Fara í efni

Markviss aðstoð um endurkomu til vinnu

Til baka

Markviss aðstoð um endurkomu til vinnu

Sigríður Indriðadóttir starfsmannastjóri Mosfellsbæjar

"Við höfðum engar sérstakar aðferðir varðandi samskipti við starfsmenn sem voru búnir að vera lengi frá vinnu vegna veikinda eða slysa. Stjórnendum fannst þeir jafnvel vera að fara inn á persónulegt svæði þeirra sem voru veikir með því að hringja heim til þeirra og spyrja um líðan þeirra. Fljótlega eftir að Virk tók til starfa kynnti ég mér leiðbeiningarnar um fjarvistasamtöl og þær hafa reynst bæði okkur og starfsmönnum afar vel,“ segir Sigríður Indriðadóttir, mannauðsstjóri Mosfellsbæjar.

Í samstarfi við VIRK

Hún tekur fram að hún hafi kynnst starfsemi Virk á fundi mannauðshóps félagsskapar um framsækna stjórnun sem heitir Stjórnvísi. ,,Í kjölfar kynningarinnar á starfsemi Virk hóf ég samstarf við þau um ýmislegt og fékk þá leiðbeiningarnar varðandi fjarvistasamtöl sem nú heita samtöl um endurkomu til vinnu. Ég hafði sérstaklega velt fyrir mér hættunni á að því að þeir sem eru búnir að vera lengi frá vinnu vegna veikinda eða slysa einangrist og kvíði því jafnvel að koma aftur. Í sumum tilfellum hafa orðið ýmsar breytingar á vinnustað viðkomandi sem gott er að ræða.“
Sigríður kveðst hafa hringt og boðið starfsmönnum sem hafa verið í löngu veikindaleyfi að koma og ræða við sig. ,,Ég hef hringt með góðum fyrirvara og sent viðkomandi samtalið þannig að hann viti um hvað viðræður okkar munu snúast. Fólk er þá búið að búa sig undir fundinn með mér. Þetta finnst mér hafa skipt miklu máli. Við höfum svo rætt breytingar á lífi og líðan viðkomandi og með hvaða hætti endurkomu skuli háttað. Fólk hefur einnig tækifæri til þess að ræða um það sem mögulega truflar það í vinnuumhverfinu og samskiptum við aðra.“

Starfsmenn þakklátir

Að sögn Sigríðar hefur það aðeins komið fyrir einu sinni að starfsmaður hafi orðið tortrygginn þegar hún hringdi og bauð samtal. ,,Viðkomandi fannst þetta ekki hafa mikið upp á sig en sat engu að síður og ræddi alla þessa hluti. Þegar upp var staðið þurfti viðkomandi starfsmaður greinilega að ræða þessi mál. En í allflestum hinum tilfellunum hefur þetta gengið mjög vel. Fólk hefur þakkað mér fyrir að hringja og þakkað fyrir að fá tækifæri til þess að koma og ræða þessa hluti vegna þess að þetta skiptir okkur öll máli. Við höfum lagt áherslu á að treysti fólk sér ekki til þess að byrja í fullri vinnu að loknu veikindaleyfi sé möguleiki á að hliðra til. Það er mikið öryggisatriði því að tilhugsunin um að þurfa að byrja í fullu starfi getur valdið miklum kvíða. Það skiptir miklu máli að vinnustaðurinn sé reiðubúinn að hliðra aðeins til í byrjun. Það er miklu dýrmætara að starfsmaðurinn komi til baka í einhverja vinnu í stað þess að sitja heima, bæði fyrir hann sjálfan og fyrirtækið.“

Ómetanleg úrræði

Þegar fyrirséð er að fólk snúi ekki til vinnu á næstunni kveðst Sigríður spyrja hvort það hafi áhuga á að kynna sér nánar þau úrræði sem Virk býður. ,,Ég hef þá haft milligöngu um viðtal hjá ráðgjafa hjá stéttarfélagi viðkomandi og í kjölfarið hefur orðið mjög gott uppbyggingarferli. Ráðgjafinn hefur þá til dæmis útvegað tíma í sjúkraþjálfun. Námskeið hafa einnig verið í boði. Lagt er upp með að yfirmenn séu í góðu sambandi við viðkomandi með reglulegu millibili.“
Sigríður segir möguleikann á samstarfi við Virk og úrræðin sem eru í boði ómetanleg. ,,Ég hvet stjórnendur til þess að kynna sér starfsemi Starfsendurhæfingarsjóðs og nýta sér úrræðin.“


Hafa samband