Fara í efni

Fréttir

Nýjir ráðgjafar

Nýlega voru tveir nýjir ráðagjafar ráðnir til starfa fyrir stéttarfélög í samstarfi við VIRK: Ólafur K. Júlíusson hefur verið ráðinn ráðgjafi hjá Eflingu stéttarfélagi. Ólafur er með MSc gráðu í vinnusálfræði frá Háskólanum  í Sheffield, en þar er lögð áhersla á kennslu hagnýtra og gagnreyndra aðferða ásamt rannsóknarmiðuðum verkefnum. Hann hefur fjölbreytta starfsreynslu og hefur m.a. starfað með einstaklingum í AMS (Atvinna með stuðningi) og unnið verkefni með Lögregluskóla ríkisins og Ríkislögreglustjóra tengd streitu, kvíða, þunglyndi og lífshamingju og starfsmannavali. Inga Margrét Skúladóttir hefur verið ráðin ráðgjafi fyrir stéttarfélög á Suðurlandi. Inga Margrét  er með starfsréttindi í félagsráðgjöf frá H.Í. og hefur mikla starfsreynslu. Hún starfaði við félagsþjónustu á Selfossi og Kópavogi um árabil og hefur undanfarin ár starfað hjá Skólaskrifstofu Suðurlands.

Fylltist sjálfstrausti á ný og er komin aftur til starfa

,,Það var ekki fyrr en ég hitti Karen ráðgjafa sem ég fékk svör við öllum mínum spurningum um hvað tæki við þegar ég færi af launum vegna veikinda. Ég var búin að fara víða en mér fannst ég hvergi fá nógu greinargóð svör. Ég var alveg ráðþrota og auk þess full af áhyggjum yfir því að fá kannski ekki aftur vinnu. Karen leiddi mig í gegnum þetta allt og ég fylltist sjálfstrausti á ný. Ég fann betur fyrir því að ég væri einhvers virði og að allt væri ekki búið,“ segir Sólveig Sigurjónsdóttir. Sólveig, sem er 65 ára, er nú komin til starfa á ný eftir eins og hálfs árs veikindaleyfi. Veikindin höfðu reyndar hrjáð hana löngu áður en hún hætti að vinna.  Með aðstoð ráðgjafa í starfsendurhæfingu tókst henni að endurheimta trú á getu sína og nú er hún komin í vinnu á ný.  Viðtalið við Sólveigu í heild sinni er að finna hér og til vinstri hér á síðunni er að finna fleiri viðtöl við einstaklinga sem hafa náð árangri með aðstoð ráðgjafa í starfsendurhæfingu - sjá einnig hér.

Rýnihópur um skilgreiningar í starfshæfnismati

Mikilvægt er að sameiginlegur skilningur liggi að baki þeim hugtökum sem notuð eru í því starfshæfnismati sem Starfsendurhæfingarsjóður leggur til grundvallar. Markmiðið með vinnu rýnihópsins er því að skýra betur þau lykilhugtök sem liggja þar að baki þannig að merking þeirra verði nákvæmari og tryggi sameiginlega sýn.

Styrkir til þróunar- og uppbyggingarverkefna

Stjórn Starfsendurhæfingarsjóðs hefur samþykkt reglur um styrki til þróunar- og uppbyggingarverkefna í starfsendurhæfingu.  Markmiðið er að stuðla að aukinni fjölbreytni og framboði úrræða í starfsendurhæfingu á Íslandi og þróun þeirra.  Sérstök áhersla er lögð á að styrkja verkefni sem styðja við markmið og verkefni Starfsendurhæfingarsjóðs og stuðla að eflingu og fjölbreytni atvinnutengdra úrræða.

Kom sterkari til vinnu

"Ég  kem sterkari til vinnu vegna þeirrar hjálpar sem ég hef fengið á vegum Starfsendurhæfingarsjóðs. Ég hefði lent í dýpri holu eftir hálft til eitt ár ef ég hefði ekki fengið þessa hjálp.“  Segir ungur maður á Norðurlandi eftir að hafa gengið í gegnum erfiða meðferð við krabbameini og fékk aðstoð hjá Elsu Sigmundsdóttur ráðgjafa stéttarfélaga á Akureyri.

Áframhaldandi þróun á starfshæfnismati

Hjá Starfsendurhæfingarsjóði hefur átt sér stað þróun á verkfærum og vinnuferlum sem hafa það að markmiði að meta getu og færni einstaklinga til að vera virkir þátttakendur á vinnumarkaði ásamt því að draga fram þau tækifæri sem eru til staðar og virkja og hvetja einstaklinga til dáða.  Hér er um að ræða svokallað starfhæfnismat.  Áframhaldandi þróun á þessum vinnuaðferðum er hinsvegar afar mikilvæg og þá í samvinnu við marga ólíka sérfræðinga á þessu sviði.

VIRK leitar að sérfræðingi / ráðgjafa

Starfsendurhæfingarsjóður leitar að sérfræðingi/ráðgjafa til að vinna að fjölbreyttum verkefnum á sviði starfsendurhæfingar. Um er að ræða bæði ráðgjöf til einstaklinga á mismunandi starfsstöðvum og vinnu við ýmis þróunarverkefni hjá sjóðnum. Hér gefst einstakt tækifæri til að vinna að uppbyggingu, þróun og þjónustu á sviði starfsendurhæfingar á vinnumarkaði. Um er að ræða mjög krefjandi starf. Nánari upplýsingar um starfið er hægt að finna hér. Hægt er að sækja um starfið inn á http://www.capacent.is/ og smella hér til að fara beint í það ferli.

Hægir á fjölgun örorkulífeyrisþega

Í frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins (http://www.sa.is/) í síðustu viku er greint frá því að verulega hafi hægt á fjölgun örorkulífeyrisþega á þessu ári miðað við síðasta ár.  Fjöldi örorkulífeyrisþega var 15.677 í ársbyrjun og 15.842 þann 1. júlí síðastliðinn þannig að fjölgunin á árinu nemur 165 einstaklingum fyrri hluta ársins.  Á árunum 2004-2009 fjölgaði örorkulífeyrisþegum um 500-1300 árlega og því er hér um að ræða mikla breytingu. Sama má segja um nýgengi örorku, mun færri fengu úrskurð um 75% örorku á fyrri hluta þessa árs en á sama tímabili í fyrra.  Sjá nánar á heimasíðu SA:  http://www.sa.is/

Alþjóðlegt samstarf um aukna þekkingu á sviði starfsendurhæfingar

Starfsendurhæfingarsjóður hefur undirritað samstarfssamning við  National Institute of Disability Management and Research (http://www.nidmar.ca/ ) í Kanada. NIDMAR var stofnað árið 1994 og er í dag þekkt á alþjóðavettvangi  sem frumkvöðull í hugmyndafræði um vinnutengda endurhæfingu

Batnaði fyrr vegna frábærra úrræða

,,Þegar ég fór loks til ráðgjafans í starfsendurhæfingu gerði ég mér grein fyrir því að ég hefði auðvitað átt að fara um leið og ráðgjafinn hringdi í mig. Ég var hins vegar svo vitlaus að ég taldi mig ekki þurfa á þessari aðstoð að halda. Öll úrræðin sem boðið var upp á og samtölin við ráðgjafann hafa styrkt mig gríðarlega mikið. Ég hefði ekki náð bata jafnfljótt án þeirra,“ segir ung kona í Breiðholtinu.

Hafa samband