Fara í efni

Starfsendurhæfing í atvinnulífinu

Til baka

Starfsendurhæfing í atvinnulífinu

Meginhlutverk Starfsendurhæfingarsjóðs er að aðstoða einstaklinga með skerta starfsgetu til að auka hana og styrkja með það að markmiði að viðkomandi geti verið virkur þátttakandi á vinnumarkaði.  Til að slíkt sé mögulegt þarf oft að eiga sér stað  samstarf margra ólíkra aðila s.s. einstaklings, ráðgjafa, sérfræðinga, heilbrigðisstarfsmanna og síðast en ekki síst atvinnurekanda og stjórnenda á vinnustöðum. 

Geta einstaklings til þátttöku á vinnumarkaði verður ekki aukin, vegin eða metin á réttmætan hátt nema í samstarfi við atvinnulífið og þá aðila sem þar stjórna og starfa.  Þ.e. vinnugeta einstaklings ræðst annars vegar af færni hans og hins vegar af þeim kröfum sem gerðar eru á vinnumarkaði í mismunandi störfum og verkefnum.  Starfsgeta einstaklings verður því ekki metin án samstarfs við atvinnulífið og eins er það ljóst að einstaklingur með líkamlega eða andlega fötlun eða skerðingu getur búið yfir fullri vinnugetu ef unnt er að finna honum verkefni við hæfi á vinnumarkaði.

Hér á landi hefur á undanförnum árum verið lögð mikil áhersla á námstengda starfsendurhæfingu víða um land. Þar er einstaklingum með skerta starfshæfni vegna heilsubrests boðið upp á að stunda nám með stuðningi en oft með takmaðri tengingu við atvinnulífið. Þessi tegund starfsendurhæfingar getur verið árangursrík þegar um er að ræða einstaklinga sem hafa verið lengi frá vinnu eða hafa ekki lokið námi og hafa þeir á þennan hátt fengið nauðsynlegan stuðning og hvatningu til áframhaldandi uppbyggingar starfshæfni sinnar. 

Rannsóknir og reynsla erlendis hafa þó sýnt fram á það að varanlegur árangur í starfsendurhæfingu næst í mörgum tilfellum ekki án náins samstarfs við atvinnulífið og án þess að atvinnurekendur og stjórnendur séu tilbúnir til að leggja sig fram um að taka þátt í þessu verkefni. Bæði með því að aðstoða núverandi starfsmenn við að halda starfi sínu þrátt fyrir heilsubrest og gefa nýjum starfsmönnum tækifæri til þátttöku í samræmi við getu, þrátt fyrir að viðkomandi búi við skerta starfsgetu vegna heilsubrests af einhverju tagi.

Árangursríkt samstarf við atvinnurekendur og stjórnendur er því ákaflega mikilvægur þáttur í starfi VIRK og getur í framtíðinni ráðið mjög miklu um hversu varanlegur árangur næst í starfsendurhæfingu hér á landi. 

Starfsendurhæfingarsjóður vill  byggja upp gott samstarf við atvinnurekendur um allt land – samstarf sem hefur það markmið að koma í veg fyrir að starfsmenn missi starf sitt vegna heilsubrests og einnig að skapa rými og finna störf við hæfi fyrir einstaklinga sem búa við skerta starfshæfni eða þurfa á því að halda að finna ný tækifæri á vinnumarkaði eftir áföll og erfiða tíma. 


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband