Fara í efni

Fréttir

Þróunarverkefnið Virkur vinnustaður formlega hafið

Þróunarverkefnið Virkur vinnustaður hófst formlega með morgunverðarfundi þann 28. október sl. Verkefnið er til þriggja ára og taka 12 fyrirtæki/stofnanir þátt, en undir þau tilheyra samtals 35 vinnustaðir með tæplega 1600 starfsmönnum. Stjórn VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs ákvað að setja þróunarverkefnið á laggirnar í kjölfar vinnustofu í ársbyrjun 2011 þar sem samankomnir voru fulltrúar atvinnurekenda, stéttarfélaga og starfsmanna VIRK. Tilgangur verkefnisins er að veita stjórnendum og starfsmönnum fræðslu og ráðgjöf við að móta og innleiða stefnu um velferð, fjarvistir og endurkomu til vinnu. Áhersla er lögð á jákvæða og heilsusamlega nálgun.

Tveir nýir sérfræðingar hjá VIRK

Tveir nýir sérfræðingar hafa tekið til starfa hjá VIRK. Það eru nöfnurnar Margrét Gunnarsdóttir og Margrét Helga Theodórsdóttir. Margrét lauk námi í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands 1991 og  MSc gráðu í sálmeðferð (psychotherapy) frá Háskólanum í Derby, Englandi 2008.  Hún starfaði við þverfaglega endurhæfingu í 18 ár, bæði  einstaklings- og hópmeðferð.  Frá september 2009 til ágúst 2011 vann hún sem ráðgjafi á vegum VIRK fyrir BHM, SSF, KÍ og önnur háskólafélög. Margrét Helga lauk námi í iðjuþjálfun frá Ergoterapeutskolen í Kaupmannahöfn 2002. Hún starfaði við þverfaglega endurhæfingu á Reykjalundi í níu ár, fimm ár á sviði starfsendurhæfingar og fjögur ár á tauga- og hæfingasviði. Hún hefur einnig starfað sjálfstætt sem sérfræðingur í sérhæfðu matsteymi VIRK.

Trúnaðarmannafræðsla

Að undanförnu hefur sérfræðingur á vegum VIRK ásamt ráðgjöfum í starfsendurhæfingu verið með fræðslu fyrir trúnaðarmenn og talsmenn stéttarfélaga um hugmyndafræði VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, framkvæmd og árangur. Fræðslan er á vegum Félagsmálaskóla Alþýðu og er markmið hennar að trúnaðarmenn öðlist þekkingu á sjóðnum, hlutverki hans og aðferðum.

Vilt þú skrifa fræðigrein í Ársrit VIRK 2012?

Ársfundur VIRK verður haldinn í apríl 2012. Af því tilefni  gefur sjóðurinn út ársrit sem inniheldur ársskýrslu og annan fróðleik um starfsemi VIRK. Einnig  er stefnt að því að hafa fræðilega umfjöllun um starfsendurhæfingu í  ritinu.  Áhersluþættir í þessu riti verða á samstarfsaðila VIRK  og tengingu starfsendurhæfingar við atvinnulífið. VIRK býður þeim  sem hafa áhuga og þekkingu á málaflokknum og vilja fjalla um aðferðir, áhrif og árangur í starfsendurhæfingu með  fræðilegri nálgun, að senda greinar til birtingar.

Endurkoma á vinnumarkað

Þjónusta VIRK miðar að því að styðja einstaklinga með heilsubrest aftur út á vinnumarkað. Nú hefur þjónusta hjá ráðgjöfum VIRK sem staðsettir eru hjá stéttarfélögum um allt land verið í boði í tvö ár. Á þessum tíma hefur fjöldi fólks farið í gegnum kerfið og sífellt er verið að leita leiða til að aðstoða einstaklinga aftur í vinnu. Hluti þessa hóps er í vinnusambandi og kemst aftur í sína fyrri vinnu með aðstoð og samvinnu ráðgjafa og vinnuveitanda.

Starfshópur um andlega þætti í sérhæfðu mati

Um miðjan september tók til starfa hópur sem mun skoða sérhæft mat VIRK, með tilliti til andlegra þátta í matinu.  Hópurinn mun skoða þá þætti sem í dag eru hluti af matinu, fara yfir erlendar rannsóknir á þessu sviði og skoða þekkta þætti sem geta skipt máli fyrir endurhæfingu.  Þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á sérhæfða matinu benda til þess að þörf sé á að bæta andlega þætti í því.

Þróun starfshæfnismats í samvinnu við Noreg

Sérfræðingur VIRK fór nýlega á fund í Osló með yfirmönnum Rauland sem er þróunarmiðstöð rannsókna í starfsendurhæfingu í Noregi (kompetansesenter). Rauland gegnir einnig því hlutverki að vera starfsendurhæfingarstöð.  Mikill áhugi er á að prófa verkferla og verkfæri VIRK í grunnmati og sérhæfðu mati í starfsendurhæfingunni sjálfri með það að leiðarljósi að nýta það í klínískri notkun og samvinnu um framþróun þessara verkfæra. Rannsóknarhluti Rauland hefur einnig mikinn áhuga á að koma að frekari rannsóknum verkfæranna og notkun þeirra  m.a. með það að markmiði að geta birt slíkt í alþjóðlegum tímaritum. Áhugi þeirra er ekki síst sá að setja sig með þessum hætti í fremstu röð í notkun ICF (International Classification of Function) í starfsendurhæfingu  í Noregi.

Fræðsludagar ráðgjafa VIRK

Fyrstu fræðsludagar  haustsins hjá  ráðgjöfum VIRK í starfsendurhæfingu voru haldnir 11-12. september síðastliðinn í Reykjavík.  Á dagskrá var m.a. fræðsla um andleg veikindi sem mikilvægt er fyrir ráðgjafa í starfsendurhæfingu að hafa góða innsýn í í sínu starfi. Til leiks voru fengnir mjög færir sérfræðingar á þessu sviði og má þar nefna Valgerði Baldursdóttir yfirlækni geðsviðs Reykjalundar og Héðinn Unnsteinsson sérfræðing í stefnumótun hjá Forsætisráðuneytinu.  

Þrír nýir ráðgjafar

Þrír nýir ráðgjafar hafa tekið til starfa hjá stéttarfélögum í samstarfi við VIRK. Elín Reynisdóttir hóf störf hjá stéttarfélögunum á Akranesi, Guðleif Birna Leifsdóttir hjá BHM, KÍ og SSF og Hanna Dóra Björnsdóttir hjá stéttarfélögum á Norðurlandi vestra.

Lögfesting á greiðsluskyldu launagreiðenda til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs frá og með september 2011

Samkvæmt lögum sem samþykkt voru á Alþingi í júní síðastliðnum (breyting á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða) þá ber öllum launagreiðendum að greiða 0,13% af heildarlaunum allra starfsmanna sinna til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs frá og með 1. september 2011 – þ.e. miða skal við iðgjaldastofn septembermánaðar 2011.  Fram að þessum tíma hefur einungis verið kveðið á um greiðsluskyldu í kjarasamningum en nú nær hún til allra launamanna samkvæmt lögum þar með talið til sjálfstæðra atvinnurekenda og þeirra sem ekki eru félagsmenn stéttarfélaga. Launagreiðendum ber að standa skil á iðgjaldinu til viðkomandi lífeyrissjóðs með sama hætti og gildir um lífeyrisiðgjald og munu lífeyrissjóðir síðan ráðstafa gjaldinu til VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs.

Hafa samband