Starfsgeta, þátttaka og velferð
Til baka
20.08.2013
Starfsgeta, þátttaka og velferð
Vinna er einstaklingum yfirleitt mjög mikilvæg. Það skiptir máli fyrir okkur öll að hafa hlutverk í lífinu, geta séð sjálfum okkur
farborða og verið fjárhagslega sjálfstæð. Vinnan mótar einnig félagslega stöðu, sjálfsmynd og þroska einstaklinga þar sem
þeim gefast tækifæri til að mynda fjölbreytt félagsleg tengsl og takast á við nýjar áskoranir í samskiptum.
Rannsóknir hafa sýnt að löng fjarvera frá vinnumarkaði ógnar heilsu og lífsgæðum einstaklinga meira en margir lífshættulegir sjúkdómar. Þátttaka á vinnumarkaði hefur almennt jákvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu einstaklinga — einnig þeirra einstaklinga sem glíma við varanlegan heilsubrest af ýmsum toga (Waddel & Burton, 2006). Einnig hefur t.d. verið sýnt fram á það í erlendum rannsóknum að ungir karlar sem hafa verið án vinnu í 6 mánuði eru sex sinnum líklegri en aðrir til að taka sitt eigið líf (Waddell & Aylward , 2005).
Um 16 þúsund Íslendingar eru á örorku- eða endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þetta eru um 9% af vinnuafli landsins (Hagstofa Íslands, 2012). Öryrkjum hefur fjölgað mikið á undanförnum tveimur áratugum, eða úr því að vera um 4% af vinnuafli landsins árið 1990. Svipuð þróun hefur átt sér stað í öðrum vestrænum ríkjum þó þróunin sé mismunandi milli landa. Samkvæmt OECD eru um 6% vinnuafls að meðaltali á örorkulífeyri innan OECD og í sumum löndum Norður- og Austur-Evrópu fer hlutfallið upp í allt að 10-12%.
Í skýrslu um lífskjör og hagi öryrkja eftir Guðrúnu Hannesdóttur frá árinu 2010 kemur fram að öryrkjar hér á landi búi almennt við mun slakari lífskjör en gengur og gerist meðal þjóðarinnar og að fátækt sé frekar hlutskipti öryrkja en annarra hópa. Mjög fáir einstaklingar fara af örorkulífeyri aftur í vinnu. Þannig má segja að einstaklingar sem fara á örorkulífeyri festist auðveldlega í gildru fátæktar og verri lífsgæða til framtíðar.
Útgjöld vegna örorkulífeyris eru veruleg hjá hinu opinbera í flestum löndum OECD. Hátt hlutfall örorkulífeyrisþega og tilheyrandi útgjöld hindra vöxt efnahagslífsins og draga úr framboði vinnuafls á vinnumarkaði. Flest vestræn velferðarsamfélög standa frammi fyrir því að sá hópur einstaklinga sem ekki tekur þátt á vinnumarkaði vegna heilsubrests fer sífellt stækkandi. Við þetta bætist sú staðreynd að hlutfall eftirlaunaþega á eftir að hækka verulega á næstu áratugum. Að óbreyttu mun því hlutfall vinnandi fólks verða mun lægra í framtíðinni en nú er og færri munu skapa verðmæti og greiða skatta til að standa undir þeim lífsgæðum og því velferðarkerfi sem við viljum viðhalda.
Þessi þróun hefur átt sér stað á löngum tíma og fyrir síðustu aldamót endurskoðuðu mörg lönd innan OECD kerfi örorkulífeyris og stuðnings, í þeim tilgangi að auka virkni og þátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkaði. Þau mátu stöðuna þannig að ef ekkert yrði að gert hefði samfélagið ekki efni á þeirri velferðferðarþjónustu sem við viljum byggja upp bæði innan heilbrigðis- og menntakerfisins, ásamt framfærslustuðningi við þá einstaklinga sem enga möguleika hafa til þátttöku á vinnumarkaði. Öll lönd innan OECD standa frammi fyrir svipuðum úrlausnarefnum á þessu sviði og þrátt fyrir að nálgun þeirra sé oft á tíðum ólík geta þau dregið mikilvægan lærdóm af þekkingu og reynslu hvers annars.
