22.01.2014
„Mér finnst mjög mikilvægt að geta stundað vinnu. Með þeirri aðstoð, sem ég fæ hjá Starfsendurhæfingarsjóði, get ég haldið starfinu mínu. Mér kom á óvart að þetta úrræði væri til. Sjóðurinn er frábært framtak og þótt starfið kosti áreiðanlega eitthvað hlýtur sá kostnaður að vera svo miklu minni en sá sem hlýst af því að missa fólk út af vinnumarkaðnum. Sumt af því, sem sjóðurinn hefur gert fyrir mig, er kannski smátt út af fyrir sig, en þegar allt er lagt saman er ljóst að stuðningurinn hefur skipt sköpum. Ég hef tekið miklum framförum og núna veit ég hvar mörkin liggja og að ég verð að virða þau. Ég hef jafnvel getað verið án verkjalyfja dögum saman, sem hafði ekki gerst um árabil. Pillurnar slökkva bara á sársaukanum, en laga ekkert. Nú er kominn tími til að reyna að laga.“