Fara í efni

Fréttir

Ráðgjafi á Suðurnesjum

Guðni Erlendsson hefur verið ráðinn í stöðu ráðgjafa á Suðurnesjum.  Guðni er kennari að mennt og hefur auk þess MS gráðu í mannauðsstjórnun.  Hann hefur víðtæka starfsreynslu m.a. á sviði starfsendurhæfingar.   Guðni mun veita einstaklingum á Suðurnesjum þjónustu á sviði starfsendurhæfingar auk þess að starfa náið með stéttarfélögum starfsmanna og atvinnurekendum á svæðinu.  Guðni hefur störf 1. nóvember nk.

Dagskrá ráðstefnunnar

Ráðstefnan "Virkjum fjölbreyttari mannauð" verður haldin 9.-10. nóvember nk. á Hótel Nordica, eins og áður hefur komið fram hér á síðunni. Á ráðstefnunni verður fjallað um áhrifaríkustu aðferðirnar á Norðurlöndum við að virkja fólk með skerta starfsgetu og þær aðferðir sem hafa reynst árangursríkar við að gera fólki kleift að gerast á ný virkir þátttakendur í atvinnulífinu. Dagskrá ráðstefnunnar er tilbúin og hægt er að nálgast hana hér, og einnig hægra megin á síðunni undir auglýsingunni um ráðstefnuna. Þar er einnig hægt að skrá sig á ráðstefnuna. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna er hægt að nálgast með því að smella á auglýsinguna hérna hægra megin á síðunni.

Annar hver einstaklingur með skerta starfsgetu getur bætt stöðu sína

Tæplega annar hver einstaklingur með skerta starfsgetu getur aukið getu sína og fjórði hver einstaklingur hefur möguleika á að ná fullri starfsgetu.  Þetta er niðurstaða danskrar rannsóknar sem var framkvæmd af SFI (Det nationale forskningscenter for velfærd) fyrir vinnumarkaðsnefnd dönsku ríkisstjórnarinnar. Af þessari niðurstöðu er hægt að draga þá ályktun að það er mjög varhugavert að úrskurða of snemma um varanlega getu einstaklinga til þátttöku á vinnumarkaði.  Skert starfsgeta þarf ekki endilega að koma í veg fyrir þátttöku í atvinnulífinu og oft eru til staðar möguleikar á því að starfsgeta einstaklinga aukist og þá jafnvel þannig að fullri starfsgetu sé náð. 

Ráðgjafi á Akranesi

Búið er að ganga frá samningi milli Starfsendurhæfingarsjóðs og stéttarfélaga á Akranesi um starf ráðgjafa.  Ráðgjafinn mun veita einstaklingum á Akranesi þjónustu ef um er að ræða skerta starfsgetu vegna heilsubrests.  Björg Bjarnadóttir hefur verið ráðin sem ráðgjafi og mun bjóða félagsmönnum allra stéttarfélaga þjónustu á sviði starfsendurhæfingar.

Kynning á Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Í síðustu viku voru Ágústa Guðmarsdóttir, ráðgjafi í starfsendurhæfingu fyrir stéttarfélögin á Suðurlandi, og Sigurður Þór Sigursteinsson frá VIRK með kynningu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Farið var yfir hlutverk Ágústu sem ráðgjafa stéttarfélaganna og hvernig hægt er að vísa á hana og einnig var farið yfir hlutverk VIRK. Áhersla var lögð á að vera í samstarfi við heilsugæsluna og að geta unnið saman að því að minnka líkurnar á því að fólk detti út af vinnumarkaðnum vegna heilsubrests. Kynningin gekk vel og góðar umræður mynduðust. Á næstu mánuðum verða kynningar á öllum heilsugæslustöðvum á landinu.

Kynning á Hrafnistu

Í síðustu viku fór fram kynning fyrir stjórnendum á Hrafnistu um hvernig nýta má ráðgjafa í starfsendurhæfingu þegar starfsmenn fara í veikindarleyfi, eða er eiga orðið erfitt með að sinna sínu starfi vegna skertrar starsgetu. Það voru Soffía Erla Einarsdóttir ráðgjafi hjá Eflingu og Sigurður Þór Sigursteinsson sérfræðingur hjá VIRK sem sáu um kynninguna. Sigurður kynnti hlutverk VIRK og þá tengingu sem er við ráðgjafana hjá stéttarfélögunum og Soffía fór í gegnum sitt hlutverk og hvernig hægt er að nálgast ráðgjafana. Á næstu vikum og mánuðum munu fara fram kynningar út í fyrirtækjum þar sem lögð er áhersla á að kynna aðgengi að ráðgjöfunum og mikilvægi þess að atvinnurekendur hugsi vel um starfsmenn sína í svona ferli. Snemmbært inngrip er mjög mikilvægt þegar um skerta starfsgetu er að ræða og Starfsendurhæfingarsjóður mun leggja mikla áherslu á gott samstarfi við atvinnulífið. Atvinnurekendur, starfsmannastjórar, yfirmenn o.fl geta haft samband við VIRK og óskað eftir því að fá kynningu um þá þjónustu sem starfsmönnum býðst  þegar einstaklingur er í veikindarleyfi eða á orðið erfitt með að sinna sínu starfi vegna heilsubrests.

Ráðstefna 9.-10. nóvember

Þann 9.-10. nóvember nk. verður ráðstefnan "Virkjum fjölbreyttari mannauð" haldin á Hótel Nordica. Ráðstefnan er haldin undir yfirskriftinni "Atvinna fyrir alla" og hefst mánudagskvöldið 9. nóvember og lýkur síðdegis þann. 10. nóvember. Á ráðstefnunni verður fjallað um áhrifaríkustu aðferðirnar á Norðurlöndum við að virkja fólk með skerta starfsgetu og þær aðferðir sem hafa reynst árangursríkar við að gera fólki kleift að gerast á ný virkir þátttakendur í atvinnulífinu.

Samningur við stéttarfélög á Suðurnesjum

Skrifað hefur verið undir samning við stéttarfélög á Suðurnesjum um þjónustu ráðgjafa.  Sjö stéttarfélög á Suðurnesjum skrifuðu undir samninginn en samningurinn nær til allra félagsmanna þessara stéttarfélaga.  Þessi félög eru Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, Starfsmannafélag Suðurnesja, Verslunarmannafélag Suðurnesja, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Félag iðn- og tæknigreina, Rafiðnaðarsamband Íslands og Verkalýðsfélag Grindavíkur. Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis  mun taka að sér ráðgjafastarfið fyrir hönd stéttarfélaganna og mun í samvinnu við þau, bjóða félagsmönnum upp á þjónustu á sviði starfsendurhæfingar. Auglýst verður eftir umsóknum um starf ráðgjafa á næstu dögum.  Á myndinni sjást formenn félaganna ásamt Þorsteini Sveinssyni frá VIRK skrifa undir samninginn.

Ráðgjafi í starfsendurhæfingu ráðinn hjá BHM, KÍ og SSF

Búið er að ganga frá ráðningu ráðgjafa á sviði starfsendurhæfingar hjá BHM, KÍ og SSF. Sá einstaklingar sem varð fyrir valinu er Margrét Gunnarsdóttir sjúkraþjálfari. Hún hóf störf þann 14. september og mun hafa aðalstarfsstöð hjá BHM í Borgartúni 6 en mun vinna náið með öllum þessum samtökum og byggja upp góða þjónustu í samræmi við þarfir félagsmanna. Margrét mun vera í 50% starfi fram í miðjan október og þá mun hún fara í fullt starf.

Samstarf Starfsendurhæfingarsjóðs og Vinnumálastofnunar á Akureyri

Starfsendurhæfingarsjóður og Vinnumálastofnun á Akureyri hafa gert með sér samning um tímabundið tilraunaverkefni á sviði starfsendurhæfingar. Verkefnið byggir m.a. á samstarfi ráðgjafa Vinnumálastofnunar og ráðgjafa sjúkrasjóða  stéttarfélaganna á Akureyri. Tilgangur verkefnisins  er að  ná til og aðstoða einstaklinga sem búa við skerta starfsgetu  af heilsufarsástæðum eða eru í sérstakri áhættu á að missa starfsgetu í kjölfar langtímaatvinnuleysis,   auka starfsgetu þeirra og aðstoða þá við að komast til vinnu aftur.

Hafa samband