Fara í efni

Niðurstöður rannsóknar um gagnsemi áætlunar um endurkomu til vinnu

Til baka

Niðurstöður rannsóknar um gagnsemi áætlunar um endurkomu til vinnu

Í rannsókn sem Stenstra og félagar gerðu var leitað svara við spurningu um hvaða leiðir skila hvaða hópum bestum árangri við endurkomu til vinnu eftir fjarveru vegna verkja í baki.  Það kom meðal annars  í ljós að vinnustaðir, sem greina og leysa hindranir vegna endurkomu til vinnu í veikindum/eftir veikindi, í samstarfi við starfsmenn sína, ná betri árangri við að aðstoða fólk

með bakverki við að koma fyrr til vinnu aftur. Þessi aðferð er einkum árangursrík hjá fólki sem er eldra en 44 ára og meðal þeirra sem hafa verið í veikindafjarveru áður.
Einstaklingar  eldri en 44 ára, sem hafa átt við veikindi að stríða vegna bakverkja,  virðast hafa mikið  gagn af vinnutengdri áætlun um endurkomu til vinnu.                                       

Ástæða  rannsóknar
Sami rannsóknarhópur hafði fundið að vinnutengd áætlun um endurkomu til vinnu stuðlaði að því að einstaklingar með verki í mjóbaki komu fyrr aftur til vinnu en sambærilegir einstaklingar sem fengu venjulega meðferð. Í þessari rannsókn vildu rannsakendur finna hvort þessi aðferð hentaði betur einum hópi en öðrum.
Hvernig var rannsóknin unnin?
Í upphaflegri rannsókn tóku þátt 196 starfsmenn sem höfðu verið frá vinnu í tvær til sex vikur vegna vandamála í mjóbaki. Starsfólkinu var skipt í tvo hópa með slembiaðferð. Annar hópurinn fór í gegn um skipulagt ferli á vinnustað um endurkomu til vinnu og hinn hópurinn fékk venjulega meðferð. Þeir sem voru í vinnutengdri starfsendurhæfingu  unnu með yfirmönnum sínum og sérfræðingi í starfsmannaheilsuvernd eða vinnuvistfræðingi við að greina og leysa hindranir gegn endurkomu til vinnu. Þeir sem fengu venjulega meðferð fengu meðferð hjá lækni. Rannsakendur báru saman fjölda daga í veikindafjarvist hjá báðum hópum. Aðeins þeir sem komu aftur í sömu eða svipaðra vinnu með sömu laun í fjórar vikur eða lengur voru með í lokaúrvinnslu gagna. Rannsakendur báru saman fjölda daga í veikindafjarvist hjá báðum hópum að teknu tilliti til þátta sem vitað er að hafa áhrif á lengd fjarvistar en þeir eru m.a.; aldur, kyn, verkjastyrkur, geta til virkni vegna verkjanna, líkamlegt álag í vinnu og að hafa verið í veikindafjarvist árið áður.
Niðurstaða rannsóknarinnar
Almennt séð komu þeir sem tóku þátt í vinnutengdri endurkomuáætlun fyrr aftur til vinnu en þeir sem fengu venjulega meðferð. Þeir komu að meðaltali 30 dögum fyrr til vinnu. Í nánari greiningu gagna kom í ljós að vinnutengd endurkomuáætlun átti einkar vel við fyrir eldri starfsmenn og þá sem höfðu verið frá vinnu vegna veikinda árið áður. Starfsmenn eldri en 44 ára komu 2,5 sinnum fyrr aftur til vinnu en starfsmenn í sama aldursflokki sem fengu venjulega meðferð og þeir sem höfðu verið veikir árið áður komu 2,8 sinnum fyrr til vinnu en þeir sem fengu venjulega meðferð. Þættir eins og kyn, geta til virkni vegna verkjanna, verkjastyrkur og líkamlegt álag í vinnu virtist ekki hafa áhrif á árangur.
Styrkleikar og veikleikar rannsóknarinnar
Niðurstaðan byggir á rannsóknarsniði RCT sem er talinn besta aðferðin (gold standard) við að meta árangur meðferðar. Veikleiki rannsóknarinnar er að undirhópar voru greindir eftirá, en ekki fyrir  gagnasöfnun þrátt fyrir að sömu undirhópar hefðu líklega orðið fyrir valinu.
Lærdómurinn
Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á að vinnutengja starfsendurhæfinguna og að fá fyrirtæki til að hafa fastmótaða stefnu um hvernig þau ætla að aðstoða sína starfsmenn sem fyrst aftur í vinnu eftir veikindi eða slys.
Þessi samantekt byggir á greininni: What works best for whom? An exploratory, subgroup analysis in a randomized, controlled trial on the effectiveness of a workplace intervention in low back pain eftir Stenstra I., Knol DL ofl.  og birtist í Spine vol 9 bls. 1243-1249 2009


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband