29.06.2010
Meginhlutverk Starfsendurhæfingarsjóðs er að aðstoða einstaklinga með skerta starfsgetu til að auka hana og styrkja með það að markmiði
að viðkomandi geti verið virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Til að slíkt sé mögulegt þarf oft að eiga sér
stað samstarf margra ólíkra aðila s.s. einstaklings, ráðgjafa, sérfræðinga, heilbrigðisstarfsmanna og síðast en ekki síst
atvinnurekanda og stjórnenda á vinnustöðum.
Geta einstaklings til þátttöku á vinnumarkaði verður ekki aukin, vegin eða metin á réttmætan hátt nema í samstarfi við
atvinnulífið og þá aðila sem þar stjórna og starfa. Þ.e. vinnugeta einstaklings ræðst annars vegar af færni hans og hins vegar af
þeim kröfum sem gerðar eru á vinnumarkaði í mismunandi störfum og verkefnum. Starfsgeta einstaklings verður því ekki metin án
samstarfs við atvinnulífið og eins er það ljóst að einstaklingur með líkamlega eða andlega fötlun eða skerðingu getur búið
yfir fullri vinnugetu ef unnt er að finna honum verkefni við hæfi á vinnumarkaði.