Fara í efni

Fréttir

Árangur af starfsendurhæfingu

Niðurstöður rannsókna benda til þess að  starfsendurhæfing sé áhrifarík aðgerð til að varna því að fólk „detti varanlega út“ af vinnumarkaði sökum veikinda eða sjúkdóma.  Snemmbær ráðgjöf á þessu sviði hefur gefið góða raun og er ein mikilvægasta íhlutunin þegar horft er til þess að samræma endurhæfingarferli einstaklinga og ná jákvæðum árangri.  Ráðgjafinn fylgir  einstaklingnum eftir meðan á endurhæfingarferlinu stendur.  Rannsóknir hafa sýnt að árangur starfsendurhæfingar tengist meðal annars því að gott samband myndist  milli ráðgjafans og einstaklingsins og að vel takist til við að vekja og virkja áhugahvöt einstaklingsins  og stuðla að aukinni virkni hans við að  bæta heilsu sína og auka starfsorku. Fjöldi rannsókna hafa verið gerðar til að meta fjárhagslega hagkvæmni þess  að endurhæfa fólk til starfa eftir slys eða sjúkdóma. Allar benda þær til þess að starfsendurhæfing sé fjárhagslega hagkvæm. Hlutfallslegur ávinningur er misjafn eftir rannsóknum og viðfangsefnum, allt frá því að fyrir hverja einingu fjármuna sem er varið til starfsendurhæfingar, skili tvær einingar sér til baka til samfélagsins í sköttum og framleiðni  (1:2) og  í að fyrir hverja einingu, skili átján sér til baka í sjóði samfélagsins (1:18).  Engin rannsókn sem skoðuð var benti til þess að kostnaður væri meiri en ávinningur. Starfsmannastefna fyrirtækja, hvað varðar heilsueflingu, forvarnir og öryggi, ásamt vilja til að  auðvelda fólki endurkomu til vinnu  eftir slys eða veikindi,  hefur mikil áhrif á tíðni veikindadaga og vinnuslysa. Í fyrirtækjum sem lögðu  áherslu á þessa þætti var minna um óskir um sjúkradagpeninga og örorku en hjá þeim sem leggja ekki áherslu á þessa þætti í starfsmannastefnu sinni. (Samantekt úr grein Steven R. Pruett hjá Ohio State University, Empirical evidence supporting the effectiveness of vocational rehabilitation, sem birtist í Journal of Rehabilitation April-June 2008)  

Starfsendurhæfingarsjóður - samstarfsverkefni allra aðila á vinnumarkaði

Gengið hefur verið frá nýrri skipulagsskrá fyrir Endurhæfingarsjóð þar sem samtök launamanna og atvinnurekendur hjá hinu opinbera gerðust aðilar að sjóðnum.  Við þetta tækifæri var nafni sjóðsins breytt til að endurspegla betur starfsemi hans og heitir hann nú Starfsendurhæfingarsjóður. Með þessu er stigið mikilvægt skref í þá átt að tryggja öllum starfsmönnum á vinnumarkaði þjónustu í formi starfsendurhæfingar ef um er að ræða skerta vinnugetu vegna veikinda eða slysa.

Gleðilega hátíð

Endurhæfingarsjóður óskar samstarfsaðilum og landsmönnum öllum gleðilegrar hátíðar og farsældar á komandi ári.  Við þökkum gott samstarf á liðnu ári og óskum þess að nýtt ár megi fela í sér tækifæri til gæfu og góðs gengis.

Öflun þekkingar

Undanfarnar vikur hafa starfsmenn Endurhæfingarsjóðs unnið að því að safna saman gögnum og afla þekkingar á ýmsum þáttum er snúa að starfsendurhæfingu og starfshæfnismati.  Í byrjun desember sóttu 2 starfsmenn sjóðsins námskeið í "Arbejdsevnemetoden" en það er sú aðferðarfræði sem notuð er í Danmörku við að virkja einstaklinga til þátttöku á vinnumarkaði og meta starfshæfni.  Einnig höfum við verið í sambandi við einn helsta sérfræðing Noregs í starfshæfnismati og rætt við hann ýmsar hugmyndir og tillögur sem eru í þróun hjá okkur.

Tilraunaverkefni

Þessa dagana er Endurhæfingarsjóður að fara af stað með tilraunaverkefni í samvinnu við þrjá sjúkrasjóði.   Markmiðið með tilrauninni er að undirbúa og þróa  starf ráðgjafa hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga um allt land og meta þörf fyrir fræðslu og aðstoð.  Tilraunin felst m.a. í prófun og þróun á tilteknum aðferðum, starfsháttum, gátlistum og leiðbeiningum sem ráðgjafinn þarf að nota í sínu starfi.   Einnig er unnið að því að þróa fyrirkomulag við meðhöndlun og varðveislu gagna sem uppfyllir lög og reglur um persónuvernd.  

Undirbúningur starfsemi

Undirbúningur að faglegri vinnu og uppbyggingu hjá Endurhæfingarsjóði hófst í ágúst 2008 og þessa dagana er þessi vinna í fullum gangi.. Verið er að móta starf ráðgjafa hjá sjúkrasjóðum stéttarfélagana, safna upplýsingum og vinna í mótun gátlista og matskerfa í samvinnu við fleiri aðila.  Starfsmenn Endurhæfingarsjóðs hafa einnig lagt áherslu á að kynna sér starfsemi sjúkrasjóða stéttarfélaga og funda með væntanlegum samstarfsaðilum m.a. innan stéttarfélaga og lífeyrissjóða. Mikilvægur þáttur í undirbúningsferlinu er einnig upplýsingasöfnun.  Verið er að safna saman upplýsingum um endurhæfingarúrræði um allt land og einnig eru starfsmenn sjóðsins að kynna sér þær leiðir og þær aðferðir sem notaðar eru í starfsendurhæfingu t.d. á hinum Norðurlöndunum.

Hafa samband