Guðbjörg Björnsdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir hjá Saga Story House
Vísun til náttúrunnar er ríkjandi í húsnæði Saga Story House að Flatahrauni 3 í Hafnarfirði. Nánast umvafðar blómum og náttúruafurðum sitja þær Guðbjörg Björnsdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir saman í sófa í horni yst í stórum sal. Ekki fer á milli mála að þær eru samhentar í stjórn og rekstri fyrirtækis síns – beinlínis er hægt að skynja samhygð þeirra þegar blaðamaður nálgast til þess að fræðast um námskeið á vegum Sögu Story House, úrræði sem þjónustuþegar VIRK nota í töluverðum mæli. Sem og eru forvitnilegar nýlegar niðurstöður úr rannsókn Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands varðandi áhrif náttúrunnar á streitu með þátttöku þjónustuþega VIRK.
„Við eigum náttúrustefnuna sameiginlega – þar liggur okkar ástríða og metnaður,“ segja þær stöllur Ingibjörg og Guðbjörg. Þær búa yfir fjölbreyttri menntun og reynslu. Ingibjörg er uppeldis- og enntunarfræðingur og hefur lokið MBA-námi sem og er hún jógakennari.
Ég dvaldi um tíma í Kína í tengslum við MBA-nám mitt. Ég á ættleidda dóttur frá Kína og við fjölskyldan vildum kynnast menningu, samfélagi og sögu þar,“ segir Ingibjörg. Fyrir áttu hún og maður hennar einn son. Guðbjörg og hennar maður eiga þrjá syni. Þær geta þess að vel hafi tekist til við að flétta saman starf og einkalíf.
Guðbjörg er iðjuþjálfi og lærði sitt fag í Álaborg í Danmörku. „Á þeim tíma var ekki byrjað að kenna iðjuþjálfun á Íslandi. Að námi loknu starfaði ég sem iðjuþjálfi í Álaborg og í Kaupmannahöfn. Iðjuþjálfun hjálpar fólki meðal annars að finna styrkleika sína. Ég er líka jógakennari og hef eftir að heim til Íslands kom unnið við endurhæfingu og ráðgjöf í heilbrigðisgeiranum,“ bætir hún við.
Námskeiðin samsett úr þremur þáttum
Hvernig er háttað samstarfi ykkar við VIRK?
„Þjónustuþegar frá VIRK hafa sótt námskeiðin okkar þar sem sameinaðar eru kenningar og hugmyndafræði um betri líðan meðal annars í nánari tengslum við náttúruna. Við töldum að námskeið okkar gæti nýst fólki sem er að upplifa álag og streitu til þess að efla lífsgæði þess. Þannig gæti það ígrundað eigið líf og tilfinningar og fengið verkfæri til þess að vinna með.
Upphaf hvers þriggja klukkustunda námsdags hefst á fræðslu og áherslu á það sem við gerum þann dag. Við ræðum praktísku atriðin og hugmyndafræðina á bak við þau. Síðan förum við út í kyrrðargöngu. Þegar við komum til baka þá er leidd djúpslökun. Þessum þremur þáttum er ætlað að hlúa að lífsgæðum og daglegu lífi þátttakenda.“
„Þátttakendur á námskeiðum okkar kynnast og við hlúum að heilandi og nærandi rými sem gefur ró og öryggi. Ætli fólk að ígrunda eigið líf þarf það að finna til öryggis í umhverfinu. Við leiðum þetta ferli á mildan hátt.“
Gakktu með sjó og sittu við eld
Hvernig hefur það gengið?
„Námskeiðin okkar hafa spurst vel út. Við leggjum okkur fram um að þátttakendur tengi við eigið innsæi og skoði tilfinningar sínar. Við álag og streitu getum við orðið dálítið viðskila við okkar innra líf. Á námskeiðum okkar gefum við sem sagt rými til að staldra við svo þátttakendur geti skoðað það sem inni fyrir býr. Þetta er auðvitað gömul viska. „Gakktu með sjó og sittu við eld,“ kvað völvan forðum. Við vitum þetta flest en þurfum að rifja þetta upp þegar álagið er mikið og við verðum tilfinningalega dofin eða óróleg.“
Hvað einkennir þá sem koma til ykkar frá VIRK?
Þeir eiga það flestir sameiginlegt að upplifa streitu og kvíða þótt streituvaldarnir sé ólíkir. Þátttakendur á námskeiðum okkar kynnast og við hlúum að heilandi og nærandi rými sem gefur ró og öryggi. Ætli fólk að ígrunda eigið líf þarf það að finna til öryggis í umhverfinu. Við leiðum þetta ferli á mildan hátt. Miklu skiptir að fólki líði vel hér og við gerum það sem við getum til að svo verði í orði sem á borði.“
Eruð þið þess vegna með svona mikið af blómum og jarðefnum?
„Vísindalegar rannsóknir hafa sýnt að það hefur róandi og heilandi áhrif að hafa náttúruna innandyra í formi jurta og jarðefna. Ég er mikil blómamanneskja og sé um að vökva,“ segir Guðbjörg og brosir.
„Að vinna með fólki úti í náttúrunni er hluti af okkar bakgrunni hvað reynslu varðar,“ segir Ingibjörg. Hún kveðst vera alin upp á Ströndum þar sem fjaran er full af rekavið. Þessa sér stað í salnum þar sem námskeiðin umræddu fara fram að hluta.
Við viljum leggja áherslu á víða skírskotun, þannig er nafnið á fyrirtækinu okkar tilkomið, Saga Story House. Við höfum svo lengi unnið með lífssögur fólks á ólíkum æviskeiðum,“ segir Ingibjörg. Guðbjörg kinkar kolli samsinnandi.
Báðar hafa þær mikla reynslu af störfum í heilbrigðisgeiranum, jafnt með ungum sem öldnum.
Náttúran hinn stóri skóli og mikla ástríða
Aðspurðar segjast þær Guðbjörg og Ingibjörg hafa kynnst í öldrunarþjónustu Garðabæjar. „Við vorum saman að leiða uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis og nýrrar dagþjálfunar. Báðar höfum við líka unnið með unglingum, meðal annars á BUGL – Barna og unglingageðdeild LSH,“ bæta þær stöllur við.
Skiptið þið með ykkur verkum í fyrirtækinu?
„Við getum gengið í öll verk en höfum samt þróað ákveðna verkaskiptingu. Ingibjörg leiðir göngur úti í náttúrunni en ég leiðbeini í djúpslökun sem er hluti af námskeiðum okkar. Þau eru sem fyrr greindi saman sett úr þremur þáttum, fyrst eru fyrirlestrar, svo göngur úti við og loks djúpslökun eftir að inn er komið. Hvert námskeið er átta sinnum þrjár klukkustundir,“ segir Guðbjörg.
Þær Ingibjörg og Guðbjörg eru innilega sammála um að náttúran sé hinn stóri skóli og þeirra mikla ástríða. Í upphafi segjast þær stöllur ekki hafa talið líklegt að námskeiðin yrðu nema að sumarlagi. En annað kom á daginn. Áhugi fólks á námskeiðunum leiddi til þess að þau standa allt árið og einnig kom fljótt fram áhugi á framhaldsnámskeiðum.
„Í öldrunarþjónustu Garðabæjar leiddum við Guðbjörg líka starfsemi í heimaþjónustu og félagsstarfi. Ég vann sem framkvæmdastjóri í öldrunarþjónustunni og Guðbjörg sem iðjuþjálfi. Við áttum gott samstarf á þessum vettvangi og dönsuðum á sömu línu hvað hugmyndafræði snertir. Þessi margra ára jákvæða samvinna leiddi til þess að Guðbjörg sendi mér frétt í tölvupósti varðandi St. Jósepsspítala sem þá var verið að enduropna. Í umræddri frétt kom fram að Hafnarfjarðarbær væri að gera upp þetta sögufræga hús með það að markmiði að koma upp svonefndu Lífsgæðasetri – klasasetri aðila sem væru að vinna að bættum lífsgæðum fólks frá vöggu til grafar,“ segir Ingibjörg.
Skoða áhrif skynjunar á lífsgæði
„Við sáum í Lífsgæðasetrinu einstakt tækifæri til að stofna saman fyrirtæki,“ segir Guðbjörg. „Við höfðum báðar nokkra reynslu af fyrirtækjarekstri. Mánuði síðar höfðum við sagt upp störfum okkar og teknar til við að byggja upp fyrirtækið Saga Story House. Þetta gerðist árið 2018. Við fengum dásamlega aðstöðu á St. Jósepsspítala. En þegar kórónuveirufaraldurinn skall á þurftum við aukið pláss til þess að geta tekið á móti fleirum og jafnframt gætt sóttvarna. Þess vegna leituðum við nýrrar aðstöðu og fengum inni hér.“ Það er ekki ofsögum sagt að rúmt er í salnum á efri hæðinni að Flatahrauni 3.
„Við höfum hannað innréttingar og búnað í samræmi við kynni okkar á því hve skipulag og hönnun skiptir miklu máli í umhverfi fólks. Við skoðuðum áhrif skynjunar á lífsgæði og hlustuðum á sögur sem fólkið á hjúkrunarheimilinu í Garðabæ sagði okkur. Við urðum vitni að ýmsu sem snertir áhrif náttúrunnar á líðan fólks. Til dæmis því þegar gömul kona fór út daglega til að strjúka klöpp sem er í garðinum. Við sáum líka hve miklu skipti að komast út á stórar svalir, hafa gott aðgengi út í garðinn, finna rigninguna á andlitið og snjóinn, finna lykt af nýslegnu grasi og þar fram eftir götunum. Að hafa blóm í vasa er góð og hlýleg skynjun. Bara það að koma með blóm og rekavið inn á hjúkrunarheimilið gladdi fólkið. Við höfum nýtt þessa reynslu á námskeiðum okkar,“ segir Ingibjörg.
„Við höfum eðlislæga þörf fyrir tengingu við náttúruna, slíkt er í genum mannsins. Þetta er vissulega gömul viska en ný vísindi – við erum að gera okkur grein fyrir að streita er mikil heilsuvá. Við þurfum að skoða hvað veldur. Er það tæknin? Er það hraðinn í nútímasamfélagi?“
Hin eðlislæga þörf fyrir tengingu við náttúruna
Hefur fólk sem kemur til ykkar frá VIRK misst þessa skynjun að einhverju leyti? „Almennt er fólk nútímans ekki eins tengt náttúrunni og áður gerðist, það á við um okkur flest,“ segir Guðbjörg.
„Við höfum eðlislæga þörf fyrir tengingu við náttúruna, slíkt er í genum mannsins. Þetta er vissulega gömul viska en ný vísindi – við erum að gera okkur grein fyrir að streita er mikil heilsuvá. Við þurfum að skoða hvað veldur. Er það tæknin? Er það hraðinn í nútímasamfélagi? Í rauninni hefur líkaminn alla burði til að heila sig sjálfur en við þurfum að skapa honum umhverfi til þess. Á námskeiðum okkar veltum við fyrir okkur mikilvægum spurningum og veitum fólki þá reynslu að fara út í náttúruna og þiggja þá næringu sem það umhverfi getur gefið. Síðan hjálpar djúpslökunin til,“ bætir hún við.
Er eitt námskeið í átta lotum nógu langur tími til að ná árangri í þessum efnum?
„Mjög fljótt urðum við varar við eftirspurn eftir framhaldsnámskeiðum og brugðumst við henni. Nú erum við með jafn langt framhaldsnámskeið eins og byrjunarnámskeið eða tuttugu og fjórar klukkustundir hvort námskeið,“ segir Ingibjörg.
Markmið rannsóknar að skoða streitulosun náttúrunnar
Hvað varð til þess að gerð var rannsókn á námskeiði ykkar hjá Háskóla Íslands?
„Við höfum eigin matslista þar sem við metum árangur þátttakenda á námskeiðum okkar. En okkur fannst líka áhugavert að athuga hvort fólk gæti yfirfært reynslu af námskeiðunum á daglegt líf sitt. Við leituðum því til Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og könnuðum áhuga á að slík rannsókn yrði gerð. Í framhaldi af því varð til meistaraverkefni Berglindar Magnúsdóttur í félagsráðgjöf. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort náttúrulegt umhverfi hefði streitulosandi áhrif á fólk. Við báðum sérstaklega um að náttúrutengingin yrði skoðuð. Slík varð svo áhersla rannsóknarinnar hjá HÍ. Eins voru rannsökuð gæði námskeiðsins í heild. Þátttakendur í þessari rannsókn komu allir hingað til okkar frá VIRK,“ segir Guðbjörg.
„Erlendis hefur orðið mikil vitundarvakning í þessum efnum. Í æ ríkari mæli hefur fólk áttað sig á þeim styrk sem náttúran getur gefið. Ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir hér á áhrifum náttúrunnar á líðan fólks. Og við vitum ekki til að önnur rannsókn en þessi hafi verið gerð á samspili náttúru og streitu varðandi líðan fólks,“ segir Ingibjörg.
Niðurstaða rannsóknar gleðilega í samræmi við væntingar
Þær Guðbjörg og Ingibjörg segjast mjög þakklátar fyrir þetta meistaraverkefni Berglindar og geta þess jafnframt að rannsókn hennar hafi verið bæði eigindleg og megindleg.
„Í umræddri rannsókn voru lagðir fyrir þátttakendurna frá VIRK spurningalistar og tekin við þá djúpviðtöl. Viðtölin voru hin eigindlega rannsókn. Megindlega rannsóknin fól í sér meðhöndlun á tölulegum gögnum. Þess ber að geta að í rannsókn þessari voru einnig lagðar spurningar fyrir aðstandendur þátttakenda. Niðurstöður rannsóknarinnar – „Náttúran græðir og grætur með mér“. Áhrif náttúrunnar á streitu – má finna á vef Skemmunnar.
Niðurstaða rannsóknar Berglindar reyndist sú að dvöl í náttúrunni undir faglegri leiðsögn leiðbeinanda hafi streitulosandi áhrif – nokkuð sem gladdi okkur mjög,“ segja þær Guðbjörg og Ingibjörg og bæta við að sú niðurstaða hafi reyndar verið í samræmi við væntingar þeirra og reynslu.
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason