Þjónustuaðila hafa eins og VIRK þurft að aðlaga starfsemi sína að breyttum aðstæðum vegna COVID19. Við tókum þau tali og lögðum fyrir þau nokkrar spurningar.
- Hafa þarfir einstaklinga í þjónustu verið aðrar s.l tvö ár og þá hvernig?
- Sjáið þið fyrir ykkur einhverjar áherslubreytingar varðandi þjónustuframboð í kjölfar Covid19?
- Hvaða þættir eru það sem skipta máli varðandi farsælt samstarf við VIRK?
Guðrún J. Hallgrímsdóttir iðjuþjálfi – Heimastyrkur, heimastyrkur.is
Mín reynsla er sú að það hefur skapast aukin þörf fyrir stuðning iðjuþjálfa hjá þjónustuþegum VIRK vegna áhrifa Covid á heilsu þeirra og líðan. Þau eru í þörf fyrir stuðning til að komast aftur í rútínu við að sinna daglegri iðju og við að ná jafnvægi milli heimilis og vinnu í kjölfar síbreytilegra aðstæðna síðustu ár. Margir eru að takast á við neikvæð áhrif heimavinnu, óstöðugleika í vinnuumhverfinu, langvarandi álag og félagslegrar einangrunar vegna samkomutakmarkana eða atvinnumissis.
Þeir sem hafa smitast af Covid hafa margir hverjir verið að takast á við töluverðan heilsufarsvanda, eru með minna úthald gagnvart streitu, andlegu álagi sem og skynáreiti gegnum hljóð, birtu, lykt og snertingu en líka bragð vegna breytinga á næmni taugakerfisins.
Auk þess má nefna aukna þörf fyrir fjarheilbrigðisþjónustu hjá einstaklingum sem eru búsettir út á landi í dreifbýli eða komast ekki á stofu sérfræðinga vegna kvíða eða heilsubrests. Hér skiptir gott aðgengi að ólíkum faghópum og sérfræðingum miklu máli til að fá heildræna nálgun í þjónustu þar sem hugað er að líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu.
Þjónusta sem býður upp á valdeflandi nálgun ýtir undir velferð og aukin lífsgæði, heima fyrir og á vinnumarkaði. Það styður við sjálfseflingu, seiglu og veitir stuðning við að finna raunhæfar leiðir til endurkomu á vinnumarkað með jafnvægið að leiðarljósi. VIRK á stórt hrós skilið fyrir fjölbreytt þjónustuúrræði, námskeið og gott aðgengi að ólíkum sérfræðingum og ráðgjöfum á vegum VIRK.
Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2022.
Texti: Anna Lóa Ólafsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason