Fara í efni

Fréttir

Samningur við stéttarfélög á Suðurnesjum

Skrifað hefur verið undir samning við stéttarfélög á Suðurnesjum um þjónustu ráðgjafa.  Sjö stéttarfélög á Suðurnesjum skrifuðu undir samninginn en samningurinn nær til allra félagsmanna þessara stéttarfélaga.  Þessi félög eru Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis, Starfsmannafélag Suðurnesja, Verslunarmannafélag Suðurnesja, Verkalýðs- og sjómannafélag Sandgerðis, Félag iðn- og tæknigreina, Rafiðnaðarsamband Íslands og Verkalýðsfélag Grindavíkur. Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis  mun taka að sér ráðgjafastarfið fyrir hönd stéttarfélaganna og mun í samvinnu við þau, bjóða félagsmönnum upp á þjónustu á sviði starfsendurhæfingar. Auglýst verður eftir umsóknum um starf ráðgjafa á næstu dögum.  Á myndinni sjást formenn félaganna ásamt Þorsteini Sveinssyni frá VIRK skrifa undir samninginn.

Ráðgjafi í starfsendurhæfingu ráðinn hjá BHM, KÍ og SSF

Búið er að ganga frá ráðningu ráðgjafa á sviði starfsendurhæfingar hjá BHM, KÍ og SSF. Sá einstaklingar sem varð fyrir valinu er Margrét Gunnarsdóttir sjúkraþjálfari. Hún hóf störf þann 14. september og mun hafa aðalstarfsstöð hjá BHM í Borgartúni 6 en mun vinna náið með öllum þessum samtökum og byggja upp góða þjónustu í samræmi við þarfir félagsmanna. Margrét mun vera í 50% starfi fram í miðjan október og þá mun hún fara í fullt starf.

Samstarf Starfsendurhæfingarsjóðs og Vinnumálastofnunar á Akureyri

Starfsendurhæfingarsjóður og Vinnumálastofnun á Akureyri hafa gert með sér samning um tímabundið tilraunaverkefni á sviði starfsendurhæfingar. Verkefnið byggir m.a. á samstarfi ráðgjafa Vinnumálastofnunar og ráðgjafa sjúkrasjóða  stéttarfélaganna á Akureyri. Tilgangur verkefnisins  er að  ná til og aðstoða einstaklinga sem búa við skerta starfsgetu  af heilsufarsástæðum eða eru í sérstakri áhættu á að missa starfsgetu í kjölfar langtímaatvinnuleysis,   auka starfsgetu þeirra og aðstoða þá við að komast til vinnu aftur.

ICF-Kjarnasafn

Eins og áður hefur komið fram þá er Starfsendurhæfingarsjóður þátttakandi  í alþjóðlegri tilraun þar sem er verið að meta ákveðna þætti sem snúa að mati á starfshæfni einstaklinga. Þessi rannsókn er gerð í samvinnu við  EUMASS, samtök tryggingayfirlækna í Evrópu. Um er að ræða fjölstöðva rannsókn þar sem mat er lagt á réttmæti (validation)ICF- kjarnasafns (core set). Nýlega náðist sá áfangi að meta 50 einstaklinga með þessari aðferðarfræði og hafa þessar upplýsingar verið sendar út til frekari úrvinnslu.  

Viltu fá fréttir ?

Sú nýjung er komin inn á  heimasíðu okkar að það er hægt að skrá sig á póstlista efst á síðunni. Til að skrá sig á listann er þarf að smella á póstlistar, skrá netfangið sitt og haka við fréttir. Hægt er að skrá sig á póstlistann með því að smella hér.

Námskeið 7-11. september

Vikuna 7.-11. september eru allir ráðgjafar sem starfa á vegum Starfsendurhæfingarsjóðs hjá stéttarfélögum um allt land  á námskeiði hjá sjóðnum. Á námskeiðinu er fjallað um grunnþætti í starfi ráðgjafanna s.s. hugmyndafræði, mat og mælitæki, siðareglur og persónuvernd, helstu orsakir skertrar starfshæfni, velferðarkerfið, úrræði og tengsl við atvinnulífið, samskipti og samvinnu, upplýsingakerfi , fjármálaráðgjöf og samtalstækni.

Ráðgjafar hittast

Þann 11.-13. ágúst sl.fóru þeir ráðgjafar sem eru í samstarfi við Starfsendurhæfingarsjóð á þriggja daga námskeið í jákvæðri sálfræði. Við nýttum tækifærið og buðum ráðgjöfunum í morgunkaffi hjá okkur í Sætúni 1. Þetta er orðinn stór hópur ráðgjafa og þarna voru samankomnir 10 ráðgjafar sem starfa hjá stéttarfélögum á mismundndi stöðum á landinu, m.a frá Reykjavík, Akureyri, Ísafirði, Selfossi, Vestmannaeyjum, Akranesi o.fl. Þann 7.-11. september mun Starfsendurhæfingarsjóður svo halda námskeið fyrir alla ráðgjafana.

Ráðgjafar hjá BSRB

Búið er að ganga frá ráðningu tveggja ráðgjafa hjá BSRB og munu þeir hefja störf í byrjun september.   Þeir einstaklingar sem urðu fyrir valinu í þessi störf eru Karen Björnsdóttir náms- og starfsráðgjafi og Soffía Eiríksdóttir hjúkrunarfræðingur.   Starfsstöð þeirra verður hjá sjúkrasjóðum BSRB að Grettisgötu 89 Reykjavík en þær munu einnig eiga góða samvinnu við ráðgjafa utan höfuðborgarsvæðisins vegna félagsmanna aðildarfélaga BSRB á landsbyggðinni.

Ráðgjafar hefja störf

Í þessari viku hófu þrír nýjir ráðgjafar störf á vegum VIRK. Þetta eru Ágústa Guðmarsdóttir, Hrefna Óskarsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir. Hrefna er staðsett í Vestmannaeyjum og starfar fyrir stéttarfélögin þar, Ágústa starfar fyrir stéttarfélög á Suðurlandi og er með aðsetur á Selfossi. Sigrún starfar fyrir iðnaðarmannafélögin á höfuðborgarsvæðinu og er með aðsetur í Borgartúni og á Stórhöfða í Reykjavík. Netföng þeirra og símanúmer er hægt að sjá hér. Við bjóðum þær velkomnar til starfa. Á næstunni munu síðan þrír ráðgjafar í viðbót hefja störf hjá BSRB og BHM.

Hafa samband