samvinnu við atvinnurekendur á svæðinu.  Atvinnurekendur í Þingeyjarsýslum hafa verið mjög sveigjanlegir og tilbúnir til að gefa einstaklingum með skerta starfsgetu tækifæri til endurkomu á vinnumarkað.  Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér.

Nýr ráðgjafi á Akranesi

Nýr ráðgjafi í starfsendurhæfingu hefur tekið til starfa, í afleysingu til eins árs, hjá stéttarfélögum á Akranesi í samstarfi við VIRK. Það er Kristín Björg Jónsdóttir sem starfar fyrir Verkalýðsfélag Akraness, VR og Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Kristín Björg er með B.s gráðu í sálfræði og útskrifaðist með meistaragráðu í vinnusálfræði frá Háskóla Íslands vorið 2012.

Lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða

Í síðustu viku varð frumvarp um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða að lögum á Alþingi.  Í þessum lögum er gert ráð fyrir því að atvinnutengd starfsendurhæfing verði einn þáttur í heildstæðu kerfi endurhæfingar þar sem starfsendurhæfingarsjóðir og stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga starfi saman eins og kostur er. Allir hlutaðeigandi leitist jafnframt við að skilgreina og sinna hlutverkum sínum með þeim hætti að sem flestir eigi þess kost að vera virkir á vinnumarkaði.

Í veikindafjarvist er sambandið við vinnustaðinn mikilvægt

Í ársriti VIRK 2012 er viðtal við Sigrúnu Sigurðardóttur ráðgjafa.sem starfar  fyrir Rafiðnaðarsambandið, VM, félag vélstjóra og málmtæknimanna, Félag hársnyrtisveina, Matvís og Félag mjólkurfræðinga. Á þeim tæpu þremur árum sem hún hefur  verið í ráðgjafastarfinu hafa margir leitað til hennar og stór hópur hefur náð árangri og snúið aftur til starfa, hvort sem um er að ræða fyrra starf eða nýjan starfsvettvang.

Fjarvera frá vinnu - viðmið

Fjarvera starfsmanna frá vinnu er talin hafa töluverð tengsl við starfsánægju og hollustu starfsmanna. Óánægja í starfi hefur sterk tengsl við óstundvísi, fjarvistir, sálfræðilegan og líkamlegan heilsuvanda starfsmanna. Þættir eins og kulnun í starfi, vaktaálag, árekstrar milli einkalífs og vinnu og áhugamál starfsmanna utan vinnu hafa einnig verið tengdir við fjarvistir. Óhjákvæmilega hafa ýmsir þættir í umhverfinu áhrif, eins og t.d flensur, en vinnumenning vinnustaðarins hefur einnig áhrif. Bent hefur verið á að fólk hefur tilhneigingu til þess að vanmeta sínar eigin fjarvistir en ofmeta fjarvistir annarra. Stjórnendur og starfsmenn hafa þar af leiðandi oft mismunandi tilfinningu fyrir tíðni fjarvista. Auk þess leggja þessir hópar oft mismunandi skilning í það hvað teljist vera eðlilegar fjarvistir. Til að skoða þetta nánar fól VIRK ráðgjafafyrirtækinu Attentus – mannauður og ráðgjöf að afla gagna um skilgreiningar og viðmið fjarveru frá vinnu á Íslandi og skoða þau í alþjóðlegum samanburð.  Sjá nánar skýrslu  Attentus um Fjarvistastjórnun.

Árangur í starfsemi VIRK

Þjónusta VIRK er ætluð einstaklingum með skerta starfsgetu vegna heilsubrests sem stefna markvisst aftur að þátttöku á vinnumarkaði. Auk þess þurfa þeir að hafa bæði vilja og getu til að taka virkan þátt í eigin starfsendurhæfingu. Tveir af mörgum árangursmælikvöðrum okkar í starfseminni er hversu fljótt við náum til einstaklinga sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda og hve vel okkur tekst að styðja fólk aftur í launað starf á vinnumarkaði. Til þess að ná góðum árangri er mikilvægt að ná til einstaklinga áður en þeir fjarlægjast vinnumarkaðinn til lengri tíma. 

Samstarf við lækna

VIRK Starfsendurhæfingarsjóður leggur áherslu á gott samstarf við lækna og annað fagfólk sem sinnir heilbrigðisþjónustu og endurhæfingu.  Markvisst hefur verið unnið að því að þróa skilvirk samskipti og samvinnu við heimilislækna vegna sameiginlegra skjólstæðinga. Nú þegar er VIRK í skipulögðu samstarfi við þrjár heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og á nokkrum stöðum á  landsbyggðinni er einnig kominn vísir að svipuðu samstarfi. Samstarfið felst í mánaðarlegum fundum þar sem m.a. er farið yfir flókin einstaklingsmál og tilvísunum komið á framfæri. Með markvissu samstarfi aukast líkur á að leið einstaklings í gegnum kerfið sé heildstætt ferli og starfsendurhæfing skili árangri.

Hafa samband