Fara í efni

Jákvæðar breytingar eftir sjö mánuði

Til baka

Jákvæðar breytingar eftir sjö mánuði

Jákvæð breyting hefur orðið á viðhorfi starfsfólks til veikindafjarveru, það er umburðarlyndara, samkenndin er meiri og augu starfsfólks hafa opnast fyrir lausnarmiðuðu starfi. Þetta er hluti af mati stjórnenda þeirra 26 vinnustaða sem eru þátttakendur í þróunarverkefninu Virkum vinnustað eftir sjö mánaða þátttöku. Síðastliðið vor skiluðu allir vinnustaðirnir framvinduskýrslu sem helstu niðurstöður hafa verið unnar upp úr. Í ljós kom einnig að fræðslufyrirlestrar á vegum VIRK, verkefnavinna starfsfólks um hvað er jákvætt og hvað mætti betur fara, auk opinna umræðna í kjölfarið, virðast hafa skilað mestum árangri um breytt viðhorf. 

Mat á árangri þátttökufyrirtækjanna og verkefninu í heild fer fram með ýmsum hætti, meðal annars með framvinduskýrslum sem vinnustaðirnir skila reglulega til VIRK á tímabilinu. Í niðurstöðunum kemur fram að stjórnendur og starfsfólk er orðið meðvitaðra um hvað skapar gott vinnuumhverfi. Á 92% vinnustaðanna hafa verið gerð drög að fjarverustefnu, eða hún fullmótuð, og sett viðmið um tilkynningu fjarveru og hvenær boða eigi starfsfólk í fjarverusamtal. Á helmingi vinnustaðanna hefur verið unnið markvisst að forvörnum í kjölfar fræðslufyrirlestra og segja má að á flestum ef ekki öllum vinnustöðum hafi verið lögð áhersla á að gera ferla og ýmsa þætti skýrari, skilmerkilegri og sýnilegri fyrir starfsfólki en var áður.

Verkefnið Virkur vinnustaður hófst formlega í október 2011 og stendur til ársins 2014. Megintilgangur þess er að í lok tímabilsins hafi verið mótuð stefna um forvarnir, fjarveru og endurkomu til vinnu eftir langtímaveikindi innan þátttökufyrir­tækjanna. Að unnið sé eftir stefnunni þannig að brugðist sé við veikindum á vinnustöðum með fyrirsjáanlegum hætti. Einnig að þekking stjórnenda og starfsmanna hafi aukist um þá þætti í vinnuumhverfi sem stuðla að velferð og draga úr fjarveru.

Enn sem komið er hafa stjórnendur fárra vinnustaða notað fjarverutölur sem stjórntæki, nema í því skyni að boða til fjarverusamtals. Erfitt er að meta heildarárangur um aukna vellíðan en ljóst er að hjá stórum hluta þátttakenda hefur umræða opnast, ekki einungis um fjarveru og veikindi, heldur um ýmislegt er lýtur að vinnuumhverfi, vinnuskipulagi og starfsánægju. Þegar tekið er á vandamálum líður fólki almennt betur. Einnig má segja að allt sem gert er í forvarnarskyni sé leið til að skapa vellíðan. Aðeins einn vinnustaður sýndi fram á mælanlegan árangur og tengdist hann fjarverutölum.


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband