Fara í efni

Annar hver einstaklingur með skerta starfsgetu getur bætt stöðu sína

Til baka

Annar hver einstaklingur með skerta starfsgetu getur bætt stöðu sína

Tæplega annar hver einstaklingur með skerta starfsgetu getur aukið getu sína og fjórði hver einstaklingur hefur möguleika á að ná fullri starfsgetu.  Þetta er niðurstaða danskrar rannsóknar sem var framkvæmd af SFI (Det nationale forskningscenter for velfærd) fyrir vinnumarkaðsnefnd dönsku ríkisstjórnarinnar.

Af þessari niðurstöðu er hægt að draga þá ályktun að það er mjög varhugavert að úrskurða of snemma um varanlega getu einstaklinga til þátttöku á vinnumarkaði.  Skert starfsgeta þarf ekki endilega að koma í veg fyrir þátttöku í atvinnulífinu og oft eru til staðar möguleikar á því að starfsgeta einstaklinga aukist og þá jafnvel þannig að fullri starfsgetu sé náð. 

Í þessari rannsókn var sjónum beint að hópi einstaklinga sem hafði skerta starfsgetu á árinu 1995.  Staða þessara einstaklinga var könnuð aftur á árinu 2008 og þá kom í ljós að um helmingur þeirra hafði aukið getu sína og um fjórðungur þessara einstaklinga hafði náð fullri starfsgetu.

Niðurstöður rannsóknarinnar má sjá í eftirfarandi töflu:

 Heilsufarsleg staða 2008 í samanburði við stöðuna 2005 Hlutfall 
 Fullri starfsgetu er náð  26%
 Starfsgetan hefur aukist en er samt ennþá skert  20%
 Starfsgetan er óbreytt  8%
 Starfsgetan hefur versnað  46%

Við getum ekki gefið okkur það að skert starfsgeta einstaklings á ákveðnum tímapunkti þýði að hann komi til með að búa við þá skerðingu ævilangt.  Aðstæður einstaklinga breytast og oft er hægt að veita einstaklingum aðstoð við að bæta starfsgetu sína og auka þar með möguleikann á því að þeir verði fjárhagslega sjálfstæðir og virkir í leik og starfi.  Vegna þessa þá er það mjög varhugavert að meta einstaklinga til varanlegrar skerðingar á starfsgetu of snemma og án þess að allt hafi verið reynt til að aðstoða viðkomandi við að auka starfsgetu sína og möguleika. 

Það er líka ljóst að ef einstaklingur viðheldur tengslum við vinnumarkaðinn – þó ekki sé um að ræða nema brot úr starfi – þá getur það haft verulega jákvæð áhrif á starfsgetu hans til lengri tíma.

Í ljósi ofangreindra niðurstaðna hefur Vinnumarkaðsnefnd dönsku ríkisstjórnarinnar lagt á það áherslu að úrskurður um varanlegan lífeyri vegna skertrar starfsgetu skuli ekki eiga sér stað fyrr en búið er að reyna í nokkur ár að aðstoða og bæta starfsgetu viðkomandi einstaklinga og það sé alveg ljóst að enginn möguleiki sé á aukinni starfsgetu.

Sjá nánar á http://www.samspil.info/forside/vis+artikel?id=197

Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband