05.01.2011
Starfsendurhæfing og aðilar vinnumarkaðarins
Starfsendurhæfing er mikilvæg þjónusta sem byggir upp einstaklinga og skilar miklum verðmætum til samfélagsins í formi verðmætaaukningar,
sparnaðar og aukinna lífsgæða. Starfsendurhæfing er þannig í raun og veru mikilvæg fjárfesting sem skilar miklum arði til
framtíðar.
Aðilar vinnumarkaðar hér á landi stofnuðu Starfsendurhæfingarsjóð (VIRK) á grundvelli kjarasamninga á árinu 2008. Fyrstu
ráðgjafar sjóðsins komu til starfa um haust 2009 og núna í janúar 2011 hafa um 1550 einstaklingar fengið þjónustu á vegum
VIRK. Mörg dæmi eru um góðan árangur af starfinu þar sem einstaklingar hafa náð aukinni starfsgetu og meiri lífsgæðum fyrir
tilstilli þjónustu ráðgjafa og fjölbreyttra úrræða sem fjármögnuð eru af VIRK. Meirihluti þeirra einstaklinga sem hafa
lokið þjónustu hjá VIRK fara aftur út í atvinnulífið og hafa fulla vinnugetu.