Fara í efni

Fréttir

Samningur við VR um störf ráðgjafa

Starfsendurhæfingarsjóður og VR hafa gengið frá samningi um störf ráðgjafa hjá VR.  VR hefur boðið félagsmönnum sínum sem fá greidda sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði upp á þjónustu ráðgjafa nú um nokkurt skeið.  Með samningi við Starfsendurhæfingarsjóð er hins vegar samstarf milli VR og Starfsendurhæfingarsjóðs eflt og komið í tiltekinn farveg.  M.a. verður stöðugildum ráðgjafa fjölgað og verksvið þeirra er aukið.

Nýr ráðgjafi fyrir 11 stéttarfélög á höfuðborgarsvæðinu

Sigrún Sigurðardóttir hefur verið ráðin sem ráðgjafi fyrir eftirfarandi stéttarfélög vegna félagsmanna þeirra á höfuðborgarsvæðinu: Rafiðnaðarsamband Íslands Félag vélstjóra og málmtæknimanna Matvís Félag hársnyrtisveina Mjólkurfræðingafélag Íslands Fagfélagið Félag bókagerðarmanna Félag iðn- og tæknigreina Félag leiðsögumanna Flugfreyjufélag Íslands Verkstjórasamband Íslands Sigrún hefur mikla reynslu á sviði fræðslu og starfsendurhæfingar og hefur hún lokið námi í uppeldis og menntunarfræði ásamt því að hafa lokið kennslufræði til kennsluréttinda.  Hún mun hefja störf í byrjun ágúst.

Breytt viðhorf

Vinnan hefur áhrif á heilbrigði einstaklinga og að sama skapi hefur heilbrigði einstaklinga margvísleg áhrif á vinnuna.   Algengir þættir sem hafa áhrif á þetta samspil eru endurkoma til vinnu eftir veikindi eða slys, viðbrögð við veikindum eða vinnuslysum, heilsusamlegt umhverfi og hvatning til heilsueflingar. Allir þessir þættir geta haft áhrif á framleiðni fyrirtækis.   Við leggjum áherslu á snemmbær inngrip og endurkomu til vinnu.  Flestir koma aftur til vinnu fljótlega eftir veikindafjarvist, en marktækur minnihluti er fjarverandi til langs tíma og sumir koma aldrei aftur til vinnu. Þegar þörf er á fjarvist frá vinnu vegna slyss eða veikinda, þá verður fjarvistin sjálf að áhyggjuefni. Margar vel unnar rannsóknir benda eindregið til þess að vinnan sjálf sé heilsueflandi fyrir flesta og að hún sé mikilvægur þáttur í endurhæfingu einstaklingsins.  Að auki benda rannsóknir eindregið til þess að því lengur sem einstaklingur er ekki í vinnu, því ólíklegri sé hann til að fara aftur til vinnu. Eftir nokkra mánuði minnka líkurnar á endurkomu til vinnu svo mikið að hugsanlegt er að viðkomandi fari aldrei í vinnu aftur. Þegar þetta gerist eru persónulegar og fjárhagslegar afleiðingar fyrir einstaklinginn alvarlegar. Vinnuleysið er hættulegt heilsu einstaklingsins og dýrt fyrir samfélagið. Í mörgum tilfellum má forðast neikvæðar afleiðingar veikindafjarvista, þær eru ekki náttúrulögmál. Möguleikarnir á því að geta snúið aftur til vinnu tengjast engan veginn eingöngu alvarleika slyss eða sjúkdóms. Staðreyndin er sú að aðrir þættir eru miklu mikilvægari. Þetta eru þættir eins og læknismeðferð og önnur heilbrigðisþjónusta, snemmbært inngrip, viðbrögð atvinnurekandans við veikindunum, ákvarðanir sem teknar eru á vinnustaðnum, viðhorf einstaklingsins og fjölskyldu hans, viðhorf heilbrigðisstarfsfólks, samstarfsmanna, yfirmanna og atvinnurekenda. Þetta  eru allt  mikilvægir áhrifaþættir  á bataferlið og endurkomu til starfa.   Rannsóknir sýna að læknismeðferð ein og sér er ekki nægileg til að auka líkur á endurkomu til vinnu, það er þverfaglegt verkefni.  Í starfsendurhæfingu er því lögð áhersla á þátttöku einstaklingsins, atvinnurekenda, heilsugæslu, öryggis- og trúnaðarmanna og fjölda sérfræðinga  sem hver fyrir sig leggur til sína sérþekkingu til að einstaklingurinn nái árangri og komist aftur í vinnu.

Samningur við stéttarfélög á Austurlandi

Skrifað hefur verið undir samning við stéttarfélög á Austurlandi um þjónustu ráðgjafa.  Fjögur stéttarfélög á Austurlandi skrifuðu undir samninginn en samningurinn nær til allra félagsmanna stéttarfélaga á Austurlandi.  Starfsendurhæfing Austurlands (StarfA) mun taka að sér ráðgjafastarfið og mun, í samvinnu við stéttarfélögin, bjóða félagsmönnum upp á þjónustu á sviði starfsendurhæfingar.

Samningur við BSRB um ráðgjafastarfið

Búið er að ganga frá samningi við BSRB um ráðgjafastarfið.  Ráðgjafar BSRB á höfuðborgarsvæðinu munu vera með starfsstöðvar að Grettisgötu 89.  Þeir munu veita öllum félagsmönnum aðildarfélaga BSRB á höfuðborgarsvæðinu þjónustu og auk þess byggja upp gott samstarf við ráðgjafa um allt land til að tryggja góða og samfellda þjónustu.

Samningur við BHM, KÍ og SSF um ráðgjafastarfið

Búið er að ganga frá samningi við BHM, KÍ og SSF um starf ráðgjafa.  Þessi samtök munu sameiginlega ráða einn ráðgjafa til starfa.  Ráðgjafinn mun hafa aðalstarfsstöð hjá BHM í Borgartúninu en mun vinna náið með öllum þessum samtökum og byggja upp góða þjónustu í samræmi við þarfir félagsmanna.

Samningur við stéttarfélög á Suðurlandi

Í dag var undirritaður samningur milli Starfsendurhæfingarsjóðs og stéttarfélaga á Suðurlandi um starf ráðgjafa.  Ráðgjafinn mun veita einstaklingum þjónustu ef um er að ræða skerta starfsgetu vegna heilsubrests.  Verið er að undirbúa starfið og stefnt að því að ráða ráðgjafa til starfa á næstu vikum.

Alcoa styrkir Starfsendurhæfingu Austurlands

Samfélagssjóður Alcoa í Bandaríkjunum hefur ákveðið að styrkja Starfsendurhæfingu Austurlands um um 8,9 milljónir króna á tveggja ára tímabili. Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, hefur afhent fyrri hluta styrksins. Markmið Starfsendurhæfingar Austurlands er að aðstoða fólk sem misst hefur vinnu um lengri eða skemmri tíma vegna sjúkdóma, slysa, eða félagslegra aðstæðna og endurhæfa það til vinnu og/eða náms . Mikil áhersla er lögð á að endurhæfingin fari fram í heimabyggð þeirra sem njóta hennar og að stoðir nærsamfélagsins séu nýttar, s.s. heilbrigðiskerfið, félagsþjónustan og mennta- og fræðslukerfið. Starfsemi Starfsendurhæfingu Austurlands fer fram á þremur stöðum, á Egilsstöðum, Reyðarfirði og Höfn. Alls nýta um 50 manns þjónustu endurhæfingarinnar. Erla Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsendurhæfingarinnar, segir styrkinn viðurkenningu á þeirri starfsemi sem endurhæfingin stendur fyrir „og hann rennir stoðum undir enn fjölbreyttari starfsemi sem kemur þátttakendum okkar og samfélaginu til góða,“ segir Erla. Samfélagssjóður Alcoa var stofnaður fyrir 56 ára árum og hefur frá upphafi veitt yfir 490 milljónir Bandaríkjadala (71 milljarð króna) til samfélagslegra verkefna um allan heim, þar sem fyrirtækið er með starfsstöðvar.  

Samningar við 11 stéttarfélög um þjónustu ráðgjafa

Í síðustu viku voru undirritaðir samningar við 11 stéttarfélög um þjónustu ráðgjafa á höfuðborgarsvæðinu.  Um er að ræða eftirfarandi félög: Rafiðnaðarsamband Íslands Félag vélstjóra og málmtæknimanna Matvís Félag hársnyrtisveina Mjólkurfræðingafélag Íslands Fagfélagið Félag bókagerðarmanna Félag iðn- og tæknigreina Félag leiðsögumanna Flugfreyjufélag Íslands Verkstjórasamband Íslands Til að byrja með verður ráðinn inn einn ráðgjafi til að veita félagsmönnum ofangreindra félaga þjónustu.  Vonast er til að sá ráðgjafi geti tekið fljótlega til starfa. 

Þátttaka í alþjóðlegri rannsókn um mat á starfshæfni

Starfsendurhæfingarsjóður tekur nú þátt í alþjóðlegri rannsókn þar sem er verið að meta ákveðna þætti sem snúa að mati á starfshæfni einstaklinga.  Sérstaklega er verið að skoða hvernig unnt sé að nota aðferðarfræði og þætti ICF (International Classification of Function) við mat og greiningu á starfshæfni/vinnugetu einstaklinga.  Það eru samtök tryggingayfirlækna í Evrópu, EUMASS, sem standa fyrir rannsókninni.  Þetta er fjölstöðva rannsókn þar sem verið er að prófa réttmæti (validation) kjarnasafns (core set) um starfshæfni sem hafa verið þróuð af vinnuhópi um notkun ICF innan EUMASS. Þessi grunnatriði samanstanda af 20 flokkum úr ICF kerfinu sem ætti alltaf að íhuga þegar verið er að meta óvinnufærni til vinnu. Hér á landi hefur Starfsendurhæfingarsjóður fengið sérfræðinga á Reykjalundi og hjá HNLFÍ í Hveragerði til þáttöku í þessu verkefni.  Það eru læknarnir Ólöf H. Bjarnadóttir og Gunnar K. Guðmundsson á Reykjalundi og Jan Triebel í Hveragerði sem taka þátt í þessari spennandi rannsókn með okkur. 

Hafa samband