Fara í efni

Góður árangur í vetur

Til baka

Góður árangur í vetur

Í dag starfa 22 ráðgjafar á vegum VIRK hjá stéttarfélögum um allt land í um 19 stöðugildum.  Flestir ráðgjafanna hófu störf síðastliðið haust og svo bættust fleiri við þegar líða tók á veturinn.  Það má því segja að á síðasta vetri hafi verið stigin fyrstu skrefin í þjónustu á vegum VIRK um allt land.  Auk þess að veita þjónustu hefur veturinn einnig verið nýttur til fræðslu og þjálfunar fyrir ráðgjafana og til að þróa og bæta okkar aðferðir og þjónustuferla.  Það er og verður stöðugt verkefni.

Óhætt er að segja að þjónustan hafi farið vel af stað.  Tæplega 1000 einstaklingar hafa nú fengið þjónustu hjá ráðgjöfum VIRK og margir þeirra hafa einnig notið góðs af fjölbreyttum úrræðum sem VIRK hefur fjármagnað.  Eftirspurn eftir þjónustunni eykst stöðugt og höfum við þurft að bæta við ráðgjöfum á tilteknum stöðum til að mæta henni.  Til nánari upplýsinga er hér á eftir varpað fram nokkrum punktum og staðreyndum um þjónustuna á síðasta vetri:

  • Tæplega 1000 manns hafa fengið þjónustu hjá ráðgjafa VIRK og það fjölgar hjá okkur í hverri viku.  Tæplega 600 manns eru núna í reglulegum viðtölum eða úrræðum á vegum VIRK og ríflega 200 manns hafa „útskrifast“ eða lokið þjónustu.  Talsverður hópur er einnig í eftirfylgd og stuðningi.
  • Af þeim sem hafa „útskrifast“ eða lokið þjónustu eru yfir 80% með vinnugetu og eru annað hvort í vinnu, námi eða í atvinnuleit.  Meðaltímalengd þjónustunnar hjá þeim sem hafa útskrifast er um 3 mánuðir.
  • Um 70% af þeim sem hafa fengið þjónustu hjá ráðgjafa fá greiðslur frá sjúkrasjóðum stéttarfélaga eða fá greidd laun í veikindum.  Um 30% eru á endurhæfingar- eða örorkulífeyri eða á atvinnuleysisbótum.
  • 53% af hópnum eru konur og 47% karlar
  • Fjölbreytt úrræði hafa verið í boði fyrir þessa einstaklinga.  Sálfræðiþjónusta, heilsuefling og ýmis námskeið eru þau úrræði sem mest eru notuð og um 30 sálfræðingar eru nú skráðir á samning hjá VIRK.  VIRK hefur einnig aðstoðað einstaklinga við greiðslu sjúkraþjálfunar ef hún hefur það að markmiði að koma viðkomandi aftur til starfa.
  • Hver ráðgjafi í fullu starfi hefur haft umsjón með um 25-50 einstaklingum á hverjum tíma.  Þessi fjöldi hefur þó bæði verið minni en 25 og meiri en 50 hjá einstaka ráðgjafa á tilteknum tímabilum enda er þjónustan í mótun og þróun.  Algengt er að einstaklingur mæti í viðtal til ráðgjafa á 1-3 vikna fresti og þess á milli sinnir hann öðrum úrræðum samkvæmt áætlun sem er gerð í samvinnu ráðgjafa og einstaklings.  Þetta er þó ekki algilt og fjöldi og tímalengd viðtala og úrræða ræðst ávallt af aðstæðum hvers og eins.
  • Ráðgjafar VIRK hafa byggt upp og haft umsjón með um 150 endurhæfingaráætlunum fyrir Tryggingastofnun ríkisins á undanförnum mánuðum og þessum áætlunum fer sífellt fjölgandi.  Við þetta bætast síðan endurnýjanir og framlengingar á þessum áætlunum.  Þessar endurhæfingaráætlanir geta verið mjög mikilvægur þáttur í því að aðstoða einstaklinga á endurhæfingarlífeyri til að ná aukinni vinnugetu og þátttöku á vinnumarkaði og koma þannig í veg fyrir að einstaklingur fari á örorkulífeyrisgreiðslur.  Gerð, umsjón og eftirfylgni hverrar endurhæfingaráætlunar er mjög tímafrekt ferli og krefst þess að ráðgjafi sé í reglulegu sambandi við bæði viðkomandi einstakling, lækni og mismunandi úrræðaaðila.
  • Þjónusta VIRK hefur orðið til þess að bæta vinnugetu og lífsgæði fjölda einstaklinga.  Nokkur dæmi um þetta má finna í viðtölum við þjónustuþega hér á heimasíðunni (sjá hér).  Aðstoð ráðgjafa hefur bæði stytt veikindafjarvistir einstaklinga, komið í veg fyrir að einstaklingar missi vinnusamband sitt vegna veikinda.  Einnig höfum við þó nokkur dæmi þess að einstaklingar sem hafa verið lengi utan vinnumarkaðar eru nú komnir aftur til starfa með aðstoð og stuðningi ráðgjafa.
  • Sérfræðingar VIRK hafa haldið fjölda fyrirlestra og námskeiða um starfsendurhæfingu, endurkomu til vinnu og fjarvistarstjórnun hjá fyrirtækjum og stofnunum um allt land.  Einnig hafa verið gefnir út fræðslubæklingar og kynningarefni – sjá nánar hér.  Samvinna við atvinnulífið er mikilvægur þáttur í starfseminni og hafa stjórnendur í atvinnulífinu sýnt mikinn áhuga á starfsemi VIRK og séð í því ávinning að leggja meiri áherslu á starfsendurhæfingu, fjarvistarstjórnun og farsæla endurkomu starfsmanna til vinnu eftir veikindi eða slys.

Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband