Rúnar Helgi Andrason sálfræðingur
Rúnar Helgi Andrason, sálfræðingur, er sérfræðingur í klínískri sálfræði og starfar sem yfirsálfræðingur á Reykjalundi. Hann hefur einnig í nokkurn tíma verið með ACT-hópmeðferð, þangað sem þjónustuþegar VIRK hafa leitað.
Við hittum Rúnar Helga fyrir í viðtalsherbergi hans í Garðabæ til að fræðast um þetta meðferðarúrræði – hvað ACT sé í raun.
„ACT stendur fyrir Acceptance and Commitment Therapy. Acceptance felur í sér að gangast við hlutum sem er annað en að sætta sig við hluti. Fólk reynir oft að sætta sig við ýmislegt sem gerst hefur en það gengur oft ekki vel. Nálgun er að gangast við stöðunni eins og hún er – horfast í augu við raunveruleikann.
Commitment felur í sér að skapa sér innihaldsríkt líf þrátt fyrir missi eða heilsufarsvanda af andlegum eða líkamlegum toga. Therapy er svo meðferðarúrræðið sjálft,“ segir Rúnar Helgi.
Hvernig hagar þú hópmeðferðinni ACT?
„Mér finnst heppilegast að hafa svona um það bil tíu til tólf manns í hverjum hóp. Fólk sem mætir á þessi námskeið hjá mér hefur yfirleitt ríkan áhuga á að fá bata en er oft á mismunandi stöðum í bataferli og starfsendurhæfingu. Ekki hefur verið skilgreint hvort þetta úrræði sé heppilegt í upphafi bataferils, í miðju þess eða í lok endurhæfingar. Reynslan hefur sýnt að þegar fólk er langt komið í bataferli og hugsar til að fara út á vinnumarkaðinn þá er það tilbúið til að taka við þeim verkfærum sem það fær á námskeiðinu. Það er mín tilfinning fyrir þessu en hún byggist ekki á fræðilegri rannsókn.“
Hvetur fólk til að vinna með líðan sína
Hvernig byrjar þú svona hópmeðferð?
„Hugsanir og tilfinningar hindra okkur stundum frá því að lifa innihaldsríkara lífi og námskeiðinu er ætlað að finna leiðir til að yfirstíga það. Hvað er innihaldsríkt líf er svo einstaklingsbundið og ég boða enga uppskrift að slíku á námskeiðinu. Ég beini fólki ekki í ákveðinn farveg heldur hvet það til að vinna með líðan sína.
Ég set mér tvö markmið fyrir fyrsta tímann. Annars vegar að fólki líði vel og það kynnist hvert öðru. Hitt markmiðið er að það stígi örlítið út fyrir þægindarammann.
Ég læt fólk gera verkefni og svara ákveðnum spurningum sem varða tilfinningar þess og líðan. Ef vel tekst til að skapa góðan hóp þá kemur fólk í annan tímann með opinn huga. Mikilvægt er að ná góðu sambandi við fólk í þessum tveimur tímum, þar er lagður grunnur að þeirri dýpt sem kemur svo í framhaldinu.“
Reynslan hefur sýnt að þegar fólk er langt komið í bataferli og hugsar til að fara út á vinnumarkaðinn þá er það tilbúið til að taka við þeim verkfærum sem það fær á námskeiðinu.
Er betra að kljást við svona viðfangsefni í hóp en með einum í einu?
„Um er að ræða tvö ólík ferli. Ég legg til fræðsluna, verkfærin og vettvang fyrir fólk til að tjá sig – sjálfsvinnuna vinnur svo hver útaf fyrir sig. Í einstaklingsmeðferð kafar fólk dýpra. Sé fólk með áfallastreituröskun þarf það stundum einstaklingsmeðferð samhliða hópmeðferð. Slíkt getur unnið mjög vel saman. En sé um að ræða skakkaföll í lífi fólks en ekki áfallastreituröskun þá getur námskeiðið kannski dugað eitt og sér.
Ég er búinn að vera með svona námskeið síðan 2021 og ég segi gjarnan í upphafi: „Ég veit hvað ég er að fara að gera en X-faktorinn – það eru þið. Og ykkar framlag skiptir ekki minna máli en mitt.“. Ég gef þannig boltann á þátttakendur, ef svo má segja.“
Hvernig gagnast ACT hópmeðferð í starfsendurhæfingu?
„Fólk sem kemur í hópmeðferð hjá mér er hugsanlega með depurð og þunglyndi, kvíða, áfallasögu eða lágt sjálfsmat, svo eitthvað sé nefnt. Þessi meðferðarnálgun nýtist við ólíkum röskunum og hentar því vel í starfsendurhæfingu. Í hópnum er fólk með ólík vandamál en við erum jú öll ólík og það er gott að geta deilt því með öðrum, fundið að annað fólk er líka að kljást við vanda. Það hefur mikil áhrif á fólk að geta ekki lengur framfleytt sér á eigin vinnu. Slíkt er í eðli sínu áfall fyrir mannskepnuna. Þetta kemur berlega fram í öllum hópum.“
Hvað gerist ef fólk endurheimtir ekki starfsgetu sína?
„Fyrir kemur að heilsufarsvandi fólks er það flókinn og erfiður að það kemst ekki aftur til vinnu. Eigi að síður skiptir svona námskeið viðkomandi miklu máli. Fólk fer þá út í lífið með þau verkfæri sem það hefur fengið í hendur í meðferðinni og getur tekist á við erfiðar hugsanir og tilfinningar.“
ACT-nálgunin almennt mannbætandi
Fyrir hverja virkar þetta úrræði best?
„Ég get aldrei fyrirfram vitað hverjir í hópnum grípa boltann og hverjir ekki. Mér er minnisstæð kona sem virtist afskaplega hlédræg allt námskeiðið og tók sjaldan þátt í virkum umræðum. En svo sá ég í lokin á matslistum að hún hafði bætt sig langmest. Þetta er flókið fyrirbrigði. Ég get því ekki svarað þeirri spurningu fyrir hverja þetta henti best. Hins vegar er ACT-nálgunin almennt mannbætandi. Þeir sem koma og vinna verkefnin sem ég legg upp með fá mest út úr námskeiðinu, almennt. Mín reynsla er sú að flestir taki vel við. Ég reyni að beita vingjarnlegri nálgun og upplýsingarnar séu þannig að það sé auðvelt að taka þær inn í líf sitt.“
Hjá VIRK er stefnt að því að efla tækifæri til rannsókna og hvetja úrræðaaðila til að mæla framvindu meðferða í auknu samstarfi. Hvernig líst þér á það?
„Ég er hlynntur þeirri stefnu og stend sjálfur fyrir rannsókn um þessar mundir. Ég hef rætt við fólk hjá VIRK og mér finnst þar ríkja skynsamleg stefna hvað varðar rannsóknir. Oft er erfitt að mæla úrræði en jafnframt nauðsynlegt. Mér finnst að þeir matslistar sem ég legg fyrir fólkið sem sækir námskeið hjá mér séu ekki endilega að mæla þetta nægilega. Ég myndi því vilja sjá sambland af matslistum og eigindlegum rannsóknum, þar sem er rætt við fólk líka. Eðlilega vill endurhæfingaraðili eins og VIRK fá yfirsýn yfir það hvað er að nýtast í endurhæfingarferli.“
Kennir fólki að bera kennsl á tilfinningar sínar
Skipta rannsóknir máli í klínísku starfi að þínu mati?
„Almennt skipta rannsóknir í klínisku starfi miklu máli til að greina gagnreyndar aðferðir frá öðru sem er í boði.
Á námskeiðinu kenni ég fólki að takast á við ef það þyrmir yfir það. Við köllum það; að varpa akkeri, sem er aðferð til að hjálpa fólki að ná áttum. Ég kenni líka fólki að skilgreina gildin sín, persónulega út frá fjölskylduaðstæðum og öðrum sviðum. Ég legg áherslu á að fólk sé í núinu en ekki með hugann of mikið í fortíð eða framtíð. Í lokin hvet ég fólk til að sýna sjálfu sér mildi og bæta þannig sjálfsmynd sína.
Ég minni á að við eigum alltaf val í lífinu. Ég kenni fólki að vera meðvitað um að við höfum alltaf val hvernig við bregðumst við og hvað við gerum. Núvitund er grundvöllur fyrir þessu öllu.
Ég held að rannsóknir skipti miklu máli fyrir starfsendurhæfingu og styrki fólk á marga vegu.
Ég held að rannsóknir skipti miklu máli fyrir starfsendurhæfingu og styrki fólk á marga vegu. Vinnan okkar er ansi stór hluti af lífi okkar og allt sem styrkir okkur almennt í lífinu styrkir okkur þar líka. Margir sem koma hingað frá VIRK hafa yfirkeyrt sig. Þetta námskeið kennir fólki að þekkja merki ef slíkt er í aðsigi og einnig að setja sjálfum sér og öðrum skýrari mörk. Þetta er stundum kallað „að vera arkitekt í eigin lífi“. Láta ekki aðra stjórna í of miklum mæli og láta heldur ekki undan öllum sínum dyntum. Lesa í aðstæður. Fólk heldur gjarnan að lífið eigi að vera frábært en hjá öllum kemur eitthvað uppá. Lífið er ströggl. Ég reyni að kenna fólki leiðir til að takast á við þetta strögl og styrkja sig gagnvart því. Á hverju námskeiði heyri ég af lífskreppum sem einstaklingar komast í.“
Hvernig gengur fólki í hópnum að blanda geði?
„Þegar ég var að fara af stað með þessi námskeið kveið ég mest hinum yfirgnæfandi aðila sem er í öllum hópum. Slíkum aðila þarf að setja mörk en hlédræga einstaklinginn þarf að virkja. Þetta þarf maður að gera jafnframt því að sýna fólkinu virðingu. Ég segi: „Ég mun ganga að ykkur en þið hafið líka heimild til að segja pass ef þið viljið ekki svara einhverju eða gera eitthvað.“. Þetta hafa allir samþykkt.“
Mesta ógnin er alltaf að vera hafnað
Hvað viltu segja um samstarf þitt við VIRK?
„Ég hef allt gott um það að segja. Töluverð vinna fer í að ganga frá mati á einstaklingum til ráðgjafans. Það er gleðilegt ef maður getur sagt að fólk hafi tekið miklum framförum, leiðinlegra ef það hefur staðið í stað. Heilt yfir beina ráðgjafarnir til mín fólki sem þeir telja að geti nýtt sér það sem ég hef fram að færa. Ég vil fá fólk á námskeiðið sem er tilbúið til að taka við og gera breytingar – þegar fólk vinnur verkefnin og deilir reynslu sinni með hópnum þá gerist eitthvað.“
Hvert stefnum við sem manneskjur og samfélag?
„Manneskjan hefur aldrei í mannkynssögunni haft það eins og gott og hún hefur það núna. En þrátt fyrir það ber á vaxandi einmanaleika, fíkn, kvíða og lyfjanotkun eykst. Fólki virðist ekki líða neitt betur en áður og maður veltir fyrir sér hvers vegna. Við komum frá því að þurfa bara að lifa af í náttúrunni með öllum ráðum. Það er í eðli manneskjunnar að vilja sanka að sér, það skapar öryggi. Fólk fær aldrei nógu há laun, það á aldrei nóg af dóti, á aldrei nógu stór hús. Eina sem hægt er að gera gagnvart slíkri tilfinningu er að reyna að skilja. Ég ræði þetta á námskeiðinu og líka hversu mikilvægt það er að tilheyra hóp. Við skiptum þar með okkur hlutverkum, mesta ógnin er alltaf að vera hafnað, rekinn úr hópnum. Höfnun er einmitt það sem fólk í lífskreppu er oft að takast á við. Það er höfnun að missa vinnu af hvaða ástæðu sem er. Þá tilheyrir maður ekki lengur hjörðinni, ef svo má segja. Þetta er upprunalegur og gamall ótti í mannverunni.
Maður sér töluvert af fólki sem er með gigtar- og sjálfsofnæmissjúkdóma og kemst ekki hjá því að velta fyrir sér hvort ekki sé verið að ofhlaða fólk, taugakerfið fái aldrei frið. Þegar fólk kemur heim frá vinnu sest það gjarnan við tölvuna og verður fyrir alls konar áreiti þar. Í gamla daga þegar fólk kom heim þá fór sefkerfið aftur á móti af stað, róandi kerfið okkar. Manneskjan hefur aldrei haft eins mikla þörf á því eins og núna að læra inn á sitt grunneðli. Það er eina leiðin til þess að hægt sé að lifa með nútímanum – að skilja okkur sjálf.“
Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Ljósmynd: Lárus Karl Ingason