Þjónustuaðila hafa eins og VIRK þurft að aðlaga starfsemi sína að breyttum aðstæðum vegna COVID19. Við tókum þau tali og lögðum fyrir þau nokkrar spurningar.
- Hafa þarfir einstaklinga í þjónustu verið aðrar s.l tvö ár og þá hvernig?
- Sjáið þið fyrir ykkur einhverjar áherslubreytingar varðandi þjónustuframboð í kjölfar Covid19?
- Hvaða þættir eru það sem skipta máli varðandi farsælt samstarf við VIRK?
Sigrún Konráðsdóttir sjúkraþjálfari - Stígandi
Síðustu tvö ár hafa verið áskorun fyrir okkar fagstétt eins og aðrar og höfum við þurft að aðlaga okkar störf að breyttum aðstæðum. Eins og við vitum glíma einstaklingar áfram við margvísleg heilsufarvandamál þó að í gildi séu ýmsar sóttvarnarreglur, takmarkanir og jafnvel lokanir og mikilvægt að þeir fái þá þjónustu sem þeir þurfa.
Til þess að tryggja skjólstæðingum okkar áframhaldandi endurhæfingu á þessum tímum og koma í veg fyrir bakslag í endurhæfingunni komum við á laggirnar ýmsum fjarúrræðum. Við færðum hóptímana okkar til dæmis tímabundið yfir í fjarfundabúnað og þátttakendur tóku þátt heima í stofu. Einnig buðum við upp á ýmsa ráðgjöf og fjarþjálfun í gegnum fjarfundabúnað og ljóst er að þetta opnar á ýmsa möguleika sem við getum nýtt okkur áfram.
Við hjá Stíganda sjúkraþjálfun höfum frá upphafi lagt mikla áherslu á heildræna nálgun í okkar starfi og eitt af því sem Covid hefur kennt okkur er hversu mikilvæg sú nálgun er. Manneskjan er mun flóknara fyrirbæri en svo að vera bara vöðvar, liðir og bein og því nauðsynlegt að huga t.d að geðheilsu samhliða líkamlegri heilsu.
Við höfum orðið vör við að ástandið síðustu tvö árin hefur haft neikvæð áhrif á marga, bæði líkamlega og andlega. Margir hafa þörf fyrir enn meira aðhald, meiri stuðning og hvatningu til að sinna þeirri endurhæfingu sem þörf er á. Góð samvinna með öðrum heilbrigðisstéttum sem starfa í sama húsnæði og við hefur því reynst okkur og skjólstæðingum okkar afar vel og á sú samvinna bara eftir að aukast enn frekar. Við munum halda áfram að bjóða upp á margs konar einstaklingsúrræði ásamt fjölbreyttum hóptímum bæði í sal og í vatni þannig að flestir ættu að geta fundið úrræði við sitt hæfi.
Stígandi sjúkraþjálfun hefur verið í góðu samstarfi við VIRK og byggist það fyrst og fremst á góðum og reglulegum samskiptum við ráðgjafa sem og úrræðateymi VIRK.
Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2022.
Texti: Anna Lóa Ólafsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason