Fara í efni

Fréttir

Viltu senda hrós?

Í tilefni af geðverndarvikunni þá hefur VIRK sett upp á heimasíðu sína  skemmtilegan möguleika þar sem fólk getur sent rafræn póstkort til vinnufélaga, vina,  fjölskyldu eða einhvers sem það telur að eigi hrós skilið – svokölluð gleðikort – þar sem komið er á framfæri hrósi og jákvæðum umsögnum.  Allir geta nýtt sér þessi kort án endurgjalds og ekki bara í geðverndarvikunni heldur allt árið um kring.  Sjá sérstakan hnapp hægra megin á heimasíðunni. Það eykur starfsánægju og almenna vellíðan fólks að byggja upp og stuðla að gleði og jákvæðu andrúmslofti á vinnustöðum sem og í samfélaginu almennt. Hluti af ánægju og vellíðan er að fá hrós  og það kostar þann ekkert sem gefur.  VIRK vill því hvetja alla til að nýta sér gleðikort VIRK og stuðla á þann hátt að aukinni jákvæðni og vellíðan í samfélaginu.

Fjarverusamtalið uppfært

Eftir góðar ábendingar frá þátttakendum í verkefninu Virkum vinnustað og frá starfsfólki stéttarfélaga hefur Fjarverusamtalið verið uppfært og er hægt að nálgast þriðju útgáfuna hér. Fjarverusamtalið er dæmi um samtalsramma sem hægt er að nota í trúnaðarsamtali milli stjórnenda og starfsmanns sem hefur verið í skammtímafjarveru frá vinnu. Samtalið er liður í fjarverustefnu vinnustaðarins. 

Nýr ráðgjafi á Akureyri

Nýr ráðgjafi í starfsendurhæfingu,  Dalrós Jóhanna Halldórsdóttir, hefur tekið til starfa hjá stéttarfélögum á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæði, í samstarfi við VIRK. Dalrós útskrifaðist sem félagsráðgjafi frá Háskólanum í Árósum í janúar 2004. Undanfarin sjö og hálft ár hefur hún starfað hjá Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar, lengst af við vinnslu barnaverndarmála. Hún útskrifaðist sem PMT meðferðaraðili fyrir rúmu ári, en hún hefur síðastliðin þrjú ár unnið að hluta við að þróa meðferðarúrræði byggt á hugmyndafræði PMT fyrir foreldra unglinga í vanda. PMT stendur fyrir Parent manegement training ( foreldrafærni ) með það að markmiði að fyrirbyggja alvarlega hegðunarerfiðleika og taka markvisst á hegðun barna með því að auka færni foreldra með hugmyndafræði PMT. Dalrós er með aðsetur hjá Einingu – Iðju á Akureyri.

Leiðbeiningar um samskipti í skammtímaveikindum

Reynslan hefur sýnt að opinská umræða á vinnustöðum um fjarveru vegna veikinda er jákvæð og getur dregið úr fjarveru. Tilgangurinn er ekki að taka réttmæta veikindadaga af starfsfólki heldur að skapa skýrar línur um veikindafjarveru, samskiptaferli og búa til formlegan vettvang til að ræða fjarveru starfsmanns frá vinnu þegar við á.   Æskilegt er að á hverjum vinnustað sé til stefna um vellíðan, fjarveru og endurkomu til vinnu. Hér má finna dæmi um slíkar stefnur, en í þeim er lögð áhersla á að starfsfólki sé gerð grein fyrir þeim viðmiðum sem gilda á vinnustaðnum um tilkynningar fjarveru, skil á læknisvottorði eða hvenær fjarverusamtal fer fram.  Aðalatriðið er að allir viti hvaða reglur gilda og að reglurnar eigi við um allt starfsfólk. Sjá leiðbeiningar til starfsfólks um samskipti yfirmanns og starfsmanns í skammtímaveikindum.

Þróun á starfsgetumati vekur athygli

Norræn ráðstefna um starfsendurhæfingu var haldin í Grenå í Danmörku í síðustu viku.  Þessi ráðstefna var mjög áhugaverð þar sem bæði var farið yfir mismunandi bótakerfi Norðurlanda, fyrirkomulag starfsendurhæfingar og niðurstöðu reynslu og rannsókna á sviði starfsendurhæfingar á Norðurlöndunum.  Ráðstefnuna sóttu 180 manns og komust mun færri að en vildu.  Á þessari ráðstefnu héldu fulltrúar VIRK erindi m.a. um starfsemi VIRK og þá þróun sem hefur átt sér stað hjá VIRK undanfarin 4 ár við uppbyggingu starfsgetumats.  Starfsgetumatið sem hefur verið í þróun hjá VIRK byggir m.a. á tilteknum kjarnasöfnum ICF og er ferill hvatningar og íhlutunar auk þess sem áhersla er lögð á þverfaglega aðkomu að flóknum málum og mikilvægi samvinnu við mismunandi fagfólk og stofnanir um allt land.  Á ráðstefnunni var bæði farið yfir uppbyggingu og hugmyndafræði matsins og eins farið yfir ýmsa tölfræði um notkun og árangur.  Þessar kynningar vöktu mikla athygli annarra ráðstefnugesta og fjölmargar fyrirspurnir og óskir um samstarf á þessum vettvangi bárust frá fulltrúum annarra Norðurlanda á þessari ráðstefnu.

