Fara í efni

Fékk ómetanlega aðstoð sem skipti sköpum

Til baka
Ragnheiður Sumarliðadóttir
Ragnheiður Sumarliðadóttir

Fékk ómetanlega aðstoð sem skipti sköpum

,,Ég veit ekki hvernig þetta hefði endað ef ég hefði ekki notið frábærrar þjónustu Starfsendurhæfingarsjóðs. Ég var ekki bara sárkvalin vegna bakverkja, heldur leið mér einnig illa andlega vegna óvissunnar um hvenær ég gæti snúið aftur til vinnu. Um leið og ég hafði samband við ráðgjafa í starfsendurhæfingu á vegum Kennarasambands Íslands fóru hjólin að snúast. Ég fékk markvissan stuðning til þess að komast sem fyrst til starfa á ný og nú líður mér miklu betur.“

Þetta segir Ragnheiður Sumarliðadóttir leikskólakennari sem varð óvinnufær í maí síðastliðnum eftir að hafa meitt sig í baki en er nú komin í vinnu aftur. ,,Ég hef í gegnum tíðina fundið fyrir verkjum í baki af og til en í maí varð ég fyrir því óhappi að klappstóll sem ég sat á datt undan mér. Þá fór ég alveg í bakinu,“ greinir Ragnheiður frá.

Gríðarlegur sársauki
Hún kveðst hafa leitað til heimilislæknis síns og verið send í veikindaleyfi. ,,Ég fann fyrir gríðarlegum sársauka og gat ekki verið í vinnu. Ég var stöðugt með verki og var send í myndatöku. Í ljós kom slit á hryggjarliðum og ég var í framhaldinu send til sérfræðings. Ég hafði alltaf farið í rúmlega hálfrar klukkustundar göngutúr á hverjum degi en eftir óhappið gat ég það ekki lengur.  Mér var hins vegar ekki bent á hvað ég gæti  gert í staðinn til þess að styrkja mig svo að ég kæmist sem fyrst til vinnu á ný. Ég hefði svo sannarlega þurft á því að halda. Ég vissi ekkert hvað ég mætti  gera og hvað ekki, heldur  fékk ég bara sterkar verkjatöflur. Mér var meira að segja sagt að stundum yrði fólk bara öryrkjar. Ég hafði það jafnvel á tilfinningunni að læknarnir tryðu því ekki að ég væri ekki vinnufær og það bætti ekki andlega líðan mína.“

Fékk loks svör
Að sögn Ragnheiðar var hún send í ómskoðun í ágústbyrjun en vegna sumarleyfis heimilislæknisins dróst það í heilan mánuð að hún fengið að vita niðurstöður úr rannsókninni. ,,Ég leitaði í millitíðinni til trúnaðarlæknis  til þess að fá upplýsingar um stöðu mína en hann benti mér á aðstoðina sem Starfsendurhæfingarsjóður veitir. Í kjölfarið hafði ég samband við Margréti Gunnarsdóttur, ráðgjafa í starfsendurhæfingu hjá Kennarasambandi Íslands, og þá fyrst fór boltinn að rúlla. Margrét útvegaði mér tíma hjá sjúkraþjálfara sem kenndi mér að gera æfingar sem styrktu vöðvana í kringum meinið. Síðan fór ég í þrjá mánuði í líkamsræktarstöð og gerði æfingarnar þar. Þarna fékk ég loks svör við því hvað ég gæti gert til þess að öðlast bata svo að ég kæmistt sem fyrst til starfa á ný.“

Ragnheiður getur þess að andlega líðanin hafi batnað verulega eftir að henni fór að líða betur líkamlega. ,,Bataferlið gekk mjög hratt um leið og tekið var á málunum. Margrét hvatti mig til þess að setja mér það markmið að fara að vinna sem fyrst og heimsækja vinnustaðinn reglulega, að minnsta kosti einu sinni til tvisvar í viku. Ég hafði reyndar heimsótt vinnustaðinn en ekki reglulega og mér var farið að finnast eins og að ég væri að fjarlægjast hann þótt vel hafi verið tekið á móti mér. Það var meðal annars vegna óvissunnar um hvenær ég gæti farið að vinna aftur sem mér leið illa. Eftir að ég fór að ráðum Margrétar fór ég að borða með börnunum á leikskólanum og sækja starfsmannafundi. Þetta gerði mér mjög gott og mér fór að líða betur andlega. Mér fannst ekki lengur eins og að ég væri að detta út af vinnumarkaðnum.“

Byrjuð í hálfu starfi
Nú er Ragnheiður komin til starfa á ný. ,,Ég byrjaði í hálfu starfi þann 1. nóvember síðastliðinn. Ef ég hefði ekki frétt af þjónustu Starfsendurhæfingarsjóðs, sem er manni að kostnaðarlausu, væri ég mögulega enn í veikindaleyfi.  Ég hafði ekki hugmynd um að hægt væri að fá þessa aðstoð og það vissu starfsfélagar mínir ekki heldur.“

Ragnheiður leggur áherslu á að hún sé einnig afar þakklát fyrir eftirfylgnina, eins og hún orðar það. ,,Það er haldið svo vel utan um mann. Ég spjalla enn við Margréti ráðgjafa tvisvar í mánuði. Svo kom sjúkraþjálfarinn á vinnustaðinn minn til þess að fylgjast með hvernig ég beitti líkamanum í vinnunni og benti mér síðan á hvað betur mætti fara. Þetta er alveg ómetanleg þjónusta.“

Lesið fleiri viðtöl við einstaklinga sem hafa náð árangri með aðstoð ráðgjafa stéttarfélagana og VIRK hér.  Sjá einnig "Reynslusögur notenda" hér til vinstri á síðunni.


Fréttir

18.10.2024
05.11.2024

Hafa samband