Fara í efni

Í vinnu á ný vegna góðrar aðstoðar

Til baka

Í vinnu á ný vegna góðrar aðstoðar

,,Það slokknaði bara á öllu. Ég var eins og gangandi draugur. Aðstoðin frá Starfsendurhæfingarsjóði bjargaði mér alveg ,“ segir Sigurlaug Steinarsdóttir, ung fjögurra barna móðir, sem varð óvinnufær í kjölfar skilnaðar.

Sigurlaug, sem skildi við eiginmann sinn árið 2007, þjáðist bæði af þunglyndi og kvíðaröskun. ,,Ég hafði verið þunglynd fyrir skilnaðinn en eftir hann jókst þunglyndið smátt og smátt. Ég var í rauninni ekki  í sambandi. Ég átti erfitt með að fara í vinnuna mína á hjúkrunarheimilinu  sem ég starfaði á. Helst vildi ég vera ein í vinnunni en það var náttúrlega ekki hægt í því starfi sem ég sinnti. Mér fannst í rauninni óþægilegt að vera innan um aðra.“

Tæpu ári eftir skilnaðinn varð Sigurlaug alveg óvinnufær, að því er hún greinir frá. ,,Ég fékk endurhæfingarlífeyri sumarið 2008 þótt í raun hefði ég átt að byrja á því að fá sjúkradagpeninga. Svo kom að því að læknirinn minn sagði að ég gæti ekki haldið áfram að fá lífeyrinn nema ég ræddi við ráðgjafa hjá stéttarfélaginu mínu. Þá komst ég sem betur fer í samband við Ágústu Guðmarsdóttur, ráðgjafa í starfsendurhæfingu hjá stéttarfélögunum á Suðurlandi. Þetta var í fyrra og hún tók á vanda mínum með fastari tökum en gert hafði verið hjá félagslega kerfinu sem hafði  verið inni í mínum málum.“

Ýtt út í samfélagið

Að sögn Sigurlaugar hafði hún reyndar ekki alltaf mætt á þá fundi sem hún hafði verið boðuð á hjá félagsráðgjafa. ,,Og  þegar ég kom út af þeim fundum sem ég mætti á mundi ég oft og tíðum ekki eftir því  hvað hafði verið rætt um. Ég fékk hins vegar meiri stuðning hjá ráðgjafanum í starfsendurhæfingu. Ágústa  ýtti mér meira út í samfélagið, heldur en félagslega kerfið gerði. Hún þrýsti á mig að hringja í þennan og hinn vegna einhverra tiltekinna atriða.  Ég hefði virkilega strax þurft á svona stuðningi að halda.  Áður pantaði ég tíma en lét svo ekki sjá mig. Félagsþjónustan bauð mér sálfræðiþjónustu en ég var bara ekki að höndla það.  Mér fannst miklu auðveldara að fara í tímana hjá sálfræðingnum sem Starfsendurhæfingarsjóður bauð mér. Þá var miklu auðveldara að fara af því að ég hafði haft svo góða konu að tala við sem ýtti mér áfram og studdi mig. Viðtölin við sálfræðinginn hafa gert mér mjög gott. Hann sýnir mér bæði kosti mína og galla og það finnst mér uppbyggjandi.“

Með athyglisbrest og ofvirkni

Þótt Sigurlaug hafi ekki fyrr en nýlega verið greind með athyglisbrest og ofvirkni  kveðst hún hafa vitað um 10 ára skeið að hún væri haldin þessu. ,,Ég gerði mér grein fyrir því þegar dóttir mín var greind með ADHD, eins og þetta er kallað, þegar hún var fimm ára. Hegðun hennar var alveg eins og hegðun mín. Hugurinn fer um víðan völl og þessu fylgir þunglyndi. Ég er hins vegar gjörn á að gleyma að taka inn lyfin sem ég hef fengið við þunglyndinu. En nú er ég að fara að byrja í viðtölum hjá geðlækni  vegna athyglisbrestsins og ofvirkninnar. Í framhaldinu verður svo ákveðið hvaða aðstoð ég fæ vegna þess,“ segir hún.

Komin í fulla vinnu

Fyrir tilstilli Starfsendurhæfingarsjóðs hefur Sigurlaug einnig sótt námskeið sem heitir Skref til sjálfshjálpar. ,,Þetta var nokkurra mánaða námskeið og það hjálpaði mér rosalega mikið.“

Nú er hún komin í fulla vinnu hjá Sundhöll Reykjavíkur. ,,Ég sótti um starfið þegar það var auglýst og er búin að starfa við kvennaböðin í fjóra mánuði. Ég er ekki bara komin með vinnu, heldur er ég farin að hreyfa mig miklu meira en ég gerði. Ég syndi mikið og svo geng ég í vinnuna eða hjóla. Ráðgjafinn hrósar mér fyrir þetta og það hvetur mig til þess að halda áfram að hreyfa mig.“

Það er mat Sigurlaugar að aðstoðin frá ráðgjafanum og Starfsendurhæfingarsjóði hafi bjargað henni að flestöllu leyti, eins og hún orðar það. ,,Ég fékk leiðbeiningar varðandi ýmislegt sem vafðist fyrir mér og ég var hvött áfram til þess að fara í vinnu eða nám. Öll þessi aðstoð á þátt í því að mér líður miklu betur þótt ég sé ekki enn búin að ná mér að fullu. Betri líðan mín á einnig sinn þátt í því að ég er farin að fara á stefnumót með fyrrverandi eiginmanni mínum.Við höfum uppgötvað að grasið er ekki grænna hinum megin. Það tekur stundum tíma að átta sig á því.“

Lesið fleiri viðtöl við einstaklinga sem hafa náð árangri með aðstoð ráðgjafa stéttarfélagana og VIRK hér.  Sjá einnig Reynslusögur notenda hér til vinstri á síðunni.



Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband