Fara í efni

Þróunarverkefnið Virkur vinnustaður formlega hafið

Til baka

Þróunarverkefnið Virkur vinnustaður formlega hafið

Þróunarverkefnið Virkur vinnustaður hófst formlega með morgunverðarfundi þann 28. október sl. Verkefnið er til þriggja ára og taka 12 fyrirtæki/stofnanir þátt, en undir þau tilheyra samtals 35 vinnustaðir með tæplega 1600 starfsmönnum. Stjórn VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs ákvað að setja þróunarverkefnið á laggirnar í kjölfar vinnustofu í ársbyrjun 2011 þar sem samankomnir voru fulltrúar atvinnurekenda, stéttarfélaga og starfsmanna VIRK. Tilgangur verkefnisins er að veita stjórnendum og starfsmönnum fræðslu og ráðgjöf við að móta og innleiða stefnu um velferð, fjarvistir og endurkomu til vinnu. Áhersla er lögð á jákvæða og heilsusamlega nálgun.

Nýstofnað fyrirtækjasvið VIRK sér um verkefnið og eru starfsmenn þess Svava Jónsdóttir verkefnastjóri og Hildur Friðriksdóttir sérfræðingur. Í verkefninu verður lögð áhersla á að veita stjórnendum og starfsmönnum fræðslu og ráðgjöf við að móta og innleiða stefnu um velferð, fjarvistir og endurkomu til vinnu. Einnig að aðilar atvinnulífsins og stjórnvöld geti nýtt niðurstöður verkefnisins sem leiðandi aðferð við að skipuleggja og byggja upp árangursríkar leiðir á þessu sviði. Sömuleiðis er markmiðið að ná fram viðhorfsbreytingu þannig að gert sé ráð fyrir að allir hafi hlutverk í atvinnulífinu þrátt fyrir skerta starfsgetu af ólíkum ástæðum.

Þau fyrirtæki og stofnanir sem taka þátt í verkefninu eru Leikskólasvið Garðabæjar sem er með 5 leikskóla, verslunin IKEA, Sjáland, einkarekinn leikskóli í Garðabæ, stjórnsýsla Mosfellsbæjar auk tveggja leikskóla og íþróttamiðstöðva, Kennarasamband Íslands, VÍS tryggingafélag, sjávarútvegsfyrirtækið Vísir í Grindavík, á Húsavík og Djúpavogi, stéttarfélagið VR, sex leikskólar á vegum Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og á Akureyri taka, Norðlenska, öldrunarheimilin, lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri og leikskólinn Pálmholt þátt.

Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK benti á, í erindi sínu „Finnum nýjar leiðir" á morgunverðarfundinum sl. föstudag, að besta forvörnin gegn því að missa fólk út af vinnumarkaði sé í fyrirtækjunum sjálfum. Rannsóknir og reynsla sýni að mjög oft sé hægt að koma í veg fyrir að heilsubrestur valdi skertri starfsgetu með því að grípa inn í veikindaferli með ýmsum viðbrögðum og stuðningi á vinnustað.

Svava Jónsdóttir kynnti verkefnið Virkur vinnustaður og sagði meðal annars að markmiðið væri að innan vinnustaðanna yrði brugðist við veikindum með fyrirsjáanlegum hætti og vísaði þar í bókun í kjarasamningum aðildarsamtaka ASÍ og SA, sem undirritaður var 5. maí 2011. Hún nefndi einnig að markmiðið sé að á vinnustöðunum verði til yfirlýst stefna og markvissar leiðir sem stuðli að forvörnum og skapi aðstæður til árangursríkrar endurkomu til vinnu eftir veikindi eða slys. Sé slík stefna til staðar aukist möguleikar einstaklinganna á að koma aftur til vinnu í samræmi við vinnugetu sína á hverjum tíma.

VÍS er eitt af þátttökufyrirtækjum í verkefninu og jafnframt eitt af fyrirmyndafyrirtækjum VR.  Anna Rós Ívarsdóttir framkvæmdastjóri starfsmannasviðs VÍS flutti erindi á fundinum og sagði að ein af ástæðum fyrir þátttöku VÍS í verkefninu væri sú að fyrirtækið vildi sýna samfélagslega ábyrgð og að áhersla á forvarnir í verkefninu falli vel að forvarnarstefnu VÍS. Síðan greindi hún frá forvörnum á eigin vinnustað, reynslu fyrirtækisins af heilsueflingu og starfsmannamálum og ræddi um hvernig verkefnið er fellt inn í markmið og stefnu fyrirtækisins.

Fyrirlestur Sverris Ragnarssonar framkvæmdastjóra og eiganda Door Training & Consulting Iceland nefndist Galdrakarlinn í Oz. Hann leiddi fólk í gegnum grundvallarreglur Oz þar sem megin skilaboðin eru að fólk taki ábyrgð á verkum sínum. Hann benti á að hver og einn starfsmaður væri 100% ábyrgur í starfi sínu og þeim verkefnum sem hann tekur þátt í. Hins vegar sé það í mannlegu eðli að varpa ábyrgðinni yfir á aðra með einhverjum hætti ef ekki tekst nógu vel til. Einnig nefndi hann hversu mikilvægt það er að búa til upplifun þegar verkefni hefjast þannig að starfsfólkið eigni sér sinn hluta og taki þátt í verkefninu heils hugar og sýni þar með fulla ábyrgð.  


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband