Fara í efni

Fréttir

VIRK framtíð

Í vetur hefur verið unnið á markvissan hátt að mótun á framtíðarsýn og stefnu VIRK.  Niðurstöður þessarar vinnu voru kynntar á ársfundi VIRK í apríl síðastliðnum m.a. með útgáfu á sérstökum bæklingi sem ber heitið "VIRK framtíð".  Rafræna útgáfu af þessum bæklingi er að finna hér á heimasíðunni (sjá einnig hér til vinstri á heimasíðunni undir "Stefnur og reglur VIRK"). Í þessu samhengi hefur m.a. verið mótuð metnaðarfull framtíðarsýn VIRK til ársins 2020: Framtíðarsýn til 2020: VIRK hefur í samstarfi við fagaðila, fyrirtæki og stofnanir skilað samfélagslegum ávinningi þar sem dregið hefur verulega úr nýgengi á örorku VIRK byggir á gagnreyndri þekkingu, rannsóknum og reynslu sem tryggir samþætta, árangursríka og örugga þjónustu á sviði starfsendurhæfingar VIRK hefur í samvinnu við fagaðila, fyrirtæki og stofnanir unnið að því að ryðja úr vegi  hindrunum gegn aukinni atvinnuþátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu VIRK er virt þekkingarsetur og er leiðandi í rannsóknum og þróun á sviði starfsendurhæfingar Í bæklingnum VIRK framtíð er að finna nánari upplýsingar um hlutverk, framtíðarsýn og gildi VIRK auk helstu þætti starfsáætlunar fyrir tímabilið 2013-2014.

Tveir nýir ráðgjafar hófu störf í byrjun maí

Þórarinn Þórsson er nýr ráðgjafi hjá VR. Hann lauk B.a. gráðu til starfsréttinda í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 2006 og diplóma gráðu í áfengis og vímuefnamálum árið 2008 frá Háskóla Íslands. Hann starfaði sem félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg frá árinu 2006, á Þjónustumiðstöð Vesturbæjar. Í því starfi sinnti hann meðal annars starfsendurhæfingu og ráðgjöf fyrir atvinnuleitendur. Frá árinu 2010 hefur Þórarinn starfað sem stundakennari við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands. Ásdís Sigurjónsdóttir er nýr ráðgjafi sem ráðinn hefur verið til starfa hjá stéttarfélögunum á Austurlandi. Hún útskrifaðist með BS gráðu í iðjuþjálfunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri 2001 og hefur starfað sem iðjuþjálfi við Heilbrigðisstofnun Austurlands síðan í júlí það ár og starfar þar enn í hlutastarfi. Þar hefur hún sinnt mjög fjölbreyttum verkefnum m.a. á sviði endurhæfingar. Ásdís stundar nú meistaranám í heilbrigðisvísindum við Háskólann á Akureyri. Ásdís er með starfsstöð hjá stéttarfélögunum á Austurlandi, á Reyðarfirði og á Egilsstöðum.

Tilvísunarblað til VIRK nú aðgengilegt í Sögu á landsvísu

Á síðasta ári var útbúið hjá VIRK tilvísunarblaðið „Beiðni læknis um þjónustu hjá VIRK“. Það hefur verið aðgengilegt á heimasíðu VIRK og verður það áfram. Hægt er að nálgast eyðublaðið hér.  Nú er eyðublaðið einnig aðgengilegt í Sögu, rafrænni sjúkraskrá, sem notuð er fyrir rafræna skráningu og úrvinnslu heilbrigðisgagna á öllum helstu heilbrigðisstofnunum landsins.  Eyðublaðið heitir „Beiðni um þjónustu hjá VIRK“ í Sögu og kom inn í útgáfu 35. Kerfisstjórar stofnana þurfa að virkja eyðublaðið til að það verði aðgengilegt.

Ársrit um starfsendurhæfingu

VIRK hefur gefið út Ársrit um starfsendurhæfingu 2013.  Í ritinu eru ýmsar áhugaverðar upplýsingar um starfsemi VIRK, viðtöl við ýmsa samstarfsaðila VIRK auk þess sem margir sérfræðingar og fræðimenn á sviði starfsendurhæfingar skrifa mjög áhugaverðar greinar í ársritið.  Hægt er að nálgast rafræna útgáfu af tímaritinu hér (sjá einnig undir "KYNNINGAREFNI" hér til vinstri á heimasíðunni) og einnig er hægt að nálgast eintak af tímaritinu á skrifstofu VIRK eða hjá ráðgjöfum VIRK um allt land.

Tveir nýir ráðgjafar hófu störf í byrjun apríl

Hildur Gestsdóttir hóf störf hjá stéttarfélögunum á Suðurlandi og er með aðsetur á Selfossi. Hún lauk námi í félagsráðgjöf frá Den Sociale Höjskole í Kaupmannahöfn árið 2007. Eftir útskrift vann hún í eitt ár sem félagsráðgjafi í vinnumiðstöð (jobcenter) í Danmörku. Árið 2008 flutti hún til Íslands og vann í eitt ár sem félagsráðgjafi í Vesturgarði, Þjónustumiðstöð Vesturbæjar. Frá 2009 - 2012 starfaði hún sem félagsráðgjafi hjá sveitarfélaginu Árborg. Brynhildur Barðadóttir er nýr ráðgjafi hjá stéttarfélaginu Hlíf í Hafnarfirði, en hún er fyrsti ráðgjafinn sem er ráðinn beint til starfa hjá Hlíf og er hún með aðsetur þar. Hingað til hafa ráðgjafar Eflingar í Reykjavík sinnt félagsmönnum Hlífar. Brynhildur útskrifaðist með BA gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands árið 1993 og MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu árið 2007. Hún er einnig menntaður lyfjatæknir. Brynhildur hefur víðtæka starfsreynslu á sviði velferðarþjónustu hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem hún gegndi starfi félagsmálastjóra á Ísafirði um tveggja ára skeið. Hún starfaði í fimm ár hjá Rauða krossi Íslands við þróun úrræða og stofnun á t.d. Konukoti, fyrir heimilislausar konur, Hjálparsíma 1717 og sem forstöðumaður Rauðakrosshússins. Hjá Hafnarfjarðarðarbæ starfaði hún um tíma sem sérfræðingur á sviði uppbyggingar úrræða fyrir atvinnuleitendur.

Um 300 manns á ársfundi og ráðstefnu VIRK

Um 300 manns mættu á ársfund og ráðstefnu VIRK þann 11. apríl sl.  Ársfundurinn var fyrir hádegið og fjölmenn og vel heppnuð ráðstefna undir yfirskriftinni "Mat á getu til starfa - hvað skiptir máli?" var haldin eftir hádegið.  Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar var Sir Mansel Aylward frá Bretlandi og var fyrirlestur hans sérstaklega áhugaverður og vakti mikla athygli fundargesta.  Aðrir fyrirlesrar á ráðstefnunni voru Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, Guðmundur Björnsson endurhæfingar- og trúnaðarlæknir, Haraldur Jóhannsson yfirlæknir hjá TR og Ása Dóra Konráðsdóttir sviðsstjóri Starfsendurhæfingarsviðs VIRK.  Allar glærur fyrirlesara er að finna hér á heimsíðunni undir Kynningarefni - sjá einnig hér.  Á sama stað er hægt að nálgast Ársrit VIRK á rafrænu formi. Myndir frá ársfundi og ráðstefnunni er að finna hér

Ráðstefna á vegum VIRK: Að meta getu til starfa - Hvað skiptir máli?

Við viljum minna á fagráðstefnu á vegum VIRK sem haldin verður fimmtudaginn 11.apríl kl.13:00 - 16:30 á Grand Hótel Reykjavík (Gullteig). Aðal fyrirlesari er Mansel Aylward frá Centre for Psychosocial and Disability Research í Bretlandi og fjallar fyrirlestur hans um hugmyndir og breytingar í þróun á starfsgetumati. Aðrir fyrirlesarar eru Ása Dóra Konráðsdóttir, sviðsstjóri starfsendurhæfingar VIRK, Guðmundur Björnsson, endurhæfingar- og trúnaðarlæknir, Haraldur Jóhannsson, yfirlæknir læknisfræðilegrar ráðgjafar hjá TR og Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK. Nánari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar er að finna hér Nauðsynlegt er að skrá þátttöku á ráðstefnuna hér

Ársfundur VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs 2013

Nú fer senn að líða að ársfundi VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs sem verður haldinn þann 11. apríl á Grand hótel. Dagskráin er tvískipt. Fyrir hádegi fara fram hefðbundin ársfundarstörf krydduð með fyrirlestrum um starfsendurhæfingu. Eftir hádegi sláum við síðan upp fagráðstefnu með þemanu „Að meta getu til starfa – Hvað skiptir máli?“ Ársfundurinn er öllum opinn en einnig er hægt að taka einungis þátt í fagráðstefnunni eftir hádegi, frá kl. 13:00 – 16:20. Nauðsynlegt er að skrá þátttöku á fagráðstefnu hér

Nýr sérfræðingur hjá VIRK

Jónína Waagfjörð hefur verið ráðin sem verkefnastjóri hjá VIRK fyrir þróunarverkefnið Virkur vinnustaður. Hún er sjúkraþjálfari frá Háskóla Íslands og hefur starfað sem slíkur í yfir 20 ár. Árið 1989 útskrifaðist hún með MSc gráðu innan taugasjúkdóma og hreyfistjórnunar frá Boston University í Bandaríkjunum. Eftir útskrift starfaði hún í Bandaríkjunum við sjúkraþjálfun þar sem hún kenndi sjúkraþjálfun við University of South Alabama og vann einnig við meðhöndlun sjúklinga. Síðustu 3 árin starfaði hún sem yfirmaður endurhæfingarstöðvar í úthverfi Detroit í Michigan fylki. Eftir heimkomu tók Jónína við lektorsstöðu við læknadeild Háskóla Íslands innan sjúkraþjálfunar og rannsóknastöðu við Landspítala Háskólasjúkrahús og starfaði við það í 4 ár þar til hún flutti til Bretlands. 

Nýir ráðgjafar á Austfjörðum og í Vestmannaeyjum

Tveir nýir ráðgjafar í starfsendurhæfingu hafa verið ráðnir til starfa hjá stéttarfélögum í samstarfi við VIRK. Erla Jónsdóttir er nýr ráðgjafi sem ráðinn hefur verið til starfa hjá stéttarfélögunum á Austfjörðum. Erla útskrifaðist frá Þroskaþjálfaskóla Íslands árið 1986 og vann um árabil sem þroskaþjálfi á Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Austurlandi, auk þess að reka eigið fyrirtæki um 5 ára skeið. Á árunum 2007 - 2012 starfaði hún sem framkvæmdastjóri og ráðgjafi starfsendurhæfingar Austurlands. Erla er með starfsstöð hjá stéttarfélögunum á Austurlandi, á Reyðarfirði og á Egilsstöðum. Georg Ögmundsson hefur verið ráðinn sem ráðgjafi hjá stéttarfélögunum í Vestmannaeyjum. Georg útskrifaðist sem sjúkraþjálfari frá Háskóla Íslands árið 2002 og lauk diplómanámi í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011. Hann starfaði sjálfstætt sem sjúkraþjálfari um fimm ára skeið en hefur frá árinu 2007 unnið hjá Fjarðaráli við umhverfis-, heilsu- og öryggismál. Georg er með aðsetur hjá VR í Vestmannaeyjum.

Hafa samband