16.04.2012
Mikil þátttaka og áhugaverð erindi á ársfundi VIRK
Um 200 manns mættu á ársfund VIRK 2012 sem haldinn var í salnum Norðurljós í Hörpu síðastliðinn fimmtudag (12. apríl
2012). Fundurinn hófst með ávarpi Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra. Vigdís Jónsdóttir fór síðan yfir
starfsemi VIRK á síðasta ári og stefnu til framtíðar og að því loknu hélt Ingibjörg H. Jónsdóttir prófessor
við Institute of Stress Medicine í Gautaborg áhugavert erindi um reynslu og niðurstöður nýjustu rannsókna varðandi forvarnir og
starfsendurhæfingu vegna kulnunar og síþreytu. Að loknu kaffihléi voru síðan hefðbundin ársfundarstörf á dagskrá þar
sem ársreikningur var samþykktur, endurskoðandi kjörinn og tilkynnt um skipan í stjórn til næstu tveggja ára. Stjórn og stofnaðilar
lögðu til breytingar á skipulagsskrá sem voru samþykktar á fundinum og miða þær að því tryggja aðild Landssamtaka
lífeyrissjóða að stjórn og fulltrúaráði VIRK.
Nýtt ársrit VIRK um starfsendurhæfingu er komið út og var því dreift á fundinum. Þeir sem vilja fá eintak af ársritinu
geta nálgast það á skrifstofu VIRK eða sent póst á virk@virk.is og fengið það sent. Rafræna útgáfu af
ársritinu er einnig að finna hér: Ársrit VIRK 2012
Einnig er hægt að nálgast önnur gögn af ársfundinum hér á heimasíðu VIRK þar á meðal
afrit af glærum Vigdísar Jónsdóttur framkvæmdastjóra VIRK og upplýsingar frá Ingibjörgu Jónsdóttur Prófessor við
Institute of Stress Medicine í Gautaborg.