Fara í efni

Fréttir

Hreyfitorg; formleg opnun og málþing 13. september

Gagnvirki vefurinn Hreyfitorg verður opnaður með formlegum hætti föstudaginn 13. september  kl. 14. Í tilefni opnunarinnar verður á sama tíma haldið málþingið Þjálfun almennings - ábyrg þjónusta, upplýst val.

Nýir ráðgjafar

Tveir nýir ráðgjafar hófu störf hjá okkur í sumar. Það eru þær Heiða Kristín Harðardóttir sem verður hjá VR og Guðrún Guðmundsdóttir hjá sameinaða lífeyrissjóðnum.

Með jákvæðni að vopni

„Mér finnst gott að geta sagt, ég er upptekin, ég er að vinna til klukkan fimm virka daga,“ segir Katrín Björg Andersen þegar hún er spurð hvenær dagsins hún hafi tíma til að segja frá reynslu sinni. Hún  var utan vinnumarkaðar í tvö ár, það kom ekki til af góðu. „Fyrir réttum tveimur árum, í lok ágúst 2011 hitti ég fyrst ráðgjafa hjá VIRK,“ segir Katrín Björg þegar við höfum komið okkur fyrir í vistlegri stofu á heimili fjölskyldunnar í Mosfellsbæ. „Þegar ég mætti hjá ráðgjafanum vissi ég ekki hvað væri framundan eða hvernig ég ætti að snúa mér í mínum veikindum, sem enginn vissi þá af hverju stöfuðu. Tveir ráðgjafar hjá VIRK komu að máli mínu þessi tvö ár og leiddu mig með úrræðum sínum í gegnum þetta langa ferli. Margt reyndist í boði og ég ákvað strax að vera dugleg að prófa og nýta mér þau úrræði sem buðust. Ég fékk alla aðstoð sem ég þurfti með því einu að mæta á fundi hjá VIRK. Báðir ráðgjafarnir, sem ég skipti við, voru afskalega duglegir að finna úrræði og opna fyrir mér leið mér sem áður virtist algerlega lokuð. Þegar ég hugsa til baka finnst mér ógnvekjandi hve vonlaus ég var fyrir réttum tveimur árum.

Starfsgeta, þátttaka og velferð

Vinna er einstaklingum yfirleitt mjög mikilvæg. Það skiptir máli fyrir okkur öll að hafa hlutverk í lífinu, geta séð sjálfum okkur farborða og verið fjárhagslega sjálfstæð. Vinnan mótar einnig félagslega stöðu, sjálfsmynd og þroska einstaklinga þar sem þeim gefast tækifæri til að mynda fjölbreytt félagsleg tengsl og takast á við nýjar áskoranir í samskiptum. Rannsóknir hafa sýnt að löng fjarvera frá vinnumarkaði ógnar heilsu og lífsgæðum einstaklinga meira en margir lífshættulegir sjúkdómar. Þátttaka á vinnumarkaði hefur almennt jákvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu einstaklinga — einnig þeirra einstaklinga sem glíma við varanlegan heilsubrest af ýmsum toga (Waddel & Burton, 2006). Einnig hefur t.d. verið sýnt fram á það í erlendum rannsóknum að ungir karlar sem hafa verið án vinnu í 6 mánuði eru sex sinnum líklegri en aðrir til að taka sitt eigið líf (Waddell & Aylward , 2005).

Það skiptir máli að huga að heilsu og velferð starfsmanna

Það er hagur samfélagsins að stemma stigum við stöðugt vaxandi heilbrigðiskostnað.  Litið er í ríkara mæli til vinnustaðarins og mögulegt hlutverk hans í því að leysa þetta vandamál.  Það er eðlilegt að líta á vinnustaðin sem álitlegan stað til að takast á við sjúkdómsvarnir og seta af stað velferðarprógrömm til að bæta heilsu þar sem flest vinnandi fólk eyðir meiripartinum af deginum í vinnunni.  Í nýlegri samantekt, sem birtist í blaðinu Mayo Clinic Proceedings, þar sem áhrif heilsu- og velferðarprógramma á vinnustaði eru skoðuð, kemur í ljós að þau eru víðtæk.  Rannsóknir hafa sýnt fram á að fjárfestingar fyrirtækja í heilsu- og velferðarprógrömmum eru arðbærar.  Rannsóknir hafa einnig sýnt að draga má úr veikindafjarveru (bæði almennri veikindafjarveru og einnig veru starfsmanna í vinnunni þegar þeir eru veikir (presenteeism))  hjá þeim fyrirtækjum sem leggja áherslu á slík prógrömm.  Sýnt hefur verið fram á að fyrirtæki sem fjárfesta í slíkum prógrömmum ná fram lækkun á heilbrigðiskostnaði og kostnaði vegna hinna ýmsu bóta (þar með talið örorkubóta) sem launafólk fær sem nemur yfir 25% í samanburði við fyrirtæki sem ekki gera sambærilegar fjárfestingar.  Niðurstöður rannsókna benda einnig til að heilsu- og velferðarprógrömm bæti starfsánægju og starfsanda á vinnustöðum en það getur skipt máli þegar verið er að reyna að ráða nýja starfsmenn, halda í góða starfsmenn og einnig fyrir almenna ímynd fyrirtækisins. 

Hræðsla við verki getur tafið fyrir bata

Verkir og eymsli geta eðlilega valdið áhyggjum og hræðslu. Hræðslan getur orðið til þess að fólk hættir að framkvæma hreyfingar sem valda þeim sársauka. Í stað þess að leiða til bata getur slík hegðun í sumum tilfellum leitt til stirðleika og kraftminnkunar sem smám saman veldur því að fólk hættir jafnvel að geta gert hluti sem það var vant að gera. Með tímanum getur hræðslan við verkina jafnvel orðið aðalvandinn í stað verkjanna sjálfra. Þetta á ekki hvað síst við um bakverki. Verkjatengd hræðsla getur jafnvel aukið líkur á því að fólk fái nýtt bakverkjakast eða því að bakverkir verði að langvarandi vandamáli. Rannsóknir benda til að árangur meðferðar við bakverkjum sé meiri ef tekið er markvisst á hræðslu við verki og því hreyfingaleysi sem hún veldur m.a. með uppbyggjandi fræðslu. Þetta og margt fleira athyglisvert kemur fram í greinum annars vegar Leeuw og félaga sem birtist í febrúarhefti Journal of Behavioral Medicine árið 2007 og hins vegar Rainville og félaga sem birtist í  The Spine Journal árið 2011. Grein Leeuw og félaga má sjá hér Grein Rainville og félaga má sjá hér

Ísland til eftirbreytni

Framkvæmd Íslands á alþjóðasamþykkt um starfsendurhæfingu og atvinnumál fatlaðra var valin til umfjöllunar sem dæmi um framkvæmd samþykktar sem gæti orðið öðrum ríkjum til eftirbreytni á yfirstandandi þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO). Sjá nánari upplýsingar á vef Velferðarráðuneytisins.   Það sem helst þykir gott á Íslandi eru ákvæði í lögum um málefni fatlaðra sem fjalla um atvinnumál og réttindavernd fatlaðra. Einnig er horft til laga nr. 60/2012 um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, og þá sérstaklega til aðdraganda lagasetningarinnar og samstarfsins sem var milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins við undirbúning löggjafarinnar.  Lög nr. 60/2012 ná yfir starfsemi VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs.  Samið var um stofnun og starfsemi VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs í kjarasamningum á árinu 2008.

Nýir ráðgjafar

Fjórir nýir ráðgjafar hófu störf fyrir okkur í maí. Erla Hrönn Vilhjálmsdóttir er nýr ráðgjafi hjá VR, Þóra Þorgeirsdóttir hjá BHM og Íris Judith Svavarsdóttir hjá BSRB. Svo er Hrafnhildur Guðjónsdóttir nýr ráðgjafi hjá stéttarfélögum á Norðvesturlandi. 

Þrír nýir starfsmenn

Þrír nýir starfsmenn hófu störf hjá VIRK nú í maí og júní. Ásta Ágústsdóttir, nýr sérfræðingur  á sviði upplýsingatækni og úrvinnslu gagna og Soffía Eiríksdóttir, sérfræðingur á starfsendurhæfingarsviði, hófu störf í byrjun maí. Kristín E. Björnsdóttir sem gegnir starfi fjármálastjóra hóf störf í byrjun júní.

Árangursríkt starf starfsmanna í velferðarþjónustu um allt land

Í kjarasamningum á árinu 2008 var samið um starfsemi VIRK og fyrstu ráðgjafar VIRK hófu störf á árinu 2009.  Síðan þá hafa um 4500 einstaklingar leitað til VIRK og um 2000 einstaklingar hafa lokið þjónustu.  Flestir sem útskrifast frá VIRK hafa getu til þátttöku á vinnumarkaði á ný.  Á sama tíma og uppbygging VIRK hefur átt sér stað hefur þjóðin gengið í gegnum eitt mesta efnahagshrun síðari ára með miklu atvinnuleysi og erfiðleikum hjá fjölda fólks.  Það var og er ástæða til að óttast að þessar aðstæður valdi því að fleiri einstaklingar en áður búi við skerta starfsgetu og fari á örorkulífeyri til lengri tíma.  Rannsóknir og reynsla bæði hérlendis og erlendis hafa einnig sýnt fram á slæm áhrif langtíma atvinnuleysis á heilsu og vinnugetu einstaklinga.

Hafa samband