Þættir sem taldir eru geta skipt máli við mat á starfshæfni

Í maí síðastliðnum birti tímaritið International Archives of Occupational and Environmental Health niðurstöður hollenskrar rannsóknar um helstu þætti sem skipt geti máli við mat á starfshæfni hjá einstaklingum sem verið hafa í langvarandi veikindaleyfi (tvö ár). Alls tóku 102 læknar þátt í rannsókninni og voru niðurstöður þær að níu þættir voru taldir skipta hvað mestu máli við mat á starfshæfni eftir langvarandi veikindaleyfi. Af þessum níu þáttum voru fimm þættir taldir geta stuðlað að afturhvarfi til vinnu og fjórir taldir geta hindrað afturhvarf til vinnu. 

Aðkoma ráðgjafa VIRK að gerð endurhæfingaráætlana

Eitt af hlutverkum ráðgjafa VIRK er að vinna starfsendurhæfingaráætlun með einstaklingum sem eru í þjónustu. Við upphaf þjónustu er unnið grunnmat sem m.a. felst í upplýsingaöflun um stöðu og líðan einstaklings, kortlagningu á styrkleikum og hindrunum og þarfagreiningu varðandi endurhæfingarleiðir. Í kjölfarið er í samráði við meðhöndlandi lækni og eftir atvikum aðra meðferðaraðila, sett upp áætlun um endurkomu til vinnu / starfsendurhæfingaráætlun. Þegar heilsufarsvandi er flókin fer einstaklingur í ítarlegra mat, svokallað sérhæft mat og byggir þá starfsendurhæfingaráætlun á niðurstöðum þess. Þegar einstaklingur í þjónustu VIRK hefur þörf fyrir endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins kemur ráðgjafi að gerð, utanumhaldi og eftirfylgd með endurhæfingaráætlun. Mikið er um að einstaklingum sé vísað til ráðgjafa vegna endurhæfingaráætlunar. Ráðgjafar VIRK geta ekki búið til endurhæfingaráætlun fyrir TR við fyrstu komu einstaklings til ráðgjafa. Ef bráð þörf er á framfærslu og læknir búinn að senda vottorð vegna endurhæfingarlífeyris til TR eru vinnureglur VIRK eftirfarandi:

Nýr sérfræðingur hjá Virk

Ingibjörg Loftsdóttir hefur verið ráðin í starf sérfræðings á starfsendurhæfingarsviði. Hún útskrifaðist með B.sc gráðu í sjúkraþjálfun frá HÍ 1989. Hún er einnig með M.sc gráðu í heilbrigðisvísindum frá HA 2007 og M.sc gráðu í stjórnun heilbrigðisþjónustu og lýðheilsu frá HR 2010. Ingibjörg hefur starfað sem sjúkraþjálfari hérlendis og erlendis til fjölda ára m.a. í Bandaríkjunum þar sem hún vann bæði sem ráðgefandi sjúkraþjálfari og yfirsjúkraþjálfari. Þar vann hún einnig á þverfaglegri deild í starfsendurhæfingu.

Góð reynsla stjórnanda af starfsþjálfun

Reynsla Önnu Lindu Bjarnadóttur héraðsdómslögmanns á lögmannsstofunni Lexistu ehf. af því að taka starfsmann í starfsþjálfun er það góð að hún hefur hug á því að taka fleiri í þjálfun í framtíðinni. „Ég tel að samfélagið eigi að bjóða upp á vinnu og störf fyrir alla þá sem vilja og geta unnið úti,“ segir hún í samtali við blaðamann VIRK. Anna Linda segist smám saman hafa áttað sig á því hvar styrkleikar starfsmannsins lágu. „Margrét er einstaklega töluglögg manneskja og eldsnögg að reikna út. Ég fór að einbeita mér að því að finna verkefni sem tengdust því. Ég bað hana að setja upp fyrir mig skjöl í Excel, svo sem drög að úthlutun fyrir dánarbú, og fleira. Þetta gerði hún mjög vel. Í öðru máli fékk hún það verkefni að gera greiningu á gengisþróun japanska yensins, hún var frekar kvíðin fyrir því, en ég sagði að hún gæti þetta alveg úr því hún hafði leyst hin verkefnin. Auðvitað fékk hún leiðbeiningar og ég fylgdist vel með framvindu verksins. Hún gerði þetta mjög vel, setti upp alls kyns töflur á svo flottan hátt að ég hefði sjálf aldrei getað gert betur.“ Sjá viðtalið Lengi skal manninn reyna við Önnu Lindu Bjarnadóttur og Margréti Guðfinnsdóttur.

Jákvæðar breytingar eftir sjö mánuði

Jákvæð breyting hefur orðið á viðhorfi starfsfólks til veikindafjarveru, það er umburðarlyndara, samkenndin er meiri og augu starfsfólks hafa opnast fyrir lausnarmiðuðu starfi. Þetta er hluti af mati stjórnenda þeirra 26 vinnustaða sem eru þátttakendur í þróunarverkefninu Virkum vinnustað eftir sjö mánaða þátttöku. Síðastliðið vor skiluðu allir vinnustaðirnir framvinduskýrslu sem helstu niðurstöður hafa verið unnar upp úr. Í ljós kom einnig að fræðslufyrirlestrar á vegum VIRK, verkefnavinna starfsfólks um hvað er jákvætt og hvað mætti betur fara, auk opinna umræðna í kjölfarið, virðast hafa skilað mestum árangri um breytt viðhorf. 

Hafa samband