10.06.2009
Vinnan hefur áhrif á heilbrigði einstaklinga og að sama skapi hefur heilbrigði einstaklinga margvísleg
áhrif á vinnuna.
Algengir þættir sem hafa áhrif á þetta samspil eru endurkoma til vinnu eftir veikindi eða slys,
viðbrögð við veikindum eða vinnuslysum, heilsusamlegt umhverfi og hvatning til heilsueflingar. Allir þessir þættir geta haft áhrif á
framleiðni fyrirtækis.
Við leggjum
áherslu á snemmbær inngrip og endurkomu til vinnu. Flestir koma aftur til vinnu fljótlega eftir veikindafjarvist, en marktækur minnihluti er fjarverandi til langs tíma og sumir koma aldrei aftur til
vinnu.
Þegar þörf er á fjarvist frá vinnu vegna slyss eða veikinda, þá verður fjarvistin sjálf að áhyggjuefni. Margar vel unnar
rannsóknir benda eindregið til þess að vinnan sjálf sé heilsueflandi fyrir flesta og að hún sé mikilvægur þáttur í
endurhæfingu einstaklingsins. Að auki benda rannsóknir eindregið til þess að því lengur sem einstaklingur er
ekki í vinnu, því ólíklegri sé hann til að fara aftur til vinnu. Eftir nokkra mánuði minnka líkurnar á endurkomu til
vinnu svo mikið að hugsanlegt er að viðkomandi fari aldrei í vinnu aftur. Þegar þetta gerist eru persónulegar og fjárhagslegar afleiðingar fyrir
einstaklinginn alvarlegar. Vinnuleysið er hættulegt heilsu einstaklingsins og dýrt fyrir samfélagið.
Í mörgum tilfellum má
forðast neikvæðar afleiðingar veikindafjarvista, þær eru ekki náttúrulögmál.
Möguleikarnir á því að geta snúið aftur til vinnu tengjast engan veginn eingöngu alvarleika slyss eða sjúkdóms. Staðreyndin er
sú að aðrir þættir eru miklu mikilvægari. Þetta eru þættir eins og læknismeðferð og önnur heilbrigðisþjónusta,
snemmbært inngrip, viðbrögð atvinnurekandans við veikindunum, ákvarðanir sem teknar eru á vinnustaðnum, viðhorf einstaklingsins og fjölskyldu
hans, viðhorf heilbrigðisstarfsfólks, samstarfsmanna, yfirmanna og atvinnurekenda. Þetta eru allt mikilvægir áhrifaþættir á bataferlið og endurkomu til starfa.
Rannsóknir sýna að læknismeðferð ein og sér er ekki nægileg til að auka líkur á endurkomu til vinnu, það er þverfaglegt
verkefni. Í starfsendurhæfingu er því lögð áhersla á þátttöku einstaklingsins,
atvinnurekenda, heilsugæslu, öryggis- og trúnaðarmanna og fjölda sérfræðinga sem hver fyrir sig leggur til
sína sérþekkingu til að einstaklingurinn nái árangri og komist aftur í vinnu.