Fara í efni

Fréttir

Samningur við stéttarfélög á Austurlandi

Skrifað hefur verið undir samning við stéttarfélög á Austurlandi um þjónustu ráðgjafa.  Fjögur stéttarfélög á Austurlandi skrifuðu undir samninginn en samningurinn nær til allra félagsmanna stéttarfélaga á Austurlandi.  Starfsendurhæfing Austurlands (StarfA) mun taka að sér ráðgjafastarfið og mun, í samvinnu við stéttarfélögin, bjóða félagsmönnum upp á þjónustu á sviði starfsendurhæfingar.

Samningur við BSRB um ráðgjafastarfið

Búið er að ganga frá samningi við BSRB um ráðgjafastarfið.  Ráðgjafar BSRB á höfuðborgarsvæðinu munu vera með starfsstöðvar að Grettisgötu 89.  Þeir munu veita öllum félagsmönnum aðildarfélaga BSRB á höfuðborgarsvæðinu þjónustu og auk þess byggja upp gott samstarf við ráðgjafa um allt land til að tryggja góða og samfellda þjónustu.

Samningur við BHM, KÍ og SSF um ráðgjafastarfið

Búið er að ganga frá samningi við BHM, KÍ og SSF um starf ráðgjafa.  Þessi samtök munu sameiginlega ráða einn ráðgjafa til starfa.  Ráðgjafinn mun hafa aðalstarfsstöð hjá BHM í Borgartúninu en mun vinna náið með öllum þessum samtökum og byggja upp góða þjónustu í samræmi við þarfir félagsmanna.

Samningur við stéttarfélög á Suðurlandi

Í dag var undirritaður samningur milli Starfsendurhæfingarsjóðs og stéttarfélaga á Suðurlandi um starf ráðgjafa.  Ráðgjafinn mun veita einstaklingum þjónustu ef um er að ræða skerta starfsgetu vegna heilsubrests.  Verið er að undirbúa starfið og stefnt að því að ráða ráðgjafa til starfa á næstu vikum.

Alcoa styrkir Starfsendurhæfingu Austurlands

Samfélagssjóður Alcoa í Bandaríkjunum hefur ákveðið að styrkja Starfsendurhæfingu Austurlands um um 8,9 milljónir króna á tveggja ára tímabili. Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, hefur afhent fyrri hluta styrksins. Markmið Starfsendurhæfingar Austurlands er að aðstoða fólk sem misst hefur vinnu um lengri eða skemmri tíma vegna sjúkdóma, slysa, eða félagslegra aðstæðna og endurhæfa það til vinnu og/eða náms . Mikil áhersla er lögð á að endurhæfingin fari fram í heimabyggð þeirra sem njóta hennar og að stoðir nærsamfélagsins séu nýttar, s.s. heilbrigðiskerfið, félagsþjónustan og mennta- og fræðslukerfið. Starfsemi Starfsendurhæfingu Austurlands fer fram á þremur stöðum, á Egilsstöðum, Reyðarfirði og Höfn. Alls nýta um 50 manns þjónustu endurhæfingarinnar. Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsendurhæfingarinnar, segir styrkinn viðurkenningu á þeirri starfsemi sem endurhæfingin stendur fyrir „og hann rennir stoðum undir enn fjölbreyttari starfsemi sem kemur þátttakendum okkar og samfélaginu til góða,“ segir Erla. Samfélagssjóður Alcoa var stofnaður fyrir 56 ára árum og hefur frá upphafi veitt yfir 490 milljónir Bandaríkjadala (71 milljarð króna) til samfélagslegra verkefna um allan heim, þar sem fyrirtækið er með starfsstöðvar.  

Samningar við 11 stéttarfélög um þjónustu ráðgjafa

Í síðustu viku voru undirritaðir samningar við 11 stéttarfélög um þjónustu ráðgjafa á höfuðborgarsvæðinu.  Um er að ræða eftirfarandi félög: Rafiðnaðarsamband Íslands Félag vélstjóra og málmtæknimanna Matvís Félag hársnyrtisveina Mjólkurfræðingafélag Íslands Fagfélagið Félag bókagerðarmanna Félag iðn- og tæknigreina Félag leiðsögumanna Flugfreyjufélag Íslands Verkstjórasamband Íslands Til að byrja með verður ráðinn inn einn ráðgjafi til að veita félagsmönnum ofangreindra félaga þjónustu.  Vonast er til að sá ráðgjafi geti tekið fljótlega til starfa. 

Þátttaka í alþjóðlegri rannsókn um mat á starfshæfni

Starfsendurhæfingarsjóður tekur nú þátt í alþjóðlegri rannsókn þar sem er verið að meta ákveðna þætti sem snúa að mati á starfshæfni einstaklinga.  Sérstaklega er verið að skoða hvernig unnt sé að nota aðferðarfræði og þætti ICF (International Classification of Function) við mat og greiningu á starfshæfni/vinnugetu einstaklinga.  Það eru samtök tryggingayfirlækna í Evrópu, EUMASS, sem standa fyrir rannsókninni.  Þetta er fjölstöðva rannsókn þar sem verið er að prófa réttmæti (validation) kjarnasafns (core set) um starfshæfni sem hafa verið þróuð af vinnuhópi um notkun ICF innan EUMASS. Þessi grunnatriði samanstanda af 20 flokkum úr ICF kerfinu sem ætti alltaf að íhuga þegar verið er að meta óvinnufærni til vinnu. Hér á landi hefur Starfsendurhæfingarsjóður fengið sérfræðinga á Reykjalundi og hjá HNLFÍ í Hveragerði til þáttöku í þessu verkefni.  Það eru læknarnir Ólöf H. Bjarnadóttir og Gunnar K. Guðmundsson á Reykjalundi og Jan Triebel í Hveragerði sem taka þátt í þessari spennandi rannsókn með okkur. 

Ráðgjafi kominn til starfa á Vestfjörðum

Búið er að ganga frá ráðningu ráðgjafa fyrir öll stéttarfélög á Vestfjörðum.  Ráðgjafinn heitir Fanney Pálsdóttir og er sjúkraþjálfari.  Fanney hóf störf 5 maí sl og mun veita félagsmönnum stéttarfélaga á Vestfjörðum þjónustu ef um er að ræða skerta vinnugetu vegna veikinda eða slysa. 

Frábær mæting á morgunverðarfund

Í gær var haldinn morgunverðarfundur um starfsendurhæfingu á Grand Hótel Reykjavík. Mætingin á fundinn var mjög góð og mættu alls um 120 manns á fundinn.  Vigdís Jónsdóttir flutti erindi um hlutverk Starfsendurhæfingarsjóðs og stöðuna í dag og eftir það hélt Gail Kovacs, alþjóðlegur ráðgjafi í starfsendurhæfingu mjög fróðlegt erindi um strauma og stefnur í starfsendurhæfingu í dag. Við hjá Starfsendurhæfingarjsjóði viljum þakka fyrir frábæra mætingu á fundinn og vonandi hafa þeir aðilar sem mættu á fundinn fengið skýra mynd af hlutverki Starfsendurhæfingarsjóðs og haft gagn af erindi Gail Kovacs. Smellið hér til að skoða myndir af fundinum Hægt er að nálgast glærurnar undir liðnum kynningarefni hérna hægra megin á síðunni.

Fyrsti ársfundur Starfsendurhæfingarsjóðs

Ársfundur Starfsendurhæfingarsjóðs var haldinn mánudaginn 27. apríl sl. á Grand hótel Reykjavík.   Gylfi Arnbjörnsson stjórnarformaður VIRK og Vigdís Jónsdóttir framkvæmdarstjóri VIRK fóru yfir stöðu mála varðandi starfsemi og uppbyggingu sjóðsins.  Ársreikningur var samþykktur og tilkynnt var um skipan stjórnar til næstu tveggja ára.  Í lok fundarins hélt Gail Kovacs sérfræðingur og alþjóðlegur ráðgjafi á sviði starfsendurhæfingar áhugavert erindi um strauma og stefnur í starfsendurhæfingu.

Hafa samband