Hólmfríður B. Þorsteinsdóttir sjúkraþjálfari
Sjúkraþjálfun er mikilvægur liður í meðferð þeirra sem eiga við stoðkerfisvandamál að stríða. Hólmfríður B. Þorsteinsdóttir, MT – sjúkraþjálfari, hefur sinnt mörgum þeim sem sem leitað hafa til VIRK vegna slíkra vandamála.
Við Hólmfríður hittumst á heimili hennar í Kópavogi þar sem hún býður mér brosmild upp á kaffisopa. Hún er svo vön að taka á móti fólki að strax skapast notalegt andrúmsloft í herberginu. Ég halla mér aftur með kaffibollann og lýsi yfir áhuga á frekari fréttum af starfi hennar fyrir skjólstæðinga VIRK.
„Í upphafi meðferðar tel ég mikilvægt að veita nýjum einstaklingi sem til mín leitar viðtalstíma þar sem vandi viðkomandi einstaklings er greindur. Vandamál fólks eru afar mismunandi og stundum um margt að ræða. Þýðingarmikið er því að átta sig á hvað er að og hvað er til ráða. Að því loknu leitast ég við að kenna fólki æfingar og gefa því góð ráð. Ef mikið er að gera þarf fólk stundum að bíða eftir einstaklingsmeðferð. Til að bregðast við því hef ég lagt mig fram um að þróa fámenna æfingahópa fyrir mismunandi vandamál, þannig má hefja endurhæfingu fyrr en ella,“ segir Hólmfríður.
Er fræðsla þýðingarmikil?
„Vissulega er hún það. Ég reyni að sameina fræðslu og markvissar æfingar. Þannig er að mínu mati heppilegt að stíga fyrstu skrefin í endurhæfingu. Sumum nægir þessi nálgun til að ná bata, en aðrir ástunda þessa tegund endurhæfingar á meðan þeir bíða á almennum biðlista eftir sjúkraþjálfun eða samhliða henni. Í allri meðferð er mikilvægt að hlusta vel á sögu hvers skjólstæðings og vinna þannig traust þeirra. Traustið er mikilvægt fyrir endurhæfingu,“ svarar Hólmfríður.
Hver er bakgrunnur þinn í sambandi við endurhæfingu?
„Ég er stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri, útskrifaðist með BSc gráðu í sjúkraþjálfun frá Háskóla Íslands 1999 og stundaði verknám með vinnu frá janúar 2003 til júní 2004 hjá Dr. Eyþóri Kristjánsyni sjúkraþjálfara. Ég útskrifaðist með masters gráðu í Musculoskeletal Physiotherapy frá The University of Queensland Brisbane, Ástralíu árið 2006. Ég fékk svo sérfræðiviðurkenningu í sjúkraþjálfun árið 2009. Ég hef unnið víða, á MS heimilinu, elliheimili og heimili fyrir fatlaða í Kaupmannahöfn, hjá Hreyfigreiningu, Sjúkraþjálfun Mjódd, hjá Atlas endurhæfingu, Sjúkraþjálfun Sporthúsinu og Heilsuborg. Ásamt fleirum þróaði ég Stoðkerfisskólann og ýmis stoðkerfisúrræði. Nýlega hóf ég störf sem sjúkraþjálfari hjá Verkjalausnum. Auk þess sem fyrr er talið hef ég kennt við Háskóla Íslands og þróað og kennt framhaldskúrs sem metinn er hjá HÍ á meistarastigi. Í áranna rás hef ég setið margvísleg námskeið um líkamann í víðum skilningi. Ég hef því yfirgripsmikinn grunn og reynslu á sviði endurhæfingar,“ svarar Hólmfríður.
Þarf fólkið frá VIRK meiri þjónustu en aðrir?
„Vandamál þess fólks eru oft orðin meiri en almennt gerist. Ef hægt er að grípa inn í áður en fólk dettur út af vinnumarkaðinum þá er vandinn auðleysanlegri. Fólkið sem kemur frá VIRK þarf oft á tíðum fjölþættari þjónustu en ella hefði verið. Það hefur líka gjarnan betri aðstæður til að vinna sig út úr veikindunum, það er ef það er ekki upptekið í vinnu og getur einbeitt sér að því að ná bata. Lífið er stundum flókið og líkami fólks ekki síður. Það getur verið áfall út af fyrir sig að fara í veikindafrí og vera ekki lengur í vinnu.
Svefnvandamál eru nokkuð algeng og til eru sérfræðingar sem sinna slíku. Segja má að svefnleysi sé vandamál sem vindur mikið upp á sig. Líkaminn endurnýjar sig í svefninum og ef hann nær því ekki þá geta komið líkamleg og andleg veikindi í kjölfarið. Næringin skiptir líka miklu máli í þessu sambandi. Jafnvel þó að allt annað sé gert rétt þá hindrar svefnleysi og slæm næring framfarir. Stoðkerfisvandamál, til dæmis sem afleiðingar af slysi, lagast illa ef fólk sefur ekki vel. Mesta endurheimtin til bata fer fram í svefni og ef hann fæst ekki versnar í því.“
Eftir hverju fer lengd bataferilsins?
„Lengd bataferils fer má segja að talsverðu leyti eftir flækjustigi við greiningu sem getur verið mismunandi mikið. Bataferli fer líka eftir því hvernig aðstæður eru til að greina það og laga. Bera þarf virðingu fyrir hversu flókin slík vinna getur verið. Ef svefnleysi stafar til dæmis af því að viðkomandi sinnir langveiku barni – þá er erfitt um vik. Fólk, sem þarf að vakna til barna sem sofa lítið, fær ekki eðlilegan svefn. Sé rugl á svefni of lengi kann líkaminn stundum ekki lengur að sofa eðlilega.
Heimilisaðstæður og aðrar aðstæður í lífinu geta því skorið úr um hvernig bataferlið gengur. Í fyrsta lagi þarf að greina hverju þarf að breyta og í öðru lagi þarf fólk að hafa getu og aðstæður til að gera breytingar. Að breyta viðvarandi hegðun er erfitt, svo sem að hætta að reykja eða fara að stunda líkamsrækt. Sé fólk haldið til dæmis kvíða, þunglyndi eða áfallastreitu þá er slíkt mikið verkefni. Því margvíslegri aðstæður sem koma saman því meiri vinna er að finna lausn og breyta í átt til bata,“ segir Hólmfríður.
Enginn skilningur á við reynsluskilninginn
Hvað kom til að þú lærðir sjúkraþjálfun?
„Ég lenti í bílslysi þegar ég var sextán ára og þurfti að leita til sjúkraþjálfara. Hefði þetta ekki gerst væri ég sennilega ekki sjúkraþjálfari. Ég tognaði illa, braut bringubein og fékk ekki nógu góða hjálp til að byrja með. Ég var alltaf með höfuðverk og gekk illa að losna við hann. Það gerði ég raunar ekki fyrr en ég áttaði mig á að ég gæti beitt mér betur en ég gerði. Samhliða námi í háskóla var ég alltaf í sjúkraþjálfun. Mörgum árum síðar datt ég á hálkubletti, handleggsbrotnaði og braut einn hryggjarlið í baki. Í upphafi hélt ég að ég yrði lengur frá vinnu en raun bar vitni. Ég fylgdi rækilega öllu sem ég taldi að gæti hjálpað mér og var komin til vinnu eftir þrjá mánuði. Þessi reynsla mín af slysum gerir mig skyggnari á vanda þeirra sem til mín leita. Enginn skilningur er á við reynsluskilninginn.
Þegar einhver spyr hve lengi ég telji að hann verði að ná heilsu svara ég: „Ef ég gæti farið inn í líkama þinn og verið í honum alla daga þá gæti ég svarað þér. En af því ég get slíkt ekki þá get ég ekki svarað þér.“ Oft gerir fólk sér ekki grein fyrir að einhver endurtekin hreyfing sé orsök að bólgum hér og þar, svo sem mikil notkun á símum, tölvum og tölvumús, svo dæmi séu tekin.“
Hvað er til ráða í slíkum tilvikum? „Við þurfum að hlusta á líkamann, skilja hvað hann er að reyna að segja okkur. Í fyrsta lagi þurfum við að átta okkur á byggingu líkamans og hvernig hann virkar, hvernig taugarnar stýra vöðvum og hvernig boðin virka. Við þurfum að geta hlustað eftir hvenær við eigum að skipta um stellingu og svo framvegis.
Það er til dæmis eðlilegt að bregðast við hættu með því að stífna upp en það er óeðlilegt að halda áfram að vera í stífri varnarstellingu. Slíkt veldur bólgum og verkjum. Mikilvægt er líka að gera sér grein fyrir að líkaminn er fjölbreytilegt fyrirbæri, einstaklingur er kannski með verki í fæti sem stafar af klemmdri taug í baki og þannig mætti áfram telja. Þekking á líkamanum er ekki tæmandi, ekki heldur hjá fagfólki. Við erum enn að læra hvernig hann virkar. Æskilegt væri að meiri kennsla um líkamann væri í skyldunámi. Með þekkingu mætti fyrirbyggja mörg vandamál.“
Hafa Íslendingar alltaf verið slæmir af gigt, eins og það er kallað?
„Reynsla mín varðandi gigtarsjúklinga er að streitan spilar þar stórt hlutverk, beint eða óbeint. Einnig hefur fæðið sitt að segja. Streitan hefur þau áhrif að blóðflæði verður lélegt til dæmis til meltingarfæra, þá meltir fólk matinn verr og efnin í fæðunni nýtast oft illa. Svefntruflanir hafa líka mikið að segja í þessum efnum. Sú lýsing, að vera „illt út um allt“, hefur mér oft fundist vera samhliða meltingarvandamálum hjá mínum skjólstæðingum.“
Hafa störf sjúkraþjálfara breyst mikið síðan þú hófst störf sem slíkur?
„Já gríðarlega mikið. Við höfum áttað okkur betur á hve taugakerfið skiptir miklu máli og heildarmyndin hefur orðið skýrari að sama skapi. Það þarf að horfa á heildina – ekki vera í „bútagreiningum“. Það er og orðið mun auðveldara en áður fyrir okkur sjúkraþjálfara að bæta við þekkingu okkar á nýjungum í faginu, þar hjálpar netið þar sem meðal annars má finna fyrirlestra, greinar og allskyns myndbönd sem tengjast sjúkraþjálfun og æfingum.
Hvernig gengur fólki að halda bata?
„Ég útskrifa engan þjónustuþega án þess að láta þess getið að hann geti leitað til mín aftur ef þörf krefur. Stundum kemur fólk eftir kannski tvö ár til að leita aðstoðar eða hressa upp á áhugann á að viðhalda bata. Fyrir kemur að fólk hefur aftur lent í slysi, því miður, þá þarf að taka á afleiðingum þess. Það er öryggi að útskrifast frá sjúkraþjálfara með það í farteskinu að geta leitað aftur aðstoðar þar ef þarf.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason