18.10.2010
Ég er glaður í hjarta
,,Þegar ég var yngri sá ég engan tilgang með því að greiða stéttarfélagsgjöld. Nú er ég glaður í
hjarta vegna allrar aðstoðarinnar frá stéttarfélaginu mínu og Starfsendurhæfingarsjóði í kjölfar slyssins sem ég lenti
í. Nú skil ég mikilvægi þess að hafa gott stéttarfélag á bak við sig. Ráðgjafinn á vegum
Starfsendurhæfingarsjóðs hefur jafnframt reynst mér afar vel.“
Þetta segir Friðrik Ottó Ragnarsson járnsmiður sem fyrir um tveimur árum, eða í byrjun nóvember 2008, slasaðist á hrygg og
hálsi í bílveltu. ,,Ég var lánaður í annað fyrirtæki og var uppi á Nesjavöllum á leið í vinnuna. Það
var hálka á veginum og bíllinn snerist í þrjá hringi áður en hann fór út í kant og valt. Ég gat skriðið
út um gluggann þar sem rúðan hafði brotnað. Bóndi sem sá þegar slysið varð hringdi á sjúkrabíl. Mér fannst
ég vera að kafna og reyndi að liggja þannig á jörðinni að ég fyndi sem minnst til,“ greinir Friðrik frá.
Járnsmíðina varð hann að gefa upp á bátinn vegna stöðugra verkja, einkum í hálsinum. ,,Ég er að verða 57 ára og
hef alltaf unnið við járnsmíði sem er erfiðisvinna. Ég hef alltaf verið hraustur og unnið 150 prósenta vinnu og vel það og svo lendi
í þessu.“