Fara í efni

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á ársfundi VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs

Til baka
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ávarpar ársfund VIRK
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ávarpar ársfund VIRK

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á ársfundi VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ávarpaði ársfund VIRK-Starfsendurhæfingarsjóðs fimmtudaginn 12 . apríl sl. Í erindi sínu fjallaði hann  meðal annars um frumvarp til laga um starfsendurhæfingu sem nú liggur fyrir Alþingi og um mikilvægi þess að efla starfsendurhæfingu og virkni einstaklinga.

Það er til mikils að vinna að forða sem flestum frá örorku og að stuðla að virkni fólks eins og nokkur kostur er á öllum æviskeiðum. Við höfum í gegnum tíðina horft um of á það sem fólk skortir til fullrar þátttöku í samfélaginu. Örorka hefur byggst á þessu vangetumati sem er afar neikvæð, óheppileg og niðurbrjótandi nálgun. Hið skynsamlega og rétta er að beina sjónum að styrkleikum hvers og eins og byggja upp úrræði til að efla getu viðkomandi í samræmi við það.

Við höfum svo sannarlega verk að vinna til að hrinda í framkvæmd þeirri hugmyndafræði sem ég held að allir séu sammála um; það er að tryggja öllum starfsendurhæfingu sem þurfa hennar með og vilja og geta nýtt sér hana. Heildstætt og samfellt kerfi fyrir alla er markmiðið. Þetta krefst þess að fagaðilar innan heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins vinni náið saman þegar þess er þörf og sömuleiðis starfsendurhæfingarsjóðir og stofnanir ríkis og sveitarfélaga.

Atvinnulífið gegnir hér einnig veigamiklu hlutverki. Vinnumarkaðurinn og atvinnurekendur þurfa að sýna sveigjanleika þar sem komið er til móts við þarfir fólks með skerta starfsgetu, svo sem í tengslum við starfsþjálfun, möguleikum til hlutastarfa og hverjum þeim aðgerðum sem annars vegar geta dregið úr brottfalli fólks af vinnumarkaði og hins vegar stutt við bakið á þeim sem eru að fóta sig þar á nýjan leik í kjölfar starfsendurhæfingar.“

Erindi ráðherra í heild sinni er að finna hér á heimasíðu Velferðarráðuneytisins:  Erindi Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra á ársfundi VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs 12. apríl 2012.


Fréttir

05.11.2024
18.10.2024

Hafa samband