Á undanförnum árum hafa margar þjóðir unnið að talsverðum breytingum á á bæði bótakerfi og stuðningi við einstaklinga með skerta starfsgetu. Árangurinn er mismunandi og í skýrslu OECD frá 2010 er bent á að flestar þessara breytinga hafi verið til góðs en yfirleitt hafi þær ekki gengið nógu langt eða nálgun á verkefnið ekki verið nægilega heildstæð. Bent hefur verið á að þær þjóðir sem hafi náð mælanlegum og varanlegum árangri við að draga úr nýgengi einstaklinga á örorku hafi yfirleitt nálgast verkefnið á heildstæðan máta, þar sem gerðar hafi verið breytingar sem snúi að bæði uppbyggingu á framfærslukerfi, starfsendurhæfingarþjónustu, aukinni þátttöku atvinnurekenda og almennri breytingu á viðhorfi og vinnubrögðum.
Í grein Vigdísar Jónsdóttur framkvæmdastjóra VIRK „Starfsgeta, þátttaka og velferð“ sem birtist í ársriti VIRK 2013 er farið yfir þær helstu breytingar og áherslur sem hafa átt sér stað innan OECD og þá reynslu sem aðrar þjóðir hafa í þessum efnum. Þar er m.a. bent á að til að ná árangri við að auka atvinnuþátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu þarf að taka á og vinna í eftirfarandi þáttum undir skýrri stefnumörkun og framtíðarsýn:
Mikilvægt er að nýta þessa uppbyggingu vel til að unnt sé að snúa við þeirri þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár, þar sem þeim fjölgar stöðugt sem ekki taka þátt á vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þetta er mikilvægt bæði út frá hagsmunum einstaklinganna sjálfra og samfélagsins í heild, sem mun hafa þörf fyrir fleiri vinnandi hendur til framtíðar og uppbyggingu á góðu velferðarkerfi fyrir alla.
Hins vegar er ekki nægjanlegt að leggja einungis fjármuni í starfsendurhæfingu til að ná tökum á þessu verkefni. Fleira þarf að koma til. Ef árangur á að nást þarf að taka á öllum þeim þáttum sem listaðir eru upp hér að framan í samstarfi margra ólíkra aðila og undir skýrri stefnumörkun og framtíðarsýn.
Í núverandi kerfi eiga margir aðilar hagsmuna að gæta og við kerfisbreytingar má alltaf búast við mótstöðu. Það sem hefur reynst öðrum þjóðum árangursríkast í þessu samhengi er að miðla eftirfarandi þáttum mjög skýrt til allra hagsmunaaðila kerfisins sem og almennings:
Nálgun á flókin viðfangsefni verður að taka mið af raunverulegum aðstæðum og krefst þess að sett verði fram heildstæð stefna og aðgerðaáætlun sem nái til allra þátta og ólíkra aðila. Einnig er mikilvægt að nálgast verkefnið með jákvæðum formerkjum þar sem markmiðið er að samtvinna hagsmuni einstaklinga og samfélagsins alls með stuðningi og hvatningu til meiri þátttöku allra — samfélaginu til heilla.
Um er að ræða úrdrátt úr grein Vigdísar Jónsdóttur framkvæmdastjóra VIRK „Starfsgeta, þátttaka og velferð“ sem birtist í Ársriti VIRK 2013. Greinina í heild sinni er að finna hér.
Heimildir:
Guðrún Hannesdóttir (2010), Lífskjör og hagir öryrkja. Könnun meðal örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Öryrkjabandalag Íslands og þjóðmálastofnun í október 2010.
OECD (2010). Sickness, Disability and Work – Breaking the barriers. Sótt á vef í janúar 2013. http://ec.europa.eu/health/mental_health/eu_compass/reports_studies/disability_synthesis_2010_en.pdf .
Hagstofa Íslands ( 2012). Vinnuafl samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Sótt á vef í nóvember 2012: http://www.hagstofa.is/Hagtolur/Laun,-tekjur-og-vinnumarkadur
Waddell, G. og Burton, A.K. (2006). Is Work Good For Your Health and Well-being? TSO, London
Waddell, G. & Aylward, M. (2005). The scientific and conceptual basis of incapacity benefits. TSO, London
Rannsóknir hafa sýnt að löng fjarvera frá vinnumarkaði ógnar heilsu og lífsgæðum einstaklinga meira en margir lífshættulegir sjúkdómar. Þátttaka á vinnumarkaði hefur almennt jákvæð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu einstaklinga — einnig þeirra einstaklinga sem glíma við varanlegan heilsubrest af ýmsum toga (Waddel & Burton, 2006). Einnig hefur t.d. verið sýnt fram á það í erlendum rannsóknum að ungir karlar sem hafa verið án vinnu í 6 mánuði eru sex sinnum líklegri en aðrir til að taka sitt eigið líf (Waddell & Aylward , 2005).
Um 16 þúsund Íslendingar eru á örorku- eða endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins. Þetta eru um 9% af vinnuafli landsins (Hagstofa Íslands, 2012). Öryrkjum hefur fjölgað mikið á undanförnum tveimur áratugum, eða úr því að vera um 4% af vinnuafli landsins árið 1990. Svipuð þróun hefur átt sér stað í öðrum vestrænum ríkjum þó þróunin sé mismunandi milli landa. Samkvæmt OECD eru um 6% vinnuafls að meðaltali á örorkulífeyri innan OECD og í sumum löndum Norður- og Austur-Evrópu fer hlutfallið upp í allt að 10-12%.
Í skýrslu um lífskjör og hagi öryrkja eftir Guðrúnu Hannesdóttur frá árinu 2010 kemur fram að öryrkjar hér á landi búi almennt við mun slakari lífskjör en gengur og gerist meðal þjóðarinnar og að fátækt sé frekar hlutskipti öryrkja en annarra hópa. Mjög fáir einstaklingar fara af örorkulífeyri aftur í vinnu. Þannig má segja að einstaklingar sem fara á örorkulífeyri festist auðveldlega í gildru fátæktar og verri lífsgæða til framtíðar.
Útgjöld vegna örorkulífeyris eru veruleg hjá hinu opinbera í flestum löndum OECD. Hátt hlutfall örorkulífeyrisþega og tilheyrandi útgjöld hindra vöxt efnahagslífsins og draga úr framboði vinnuafls á vinnumarkaði. Flest vestræn velferðarsamfélög standa frammi fyrir því að sá hópur einstaklinga sem ekki tekur þátt á vinnumarkaði vegna heilsubrests fer sífellt stækkandi. Við þetta bætist sú staðreynd að hlutfall eftirlaunaþega á eftir að hækka verulega á næstu áratugum. Að óbreyttu mun því hlutfall vinnandi fólks verða mun lægra í framtíðinni en nú er og færri munu skapa verðmæti og greiða skatta til að standa undir þeim lífsgæðum og því velferðarkerfi sem við viljum viðhalda.
Þessi þróun hefur átt sér stað á löngum tíma og fyrir síðustu aldamót endurskoðuðu mörg lönd innan OECD kerfi örorkulífeyris og stuðnings, í þeim tilgangi að auka virkni og þátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkaði. Þau mátu stöðuna þannig að ef ekkert yrði að gert hefði samfélagið ekki efni á þeirri velferðferðarþjónustu sem við viljum byggja upp bæði innan heilbrigðis- og menntakerfisins, ásamt framfærslustuðningi við þá einstaklinga sem enga möguleika hafa til þátttöku á vinnumarkaði. Öll lönd innan OECD standa frammi fyrir svipuðum úrlausnarefnum á þessu sviði og þrátt fyrir að nálgun þeirra sé oft á tíðum ólík geta þau dregið mikilvægan lærdóm af þekkingu og reynslu hvers annars.
Á undanförnum árum hafa margar þjóðir unnið að talsverðum breytingum á á bæði bótakerfi og stuðningi við einstaklinga með skerta starfsgetu. Árangurinn er mismunandi og í skýrslu OECD frá 2010 er bent á að flestar þessara breytinga hafi verið til góðs en yfirleitt hafi þær ekki gengið nógu langt eða nálgun á verkefnið ekki verið nægilega heildstæð. Bent hefur verið á að þær þjóðir sem hafi náð mælanlegum og varanlegum árangri við að draga úr nýgengi einstaklinga á örorku hafi yfirleitt nálgast verkefnið á heildstæðan máta, þar sem gerðar hafi verið breytingar sem snúi að bæði uppbyggingu á framfærslukerfi, starfsendurhæfingarþjónustu, aukinni þátttöku atvinnurekenda og almennri breytingu á viðhorfi og vinnubrögðum.
Í grein Vigdísar Jónsdóttur framkvæmdastjóra VIRK „Starfsgeta, þátttaka og velferð“ sem birtist í ársriti VIRK 2013 er farið yfir þær helstu breytingar og áherslur sem hafa átt sér stað innan OECD og þá reynslu sem aðrar þjóðir hafa í þessum efnum. Þar er m.a. bent á að til að ná árangri við að auka atvinnuþátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu þarf að taka á og vinna í eftirfarandi þáttum undir skýrri stefnumörkun og framtíðarsýn:
- Tryggja þarf einstaklingum góða þverfaglega starfsendurhæfingu samkvæmt einstaklingsbundinni áætlun
- Breyta þarf áherslum og aðferðafræði þannig að litið sé á getu en ekki vangetu einstaklinga til starfa við ákvörðun á framfærslustyrkjum
- Byggja þarf upp framfærslukerfi sem hvetur en letur ekki einstaklinga til þátttöku á vinnumarkaði
- Leggja þarf meiri áherslu á aukna ábyrgð og þátttöku einstaklinga í öllu ferlinu
- Virkja þarf atvinnurekendur til aukins samstarfs og ábyrgðar
- Breyta þarf viðhorfum og nálgun í heilbrigðisþjónustu og í velferðarþjónustunni í heild sinni
- Vinna þarf að breytingum á viðhorfum og breytni í samfélaginu til að tryggja einstaklingum með skerta starfsgetu aukna möguleika á
vinnumarkaði og í samfélaginu
Mikilvægt er að nýta þessa uppbyggingu vel til að unnt sé að snúa við þeirri þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár, þar sem þeim fjölgar stöðugt sem ekki taka þátt á vinnumarkaði vegna heilsubrests. Þetta er mikilvægt bæði út frá hagsmunum einstaklinganna sjálfra og samfélagsins í heild, sem mun hafa þörf fyrir fleiri vinnandi hendur til framtíðar og uppbyggingu á góðu velferðarkerfi fyrir alla.
Hins vegar er ekki nægjanlegt að leggja einungis fjármuni í starfsendurhæfingu til að ná tökum á þessu verkefni. Fleira þarf að koma til. Ef árangur á að nást þarf að taka á öllum þeim þáttum sem listaðir eru upp hér að framan í samstarfi margra ólíkra aðila og undir skýrri stefnumörkun og framtíðarsýn.
Í núverandi kerfi eiga margir aðilar hagsmuna að gæta og við kerfisbreytingar má alltaf búast við mótstöðu. Það sem hefur reynst öðrum þjóðum árangursríkast í þessu samhengi er að miðla eftirfarandi þáttum mjög skýrt til allra hagsmunaaðila kerfisins sem og almennings:
- Af hverju þörf sé á breytingum
- Hvað það sé í núverandi kerfi sem ekki gangi upp og á hvaða hátt það kunni að ógna velferðarkerfi framtíðarinnar
- Hverjar breytingarnar eigi að vera
- Rökstuðningi fyrir breytingunum (gjarnan með tilvísun í rannsóknir og reynslu annarra)
- Hvaða áhrif breytingarnar muni hafa á mismunandi hópa
Nálgun á flókin viðfangsefni verður að taka mið af raunverulegum aðstæðum og krefst þess að sett verði fram heildstæð stefna og aðgerðaáætlun sem nái til allra þátta og ólíkra aðila. Einnig er mikilvægt að nálgast verkefnið með jákvæðum formerkjum þar sem markmiðið er að samtvinna hagsmuni einstaklinga og samfélagsins alls með stuðningi og hvatningu til meiri þátttöku allra — samfélaginu til heilla.
Um er að ræða úrdrátt úr grein Vigdísar Jónsdóttur framkvæmdastjóra VIRK „Starfsgeta, þátttaka og velferð“ sem birtist í Ársriti VIRK 2013. Greinina í heild sinni er að finna hér.
Heimildir:
Guðrún Hannesdóttir (2010), Lífskjör og hagir öryrkja. Könnun meðal örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega. Öryrkjabandalag Íslands og þjóðmálastofnun í október 2010.
OECD (2010). Sickness, Disability and Work – Breaking the barriers. Sótt á vef í janúar 2013. http://ec.europa.eu/health/mental_health/eu_compass/reports_studies/disability_synthesis_2010_en.pdf .
Hagstofa Íslands ( 2012). Vinnuafl samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Sótt á vef í nóvember 2012: http://www.hagstofa.is/Hagtolur/Laun,-tekjur-og-vinnumarkadur
Waddell, G. og Burton, A.K. (2006). Is Work Good For Your Health and Well-being? TSO, London
Waddell, G. & Aylward, M. (2005). The scientific and conceptual basis of incapacity benefits. TSO, London