Fara í efni

Starfsendurhæfing og aðilar vinnumarkaðarins

Til baka

Starfsendurhæfing og aðilar vinnumarkaðarins

Starfsendurhæfing er mikilvæg þjónusta sem byggir upp einstaklinga og skilar miklum verðmætum til samfélagsins í formi verðmætaaukningar, sparnaðar og aukinna lífsgæða.  Starfsendurhæfing er þannig í raun og veru mikilvæg fjárfesting sem skilar miklum arði til framtíðar. 

Aðilar vinnumarkaðar hér á landi stofnuðu Starfsendurhæfingarsjóð (VIRK)  á grundvelli kjarasamninga á árinu 2008.  Fyrstu ráðgjafar sjóðsins komu til starfa um haust 2009 og núna í janúar 2011 hafa um 1550 einstaklingar fengið þjónustu á vegum VIRK.  Mörg dæmi eru um góðan árangur af starfinu þar sem einstaklingar hafa náð aukinni starfsgetu og meiri  lífsgæðum fyrir tilstilli þjónustu ráðgjafa og fjölbreyttra úrræða sem fjármögnuð eru af VIRK.  Meirihluti þeirra einstaklinga sem hafa lokið þjónustu hjá VIRK fara aftur út í atvinnulífið og hafa fulla vinnugetu.

Það er mikilvægt að bjóða einstaklingum sem veikjast eða slasast upp á markvissa starfsendurhæfingarþjónustu og það þarf að gera á skipulagðan hátt.  Hér liggur ábyrgðin bæði í ytra umhverfi viðkomandi einstaklings og hjá honum sjálfum.  Það er því bæði nauðsynlegt og eðlilegt að þeir aðilar sem fjármagna framfærslu viðkomandi einstaklings beri ábyrgð á að beina honum í starfsendurhæfingu og gera þarf þá kröfu til einstaklingsins að hann nýti tímann sem best til að byggja aftur upp starfsgetu sína.  Um 80% af framfærslugreiðslum til einstaklinga sem glíma við heilsubrest hér á landi eru fjármagnaðar af aðilum vinnumarkaðar þ.e. atvinnurekendum, sjúkrasjóðum stéttarfélaga og lífeyrissjóðum.  Það er því nauðsynlegt að þjónusta á sviði starfsendurhæfingar sé skipulögð og veitt í samstarfi við þessa aðila.
 
Víða erlendis er boðið upp á starfsendurhæfingu  annað hvort af hálfu hins opinbera eða af tryggingarfélögum – allt eftir því hver ber ábyrgð á framfærslunni á meðan á veikindum stendur.  Á Norðurlöndunum kemur hið opinbera oft að með greiðslu framfærslu tiltölulega snemma (oft eftir 2-3 vikur) og opinberir aðilar bera þá einnig ábyrgð á allri þjónustu í starfsendurhæfingu.  Í Þýskalandi eru það tryggingarfélög sem greiða framfærslubætur í löngum veikindum og þau sjá þá einnig um að gera samninga við starfsendurhæfingaraðila um þjónustu fyrir sína viðskiptavini.  Þessi tryggingarfélög semja svo við ýmsa aðila um þjónustu í starfsendurhæfingu  og veita einnig stjórnendum hjá fyrirtækjum aðstoð til að koma í veg fyrir langar fjarvistir vegna veikinda og slysa.  

Hér á landi kemur hið opinbera yfirleitt ekki að framfærslugreiðslum í veikindum fyrr en viðkomandi einstaklingur er kominn á endurhæfingar- eða örorkulífeyri og það er oft ekki fyrr en 1-2 árum eftir að einstaklingurinn veikist eða slasast.  Opinberir framfærsluaðilar hafa því oft ekki nægilegar upplýsingar um það hverjir hafa  þörf fyrir þessa þjónustu og eiga því erfitt með að vera með snemmbært inngrip í starfsendurhæfingu á markvissan hátt.  Markvissa starfsendurhæfingu  er því í raun eingöngu unnt að veita í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins eins og gert er hér á landi hjá VIRK.  Í allri umræðu um tilvist og starfsemi Starfsendurhæfingarsjóðs (VIRK)  er mikilvægt að hafa þetta í huga.

Á þessu eina og hálfa ári sem ráðgjafar VIRK hafa veitt þjónustu í starfsendurhæfingu hefur komið í ljós hve mikil þörf er fyrir þessa þjónustu og ljóst er að hún er að skila miklum ávinningi og árangri bæði fyrir einstaklingana sem taka þátt og samfélagið í heild sinni.  Staðsetning ráðgjafa hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga um allt land er einn af grundvallarþáttum þessa árangurs, því þannig er tryggt gott aðgengi allra launamanna að þjónustunni. Þessir ráðgjafar eru oft í góðu sambandi við atvinnurekendur á hverjum stað fyrir sig auk þess sem þeir tryggja það að öllum sem fá greidda dagpeninga hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga er markvisst boðið upp á starfsendurhæfingu sem sniðin er að þörfum og getu hvers og eins einstaklings.


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband