Fara í efni

Fjarvistastjórnun - stefnumótun og leiðbeiningar

Til baka

Fjarvistastjórnun - stefnumótun og leiðbeiningar

Veikindafjarvistir tengjast heilsu og líðan einstaklinga og þeim starfskröfum sem gerðar eru á mismunandi vinnustöðum og í mismunandi störfum.  Áhrif má hafa á tíðni og lengd fjarvista með góðu skipulagi á vinnustað, öruggu og heilsusamlegu vinnuumhverfi auk meðvitaðri stjórnun fjarvista og stuðningi við endurkomu til vinnu eftir veikindi og slys.   Algengt er að stefna og eða ferli í fjarvistastjórnun falli undir heilsustefnu, starfsmanna-  eða mannauðsstefnu fyrirtækja og stofnana.

Fjarvistastjórnun – og stuðningur við endurkomu til vinnu eftir veikindi og slys á að vera hluti af stefnu fyrirtækja og stofnana og hefur meðal annars þann tilgang að styrkja ráðningarsamband einstaklinga. Í fjarvistastjórnun eru notaðir skilgreindir vinnuferlar um tilkynningar, skráningu og viðbrögð við veikindafjarvistum, fræðslu og upplýsingagjöf  til starfsmanna og stjórnenda, umbætur á vinnuaðstöðu og endurkomu til vinnu eftir veikindi.  Mikilvægt er að í hverju fyrirtæki og stofnun sé ákveðinn aðili sem ber ábyrgð á að innleiða og fylgja eftir fjarvistastefnunni og greiningarvinnu varðandi fjarvistir.

Fylgjast þarf með veikindafjarvistum á kerfisbundinn hátt, vera reglulega í sambandi við veika starfsmenn og auðvelda þeim að koma aftur til starfa þegar heilsa þeirra leyfir. Mikilvægt er að ræða við starfsmenn sem eru oft eða lengi fjarverandi með það í huga að finna lausnir á vandamálum sem hugsanlega eru til staðar.  Hluti af þessu er að greina á milli tegunda fjarvista, finna orsakir og kanna hvort hægt sé að hafa áhrif á ástæður sem liggja að baki. Hlutverk stjórnandans er m.a. að sýna eðlilega umhyggju og aðstoða starfsmanninn við að finna lausnir.

Á heimasíðu VIRK er að finna ýmsan fróðleik og upplýsingar er varða fjarvistastjórnun, endurkomu til vinnu og stefnumótun vegna þess.  Á síðunni „Fræðsla fyrir stjórnendur“ er að finna fræðsluefni, leiðbeiningar og eyðublöð og má þar m.a. benda á leiðbeiningar um mótun fjarvistarstefnu:  Fjarvistarstefna – skref fyrir skref. Fræðsluefni fyrir stjórnendur og starfsfólk er einnig undir tenglinum Virkur vinnustaður á heimasíðu VIRK.

VIRK hefur mótað fjarvistarstefnu fyrir sína starfsmenn og er hana að finna á síðunni „Stefnur og áætlanir“ sjá einnig hér.


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband