VIRK veitir styrki tvisvar á ári til virkniúrræða, rannsóknar- og þróunarverkefna en VIRK er heimilt samkvæmt lögum 60/2012 að styrkja og stuðla með öðrum hætti að rannsóknum, þróun og uppbyggingu í atvinnutengdri starfsendurhæfingu m.a. með styrkveitingum.
Haustið 2016 veitti VIRK í fyrsta sinn styrki til virkniúrræða sem styðja við og auka árangur í starfsendurhæfingu. Markmið VIRK með styrkveitingunum til virkniúrræðanna er að stuðla að samstarfi við aðila sem veita opið og gjaldfrjálst aðgengi að þjónustu fyrir einstaklinga sem glíma við heilsubrest sem hefur áhrif á atvinnuþátttöku þeirra.
Eitt af þeim virkniúrræðum sem hlotið hafa styrki frá VIRK er Klúbburinn Geysir sem er atvinnumiðað endurhæfingarúrræði fyrir fólk með geðraskanir. Grundvallarmarkmið klúbbsins er að virkja félaga hans til starfa og koma þeim út í meiri samfélagsvirkni. Öll vinna félaga í klúbbnum er unnin í sjálfboðavinnu.
Klúbburinn Geysir starfar eftir hugmyndafræði Fountain House sem byggir á að efla hæfileika og styrk einstaklingsins. Með því að gefa hverjum og einum tækifæri til að nýta sínar sterku hliðar þjálfast viðkomandi til fjölbreyttrar þátttöku í samfélaginu. Í störfum innan Klúbbsins Geysis er lögð áhersla á stuðning og virðingu fyrir félögum. Í starfi Klúbbsins Geysis eru engar kvaðir lagðar á félaga umfram það sem hver og einn er tilbúinn að gangast undir. Lögð er áhersla á jákvæða athygli og horft á styrkleika, í stað þess að einblína á sjúkdóminn.
Ráðning til reynslu
Í Geysi er atvinnu- og menntadeild, ATOM, þar sem félagar og starfsmenn vinna að því að ná tengslum við vinnuveitendur. Ráðning til reynslu (RTR) veitir félögum tækifæri til þátttöku á almennum vinnumarkaði.
„RTR er fyrir fólk sem langar að fara að prufa sig á vinnumarkaði. Er ekki tilbúið að fara í atvinnu með stuðningi eða ráða sig sjálfstætt og þurfa mikinn stuðning sem við veitum. Við horfum sérstaklega til áhuga fólks á að vinna. Ef áhuginn er mikill er mikilvægt að leyfa sem flestum að prufa sig í vinnu,“ segir Þórunn Ósk Sölvadóttir, framkvæmdastjóri Klúbbsins Geysis, í viðtali við ársrit VIRK. „Störfin eru hlutastörf, yfirleitt um 4 klst. á dag eða minna. Við höfum verið með starf með 25% starfshlutfall sem hefur hentað mjög vel. Fólk er með misjafna getu og mikilvægt er að geta byrjað í lágu starfshlutfalli, fengið reynsluna og fundið að það geti meira.“
„Starfsfólk klúbbsins lærir störfin fyrst og þjálfar svo einstaklingana í störfin sem þeir síðan gegna í allt að eitt ár,“ segir Þórunn Ósk „Við fylgjum einstaklingunum mjög vel eftir fyrstu skrefin á vinnustaðnum og viðkomandi er ekki einn í vinnu fyrr en hann treystir sér til. Við erum líka í mjög góðu sambandi við vinnuveitandann og veitum stuðning líka, erum alltaf til staðar. Einstaklingurinn er á sömu forsendum og almennir starfsmenn, nýtur sömu kjara og réttinda, en ef hann getur ekki sinnt starfinu sökum síns sjúkdóms þá hlaupa starfsmenn klúbbsins í skarðið fyrir viðkomandi eða félagar sem hafa gegnt starfinu áður. Þannig er tryggt að sjúkdómurinn verður ekki til þess að viðkomandi missi vinnuna og vinnuveitandanum er tryggt 100% vinnuframlag.“
RTR ráðningarfyrirkomulagið er notað víða um heim með mjög góðum árangri, bæði fyrir félaga klúbbhúsanna og atvinnurekendur. Frá upphafi hafa um 50 Geysisfélagar starfað í Ráðningu til reynslu. Yfir 100 félagar stunda nú vinnu á almennum vinnumarkaði.
„Auðveldara er að ná í störfin en erfiðara að halda þeim. Það kemur oftar en ekki fyrir að viðkomandi einstaklingur er svo rosalega góður í starfi sínu að fyrirtækið getur ekki hugsað sér að missa hann og ræður til framtíðar í fullt starf en Klúbburinn Geysir „missir“ viðkomandi starf og þarf að finna nýtt starf. Þá þurfum við að leita að nýjum störfum sem er reyndar lúxusvandamál,“ sagði Þórunn Ósk.
Vinnan gerir manni gott
Ársrit VIRK leit einnig við í Bakkanum vöruhóteli og tók Bergljótu Elíasdóttur tali sem hóf störf þar í gegnum Klúbbinn Geysi og Ráðning til reynslu í nóvember 2016.
„Hér líkar mér rosalega vel, mjög gott fólk hérna,“ segir Bergljót, starfið hjá Bakkanum er ekki fyrsta RTR hennar, hún vann t.d. áður á Vitatorgi og víða í afleysingum. „Hér er mjög gott viðmót starfsmanna og ég fékk góðar leiðbeiningar þegar ég byrjaði. Hér hjálpa allir öllum og mér skilst að þeir séu mjög ánægðir með mig.“
Bergljót vinnur frá kl. 10 til 13 hvern virkan dag og segir vinnuna gera manni gott, sérstaklega á svona góðum stað. „Það er mjög gott að hafa Geysi vegna þess að rútínan sem fylgir því að mæta þar hjálpar manni út í lífið aftur. Klúbburinn Geysir er þannig að þegar maður kemur og er ekki alveg til í að gera eitthvað þá er maður alltaf hvattur til þess að gera eitthvað, taka þátt. Og ef einhver treystir sér ekki þá gerum við það saman.“
Nánari upplýsingar um styrki VIRK má sjá hér.