Fara í efni

Þróun á starfi ráðgjafa í starfsendurhæfingu

Til baka

Þróun á starfi ráðgjafa í starfsendurhæfingu

Starf ráðgjafa í starfsendurhæfingu á vegum VIRK og stéttarfélaga um allt land er nýtt hér á landi.  Ráðgjafar eru ráðnir til stéttarfélaga en VIRK stýrir þeirra faglega starfi.  Starf þeirra hefur verið í mikilli þróun þar sem sífellt er verið að bæta þeirra vinnulag og finna leiðir til að gera starfið sem árangursríkast. 

Ráðgjafar hafa bent á að þeim finnst þeir búa við nokkuð mikið álag í starfi og eins hefur verið kallað á að sett séu skýrari viðmið um það hvað telst eðlilegur fjöldi viðtala og einstaklinga í starfi ráðgjafa.  Á sama tíma er þjónustan í sífelldri þróun og við erum að reka okkur á nýja hluti svo það hefur ekki verið einfalt að setja ákveðin viðmið í þessu samhengi.

Í byrjun árs var farið af stað með hóp ráðgjafa og sérfræðinga sem hefur haft það verkefni að skoða starf ráðgjafa betur og reyna að setja niður tiltekin viðmið í þessu samhengi. Hópurinn hefur skilað skýrslu þar sem kemur m.a. fram að ráðgjafar upplifa talsvert mikið álag í starfi og að meðaltalsfjöldi viðtala í hverri viku hjá ráðgjafa er um 17 fyrir ráðgjafa í fullu starfi. Breiddin er hins vegar nokkuð mikil eða frá 12 viðtölum á viku upp í 30. Flestir eru að taka á milli 15 og 17 viðtöl á viku. Flestir ráðgjafar telja að æskilegur fjöldi einstaklinga í reglulegum viðtölum sé á milli 30 og 40. Auk þessa gæti ráðgjafi haft einhverja einstaklinga í eftirfylgd. Flestir ráðgjafar telja sig missa yfirsýn yfir einstaklinga og verkefni ef fjöldi einstaklinga í reglulegum viðtölum fer yfir 40 á hverjum tíma.

Þegar þessar tölur eru skoðaðar þá þarf að hafa það í huga að sjálf viðtölin eru aðeins hluti af því starfi sem fer fram hjá ráðgjafa. Ráðgjafinn þarf að vera í tengslum við ótal marga aðila sem koma að máli hvers og eins einstaklings s.s. lækni og aðra aðila innan heilbrigðiskerfisins, úrræðaaðila og aðra sérfræðinga. Einnig við framfærsluaðila s.s. lífeyrissjóð, TR og sjúkrasjóð. Skráning tekur líka drjúgan tíma sem og fleiri þættir í starfinu.

Vinna þessa hóps er fyrsta skrefið í að skilgreina betur umfang hjá ráðgjafa og verklag. Skýrslan verður notuð áfram og rýnt verður í innihald hennar með öllum ráðgjöfum VIRK, með það að markmiði að finna leiðir til að gera starfið sem árangursríkast.


Fréttir

05.11.2024
18.10.2024

Hafa samband