Veikindafjarvera Dana í einkageiranum 7,3 dagar
Veikindafjarvera Dana í einkageiranum 7,3 dagar
Þriðja árið í röð fækkar veikindadögum á dönskum vinnustöðum og voru þeir að meðaltali 7,3 dagar árið
2011 í einkageiranum hjá fólki í fullu starfi eða 3,3%. Árið 2008 voru fjarverudagarnir að meðaltali 8,7. Einnig hefur dregið
úr fjarveru hjá hinu opinbera en töluvert minna.
Fyrirtækjaráðgjafi hjá CABI (Center for Aktiv BeskæftigelsesIndsats) segir að þennan árangur megi þakka því mikla átaki sem hafi átt sér stað á dönskum vinnumarkaði þar sem unnið er markvisst með fyrirtækjum til að ná þessu markmiði. „Það er kominn skilningur á því að veikindafjarvera stafar ekki einungis af bakteríum eða vírusum og að allir bera ábyrgð á vinnustaðnum og geta lagt sitt af mörkum,“ segir Camilla Høholt Smith í viðtali í septemberhefti Agenda. Hún bendir á að séu vandamál á vinnustaðnum sé mikilvægt að ræða þau í hreinskilni því þau geti verið ástæða fjarverunnar. Þetta krefjist ákveðinna hæfileika hjá stjórnendum. Prófessor við Árósaháskóla segir að á þeim vinnustöðum þar sem tilkynna á veikindi beint til yfirmanns séu fjarvistir marktækt færri en þar sem einungis þarf að tilkynna veikindi til móttökunnar.
Í þróunarverkefninu Virkum vinnustað sem er á fyrirtækjasviði VIRK hefur verið leitað nokkuð í
smiðju Dana með fyrirmyndir um hvernig hægt er að draga úr veikindafjarveru. Í verkefninu er meðal annars lögð áhersla á að
þátttökufyrirtækin setji sér og vinni eftir stefnu um velferð, fjarveru og endurkomu til vinnu með það
að markmiði að draga úr veikindafjarveru.
Þegar stefnan er unnin í samvinnu við starfsfólkið verður til umræða um veikindi og hvað eykur vellíðan á vinnustað. Niðurstöður úr fyrstu framvinduskýrslum úr verkefninu sýna að þessi umræða hefur skilað jákvæðum árangri, meðal annars þeim að umburðarlyndi og samkennd hafa aukist og augu starfsfólks hafa opnast fyrir lausnamiðuðu starfi. Á helmingi vinnustaðanna hefur verið unnið markvisst að forvörnum í kjölfar fræðslufyrirlestra og segja má að á flestum ef ekki öllum vinnustöðum hafi verið lögð áhersla á að gera ferli og ýmsa þætti skýrari, skilmerkilegri og sýnilegri fyrir starfsfólk en var áður. Þá kemur einnig fram að stjórnendur og starfsfólk er orðið meðvitaðra um hvað skapar gott vinnuumhverfi.
Verkefninu lýkur árið 2014 og þá kemur í ljós hvort fjarvistardögum hafi fækkað í þeim fyrirtækjum sem taka þátt í verkefninu.