Fara í efni

Árangursríkt starf starfsmanna í velferðarþjónustu um allt land

Til baka

Árangursríkt starf starfsmanna í velferðarþjónustu um allt land

Í kjarasamningum á árinu 2008 var samið um starfsemi VIRK og fyrstu ráðgjafar VIRK hófu störf á árinu 2009.  Síðan þá hafa um 4500 einstaklingar leitað til VIRK og um 2000 einstaklingar hafa lokið þjónustu.  Flestir sem útskrifast frá VIRK hafa getu til þátttöku á vinnumarkaði á ný. 

Á sama tíma og uppbygging VIRK hefur átt sér stað hefur þjóðin gengið í gegnum eitt mesta efnahagshrun síðari ára með miklu atvinnuleysi og erfiðleikum hjá fjölda fólks.  Það var og er ástæða til að óttast að þessar aðstæður valdi því að fleiri einstaklingar en áður búi við skerta starfsgetu og fari á örorkulífeyri til lengri tíma.  Rannsóknir og reynsla bæði hérlendis og erlendis hafa einnig sýnt fram á slæm áhrif langtíma atvinnuleysis á heilsu og vinnugetu einstaklinga.

Fróðlegt er að skoða tölur sem liggja fyrir hjá Tryggingastofnun um nýgengi einstaklinga á endurhæfingar- og örorkulífeyri undanfarin ár.  Myndirnar hér að neðan sýna fjölda nýrra einstaklinga á endurhæfingarlífeyri (mynd 1) og örorkulífeyri (mynd 2) á árunum 2005-2012.  Eins og sjá má á hefur þróunin ekki orðið sú að fjöldi nýrra einstaklinga inn á þessar bótagreiðslur hafi aukist mikið milli ára frá hruni.  Sum árin hefur jafnvel dregið úr fjölda nýrra einstaklinga á endurhæfingarlífeyri eins og t.d. á milli áranna 2009 og 2010 og fjöldi nýrra örorkulífeyrisþega á árinu 2012 er t.d. færri en var á árinu 2005.

Mynd 1

Mynd 2

Upplýsingar frá TR benda einnig til þess að hlutfallslega færri einstaklingar fari nú af endurhæfingarlífeyri inn á örorkulífeyri en áður var.  Af þeim sem voru með endurhæfingarlífeyri árið 2008 voru um 48% komnir á örorku árið 2012 en um 38% af þeim sem voru með endurhæfingarlífeyri árið 2010 voru komnir á örorku í lok árs 2012.

Áhrifaþættir þessara stærða eru í eðli sínu margir í okkar flókna velferðarkerfi.  Það er þó ljóst að starfsmenn fjölmargra velferðarstofnanna og félaga í samfélaginu hafa lagt mikið á sig til að reyna að lágmarka eins og unnt er skaðleg áhrif kreppunnar og koma í veg fyrir að langtímaatvinnuleysi og fjárhagsáhyggjur leiði til skertrar starfsgetu og óvirkni.  Þannig hafa Vinnumálastofnun og STARF unnið mjög gott starf við að virkja atvinnuleitendur með fjölbreyttum átaksverkefnum og tilboðum um nám, námskeið, vinnuprófanir og fleira. Tryggingastofnun hefur einnig lagt sig fram um að nýta þær heimildir sem stofnunin hefur og gera auknar kröfur um starfsendurhæfingu hjá einstaklingum sem fá endurhæfingarlífeyri.  Ráðgjafar VIRK, starfsendurhæfingaraðilar og aðrar velferðarstofnanir um allt land hafa gert Tryggingastofnun kleift að fylgja þessum kröfum eftir því frá árinu 2009 hefur starfsendurhæfingarþjónusta verið til staðar fyrir þá einstaklinga sem hafa þurft á henni að halda.

Á þessum tíma hefur verið byggð upp öflug starfsendurhæfingarþjónusta um allt land á vegum VIRK og í samvinnu við stéttarfélög og fjölda annarra aðila.  Nú eru starfandi hjá stéttarfélögum um 40 ráðgjafar og VIRK hefur gert  samninga við fjölda úrræðaaðila og starfsendurhæfingarstöðvar um allt land til að tryggja einstaklingum fjölbreytta ráðgjöf, þjónustu og  úrræði við hæfi.  Að þessu starfi kemur því fjöldi fagaðila sem vinnur markvisst að því að bæta vinnugetu og lífsgæði fólks sem þarf á stuðningi að halda í kjölfar veikinda eða slysa.  Þessi þjónusta á án efa sinn þátt í því að færri einstaklingar hafa farið á örorkulífeyri en búast mátti við í kjölfar hrunsins enda hafa um 2000 einstaklingar lokið starfsendurhæfingu á vegum VIRK og flestir þeirra eru með vinnugetu að fullu eða hluta við útskrift.   Starfsendurhæfing skilar árangri – bæði fjárhagslegum og í formi aukinna lífsgæða og er því án efa arðbær fjárfesting fyrir einstaklinga og þjóðfélagið.

Það er ástæða til að benda á það sem vel er gert í okkar samfélagi og það er ljóst að starfsmenn innan velferðarþjónustunnar í heild sinni -  hvort sem um er að ræða VIRK, TR, STARF, Vinnumálastofnun, aðrar velferðarstofnanir eða úrræðaaðila - hafa á undanförnum árum lyft grettistaki í að sporna við alvarlegum áhrifum kreppunnar á starfsgetu einstaklinga til framtíðar.   Hér er um að mjög marga starfsmenn sem hafa oft á tíðum lagt nótt við dag til að byggja upp og tryggja góða og faglega þjónustu í samræmi við þarfir einstaklinga. 

Á sama tíma er líka rétt að benda á að enn er mikið verk óunnið á þessu sviði.  Búast má við að það muni taka langan tíma að vinna úr afleiðingum kreppunnar til framtíðar.  Nú stöndum við t.d. frammi fyrir því að stærri hópur en nokkru sinni fyrr hefur verið atvinnulaus í mjög langan tíma og það getur haft alvarlegar afleiðingar á starfsgetu þessara einstaklinga til framtíðar.  Áhrif kreppunnar hvað þetta varðar eru því að öllum líkindum ekki að fullu komin fram og því er gríðarlega mikilvægt að gera enn betur en áður.   Til þess eru ýmsar færar leiðir.  Má þar benda á tækifæri sem felast í aukinni samvinnu stofnanna innan velferðarkerfisins, uppbyggingu á starfsgetumati í stað örorkumats, endurskoðun bótakerfisins og skýrari stefnumótun í þessum málaflokki í heild sinni. 


Fréttir

06.06.2024
30.04.2024

Hafa samband