Fara í efni

Fréttir

Góð reynsla stjórnanda af starfsþjálfun

Reynsla Önnu Lindu Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns á lögmannsstofunni Lexistu ehf. af því að taka starfsmann í starfsþjálfun er það góð að hún hefur hug á því að taka fleiri í þjálfun í framtíðinni. „Ég tel að samfélagið eigi að bjóða upp á vinnu og störf fyrir alla þá sem vilja og geta unnið úti,“ segir hún í samtali við blaðamann VIRK. Anna Linda segist smám saman hafa áttað sig á því hvar styrkleikar starfsmannsins lágu. „Margrét er einstaklega töluglögg manneskja og eldsnögg að reikna út. Ég fór að einbeita mér að því að finna verkefni sem tengdust því. Ég bað hana að setja upp fyrir mig skjöl í Excel, svo sem drög að úthlutun fyrir dánarbú, og fleira. Þetta gerði hún mjög vel. Í öðru máli fékk hún það verkefni að gera greiningu á gengisþróun japanska yensins, hún var frekar kvíðin fyrir því, en ég sagði að hún gæti þetta alveg úr því hún hafði leyst hin verkefnin. Auðvitað fékk hún leiðbeiningar og ég fylgdist vel með framvindu verksins. Hún gerði þetta mjög vel, setti upp alls kyns töflur á svo flottan hátt að ég hefði sjálf aldrei getað gert betur.“ Sjá viðtalið Lengi skal manninn reyna við Önnu Lindu Bjarnadóttur og Margréti Guðfinnsdóttur.

Jákvæðar breytingar eftir sjö mánuði

Jákvæð breyting hefur orðið á viðhorfi starfsfólks til veikindafjarveru, það er umburðarlyndara, samkenndin er meiri og augu starfsfólks hafa opnast fyrir lausnarmiðuðu starfi. Þetta er hluti af mati stjórnenda þeirra 26 vinnustaða sem eru þátttakendur í þróunarverkefninu Virkum vinnustað eftir sjö mánaða þátttöku. Síðastliðið vor skiluðu allir vinnustaðirnir framvinduskýrslu sem helstu niðurstöður hafa verið unnar upp úr. Í ljós kom einnig að fræðslufyrirlestrar á vegum VIRK, verkefnavinna starfsfólks um hvað er jákvætt og hvað mætti betur fara, auk opinna umræðna í kjölfarið, virðast hafa skilað mestum árangri um breytt viðhorf. 

Starfsgetumat VIRK kynnt á alþjóðlegri ráðstefnu tryggingalækna í Evrópu

Samtök tryggingalækna í Evrópu (EUMASS) héldu fjölmenna ráðstefnu í bænum Padova á Ítalíu í júní. Þar var fjölbreytt og áhugaverð dagskrá þar sem meðal annars var lögð áhersla á áskoranir sem vinnumarkaður í Evrópu stendur frammi fyrir, starfsendurhæfingu, mat á starfsgetu og notkun ICF kerfisins í því samhengi.  Starfsgetumat VIRK sem hefur verið í hraðri þróun síðustu ár byggir að miklu leyti á ICF kerfinu. Sviðsstjóri  Starfsendurhæfingarsviðs var beðin um að kynna matið á þessari ráðstefnu og vakti kynningin mikla athygli meðal viðstaddra. 

Vildi halda áfram í vinnu

Einn góðan veðurdag gekk blaðamaður VIRK á fund Málfríðar F. Arnórsdóttur sem starfar hjá Tollstjóra við Tryggvagötu. Hún hefur sögu að segja um veikindi sem næstum urðu til þess að hún yrði óvinnufær til langframa. Með viljastyrk  og traustri aðstoð VIRK tókst henni að snúa málum þannig að hún er nú í fullu starfi og við allgóða heilsu.

Hvað er starfsendurhæfing?

Starfsendurhæfing hefur verið skilgreind sem allt það sem hjálpar einstaklingi með heilsubrest að vera í vinnu, komast aftur til vinnu og haldast í vinnu.

Gleði á vinnustað og tíu gleðiráð

Rannsóknir hafa sýnt að hagnaður fyrirtækja, þar sem vinnugleði er ríkjandi, er nær tvöfalt meiri en samanburðarfyrirtækjanna og að vinnugleði getur dregið úr fjarveru starfsfólks sem og minnkað starfsmannaveltu. Stjórnendur bera ábyrgð á því að skapa umhverfi sem ýtir undir starfsánægju. Hins vegar ber hver starfsmaður ábyrgð á eigin starfsánægju og gleði í vinnu en hvorki vinnufélagarnir, yfirmenn né samfélagslegir þættir. Rannsóknir hafa einnig sýnt að skort á starfsánægju má oft rekja til tímapressu, umkvartana, skorts á hrósi og viðurkenningu. Gleði og starfsánægja á vinnustöðum er því samspil stjórnunar, menningar, samstarfsfólks og síðast en ekki síst að hver starfsmaður velji sér það viðhorf að vera ánægður í starfi. Sjá Tíu gleðiráð. Í verkefninu Virkur vinnustaður hafa nokkrir vinnustaðanna gripið til ýmissa ráða til að gera andrúmsloftið á vinnustaðnum glaðlegra. Dæmi um slíkt er að hafa sameiginlegt morgunkaffi fyrir vinnu einu sinni í viku, hrósa oftar fyrir vel unnin störf, starfsmenn segja frá einhverju jákvæðu í upphafi hvers starfsmannafundar, óvænt ferð í bakaríið að sækja kaffibrauð öðru hvoru og sameiginlegur kaffitími með öllum deildum einu sinni í mánuði, svo dæmi séu nefnd.

Fjölgun starfsfólks leiddi til minni útgjalda

Á niðurskurðartímum er starfsfólki oft fækkað þannig að aukið álag verður á þá sem eftir eru. Ef álagið verður of mikið í langan tíma eru líkur á auknum veikindum starfsfólks og jafnvel að komi til langtímafjarveru. Á vinnustöðum eins og öldrunarheimilum, sjúkrahúsum, leikskólum og víðar þar sem vistmenn, sjúklingar og börn þarfnast ákveðinnar grunnþjónustu er fólk oft kallað á aukavakt sem eykur launakostnað.

Hvers vegna fjarverustefna og fjarverusamtal?

Einn hluti af fjarverustefnu er að hafa fjarverusamtal, sem oft er nefnt „erfiða samtalið“ í nágrannalöndum okkar. Það er vegna þess að fyrir örfáum árum var veikindafjarvera ekki algengt umræðuefni milli stjórnenda og starfsfólks. Stjórnendur áttu erfitt með að taka á svo viðkvæmum málum og starfsfólki fannst að veikindi sín kæmu vinnustaðnum ekki við.  Það er rétt að sjúkdómar eru einkamál starfsmannsins en fjarveran hefur áhrif á vinnustaðinn og hana þarf að ræða.

Norræn ráðstefna í starfsendurhæfingu

Dagana 12.-14. september 2012 verður haldin norræn ráðstefna í starfsendurhæfingu í Grenå í Danmörku. Tilgangur þessarar ráðstefnu er að kynna nýjar rannsóknir á þessu sviði og tengsl við klíníska vinnu. Tveir starfsmenn VIRK munu halda erindi á þessari ráðstefnu. Sjá nánari dagskrá hér

VIRK leitar að öflugum sérfræðingi á sviði starfsendurhæfingar

VIRK - Starfsendurhæfingarsjóður leitar að öflugum og metnaðarfullum sérfræðingi til að stafa að fjölbreyttum verkefnum á sviði starfsendurhæfingar.  Hér gefst einstakt tækifæri til að vinna að uppbyggingu, þróun og  þjónustu á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar á vinnumarkaði. Um er að ræða mjög krefjandi starf.  Starfið var auglýst í Fréttablaðinu um síðustu helgi.

Hafa samband